30.04.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (1051)

77. mál, menntaskólinn í Reykjavík

*Sigurður Kristjánsson:

Eins og hv. flm. gat um, þá flytjum við, hv. 6. þm. Reykv. og ég, brtt. við þessa till. til þál. þess efnis að fella niður síðari hluta hennar eða það atriði, hvort eigi beri að rannsaka flutning menntaskólans til Skálholts. Þótt þessi till. fari aðeins fram á að rannsaka þetta, þá felst þó í henni sá vilji Alþ., ef hún verður samþ., að flytja beri skólann til Skálholts, ef nokkur tök eru á.

Ég hef heyrt talað um þetta áður og ávallt litið á það sem fjarstæðu, og ég hef ekki getað sannfærzt af ræðu hv. flm. um, að nokkuð mæli með því, að þessi ráðstöfun sé gerð. — Flestir eru sammála um, að þessari stofnun þurfi að sjá fyrir sómasamlegu húsnæði hér í bænum, og það er ef til vill rétt, sem hv. flm. sagði, að of þröngt verði um skólann, þar sem hann er nú, en þó vildi ég, að menn hugsuðu sig vel um, áður en þeir rífa hann upp þarna og byggðu annars staðar, ef nokkrir möguleikar eru á að byggja hann á þessum stað. Því að staðurinn er einhver sá glæsilegasti í þessum bæ og gatan, sem hann horfir að, verður innan skamms aðal skrautgata bæjarins. Það er ekki nýtt, að ymprað sé á að flytja stofnanir burt úr bænum. Skammt er liðið síðan deilan stóð um aðsetursstað ríkisstjóra, og lauk þeirri rimmu svo, að hann var settur á Bessastaði, gamla einokunar- og áþjánarbælið, þaðan sem hörmungar og áþján dundu yfir Ísland um langa hríð. Það þótti hagaulegra að hafa hann á þeim stað heldur en í hinni siðspillandi Reykjavík. Sú ráðstöfun hefur orðið nokkuð dýr, og verður sjálfsagt mikið fé í það farið, áður en menn átta sig á þeirri flónsku, er þar hefur verið framin. Það hefur verið talað um að flytja Alþ. burt, því að ekki þóttu þessi „börn“ hér á Alþ. alls kostar tryggð fyrir spillingunni hér í Reykjavík. Enn fremur var búið að ákveða, að húsmæðraskólinn skyldi vera utan Reykjavíkur. Margt fleira hefur átt að flytja burtu, sem of langt yrði að telja upp hér.

Menn hafa ekki átt kost á að ræða þetta mál mikið. Þó hafa nemendur menntaskólans gert um það ályktun, og það má ganga út frá, að þeir hafi vit á þessu máli, þótt ungir séu. Álit þetta er svo eindregið, þrátt fyrir vinsemd þeirra til skólastjórans, þá virðingu, sem þeir bera fyrir lumum og ekki sízt áhrif hans á nemendur, að samþ. var, að skólinn skyldi vera kyrr, með 141 atkv. gegn 26. Aðrar samþykktir hafa ekki verið gerðar, enda ekki verið tími til þess.

Út af því, sem hv. flm. sagði um kosti þess að hafa skólann utanbæjar, þá vildi ég vekja athygli hans á því, að undirbúningur undir vandasöm störf í lífinu er fólginn í fleiru en því að læra þær námsgreinar, sem kenndar eru í skólanum. Unglingarnir þurfa líka að ganga í skóla lífsins, og fámennið hér á Íslandi hefur oft orðið Íslendingum þröskuldur á vegi þeirra til frama, svo að þeir á manndómsaldri þurftu að setjast á annan skólabekk. Mér finnst þess vegna ekki vert að bæta gráu ofan á svart í þeim efnum, með því að flytja skólann burtu héðan úr höfuðstaðnum. Hér í Reykjavík er að sönnu ekki kostur á því fullkomnasta í þessum sökum, en hitt er þó víst, að af því, sem kostur er á af slíku tagi hér á landi, þá er það helzt að finna hér í Reykjavík. Sá litli vísir til lista og annarra greina hærri menntunar, sem til er hér á landi, þróast og safnast saman að vonum þar, sem helzt er markaður fyrir það, þ.e. í fjölmenninu hér í Reykjavík. Þetta er eitt af því, sem ungir menn þurfa að kynnast. Það veitir þeim verðmæti og æfir andleg meltingarfæri þeirra, ef þeir eiga kost á að kynnast þessum hlutum. Menn kynnast í fjölmenninu mörgu, sem þeir þurfa að kunna skil á í lfinu, og það er ekki rétt að halda mönnum einangruðum frá slíkum hlutum þangað til á fullorðinsárunum, að þeir eru orðnir svo stirðir, að þeir eiga erfitt með að komast í tala við þessa hluti. Það er miklu erfiðara síðar heldur en ef menn eiga kost á því strax í æsku.

