20.04.1942
Efri deild: 37. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

3. mál, útsvör

Ingvar Pálmason:

Þetta frv., sem fyrir liggur á þskj. 174, er komið frá hv. Nd., og hefur sú hv. d. gert á því eina breyt., um að bæta gr. framan við frv., þar sem lagt er til, að aftan við 9. gr. l. komi ný málsgr., sem hljóðar, eins og sjá má í frv., um það, að á meðan vísitala kauplagsn. sé hærri en 110, miðað við grunntöluna 100 í jan.–marz 1939, skuli fjárhæðir þær, sem um getur í 2. og 3. tölul., hækkaðar sem nemur meðalframfærslukostnaði á skattárinu samkvæmt vísitölu kauplagsn. Þessir liðir í 9. gr. l. fjalla um það, hvenær eigi að skipta útsvari milli hreppa, þ.e.a.s. hvaða hámark kaups, sem viðkomandi útsvarsgreiðandi vinnur sér inn, eigi að miða við, þegar um er að ræða að skipta útsvarinu milli sveitarfélaganna, ef það hefur komizt upp fyrir það hámark. Þetta hámark er í sumum tilfellum 3000 kr., en í öðrum 5000 kr. eftir því, við hvað er unnið. Breyt. er sem sé um það, að meðan vísitalan er 110 eða meira, þá skuli við þá upphæð bætt kauplagsnefndarvísitölunni, t.d. nú 83%, og verður í fyrrnefnda tilfellinu útkoman 5490 kr. og hinu hlutfallslega hærri, og eftir þeirri breyt. á frv., sem gerð var í Nd., yrði þá fyrst skipt útsvörunum milli sveitarfélaga, þegar innunnið kaup þessara manna hefur náð þessu marki og önnur skilyrði eru fyrir hendi, sem um getur í l. Ég fæ ekki betur séð en að þessi breyt. sé mjög réttmæt, því að úr því að í l. er ákveðin viss upphæð kaups, sem miðað er við til þess að útsvar komi til skipta, þá virðist mér eðlilegt, að til greina komi í því sambandi verðlagsvísitalan, því að annars er það alveg sama sem að færa niður þá kauphæð, sem fyrir löggjafanum vakti, þegar l. voru sett.

Ég hef ekki náð til hv. samnm. míns, þess, sem var ásamt mér í meiri hluta allshn. um þetta mál við meðferð þess, því að n. klofnaði í málinu. En hv. 11. landsk. og ég lögðum til, að frv. næði fram að ganga. En hv. 2. landsk. er á móti frv., og þá sennilega eins, þó að þessi brtt. komi til greina.