16.04.1942
Efri deild: 34. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

74. mál, lendingarbætur í Skipavík

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Við 1. umr. þessa máls lýsti flm. allýtarlega þörfinni fyrir umbótum á þessum slóðum. Auk þess gat hann þess, að fyrir lægju óvenju miklar athuganir og rannsóknir á þessum stað, og eru þær sem fskj. með þessu. Þar er umsögn vitamálastj. og allýtarleg grg. frá verkfræðingi vitamálaskrifst., sem rannsakaði þessa staði, og niðurstöður beggja þessara manna eru þær, að þessi staður sé raunverulega hinn eini, sem til mála geti komið á þessu svæði, og þörf fyrir lendingarbætur mjög rík.

Nefndin athugaði þetta mál, og get ég lýst því yfir fyrir hennar hönd, að undirbúningur þess er mjög rækilegur og ýtarlegur og mjög aðgengilegt fyrir n. að gera sér grein fyrir, hvernig málið horfir við, og þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu, að n. fallist á, að frv. verði samþ. N. athugaði einstakar greinar frv. og komst að þeirri shlj. niðurstöðu að leggja til, að þær verði samþ. breytingalaust, að öðru leyti en því, að hún taldi rétt, að tekið væri fram í l., að í nefnd þá, sem hefði með höndum framkvæmdir lendingarbótanna, skyldu kosnir jafnmargir varamenn. Þetta er ekki stórt atriði, en af því að kosningar eru svo mikið að færast í það form að verða listakosningar, þótti sumum nm. rétt að taka þetta fram, og hafði n. í heild ekkert við það að athuga. N. leggur því til, að þegar kosið er í stjórn lendingarbótanna, skuli kosnir þrír varamenn. Að öðru leyti vill n. gefa þessu frv. sín beztu meðmæli og væntir þess, að hv. d. geti fallizt á það.