Flm. skýrði frá því, að sér fyndist nemendum heldur hafa farið aftur í sumum greinum, eftir því sem árin liðu, eins og t.d. í meðferð móðurmálsins o.þ.h. Það má vel vera, að þetta sé rétt. Ég get ekki dæmt um það. En einmitt í hans tíð hafa verið teknar upp miklar hömlur á að veita ungu fólki aðgang að menntaskólanum og reynt að velja úr það bezta, en mér skilt, að það þurfi að leita fleiri ráða til þess að halda í horfinu um þroska nemenda og framfarir. Ég hef ekki trú á, að þetta lagist með því að flytja skólann burt, eins og sumar aðrar stofnanir, sem ekki mega vera á almannafæri. Það var talað um það, að hér mætti ekki vera aðsetur fyrir afbrotamenn. Það var talað um að stofna drykkjumannahæli, og það á að fara með það út í sveit. Ég skil ekki í því, að aðalmenntastofnun landsins þurfi að sæta líkum kjörum. Og þegar flm. ræðir um þá hættu, sem leiði af því fyrir unga menn að vera í fjölmenninu, vildi ég leggja áherzlu á það, að reynslan hefur einmitt sýnt. að það er miklu vissara til þess að lenda ekki í spillingu, að menn kynnist sem fjölbreyttustu lífi á meðan þeir eru í æsku. Flm. minntist á Kaupmannahafnarskólavist í gamla daga. Íslenzkir námsmenn komu héðan frá Íslandi frá Bessastaðaskóla. En ekki held ég, að orð haf í farið af siðferðinu þeirra í þá daga. Þeir voru orðlagðir fyrir heimóttarskap og einræningshátt, en það, hve þeir þekktu lítið til borgarlífsins, varð til þess, að þrátt fyrir góða hæfileika, varð mörgum þeirra þetta reynsluleysi fjötur um fót. Það er nú einu sinni svo, að menn standa betur í straumi lífsins, ef þeir mega leggja út í hann og reyna styrkleika sinn í honum heldur en ef þeim er kastað út í miðjan strauminn allt í einu. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir, að ýmislegt misfarist, en það er þá alveg eins gott að grisja strax eins og að gera það síðar. Ég veit ekki, hvað segja á um þær tölur, sem flm. las til þess að sýna, hve mikill hluti nemenda væri Reykvíkingar. Mér finnst ákaflega eðlilegt, að Reykvíkingar séu tiltölulega mjög margir í skólanum, og ef það ætti að flytja skólann út í sveit til þess að jafna þetta, þá er ég hræddur um, að menn ættu ekki greiðari aðgang að honum úr öðrum landshlutum, nema þá rétt næst skólanum, heldur en þeir eiga nú. Hins vegar gæti verið, að það hindraði ýmsa Reykvíkinga í að sækja skólann, af því að það er svo, að sumir fátækir foreldrar hér í Reykjavík geta látið börn sín stunda þennan skóla, af því að hann er á staðnum, en það væri útilokað, ef skólinn væri fluttur burtu. Ég held, að þetta væri ekki rétt stefna.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fylgja þessari till. með fleiri orðum, en vænti þess, að þm. vilji rannsaka þetta mál sjálfstætt í huga sínum og meta það hlutdrægnislaust, hvort heppilegra muni vera fyrir þessa stofnun að vera hér í bænum, hvort það sé þroskavænlegra fyrir skólann að vera hér í fjölmenninu eða vera í fásinni, og sömuleiðis, hvort þeim tilgangi, að veita íslenzkum æskumönnum kost á því, sem getur þroskað hæfileika þeirra til undirbúnings undir æðra nám, er betur náð með því að hafa skólann þar, sem allar götur mætast og fjöldinn er mestur, eða á afskekktum stað.