30.04.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (1057)

77. mál, menntaskólinn í Reykjavík

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Út af fyrirspurn, sem má líta á, að hafi verið beint til mín, út af till., sem samþykkt var í fyrra og heimilaði stjórninni að skipa nefnd til þess að athuga skólamál, skal ég svara því, að þessi n. hefur ekki verið skipuð enn og ekki látið í ljós álit um skólamál. Frekari upplýsingar um það frá minni hendi eru ekki nauðsynlegar. Það var ágreiningur um það, hvort það ætti að skipa þessa nefnd, eins og hv. þm. rekur minni til, og togstreita um það, hvort það ætti að veita stj. þessa heimild, og það hafði áhrif á, að nefndin var ekki skipuð.

Um þessa till., sem hér liggur fyrir, tel ég rétt á þessu stigi að hafa ekki neinar verulegar umr. eða gefa tilefni til þess, að þær séu lengdar. Aðalatriðið er að ræða þetta, þegar álit liggur fyrir frá þeirri nefnd, sem skipuð verður. Ég held, að það sé skynsamlegt fyrir okkur að ræða ekki fyrst og fremst um það, hvort skólinn skuli vera í Reykjavík, áður en athugun liggur fyrir um, hvort hann skuli vera þar eða ekki.

Það má færa ýmis rök með og móti, en ég hélt, að aðalatriðið í skólamálum væri það, að geta haldið unglingunum á því aldursskeiði, sem þeir eru ekki búnir að ná þeim þroska, að þeir þoli sum af þeim áhrifum, sem þeir verða fyrir, aðalatriðið væri, að halda þeim burt frá þeim solli, sem þeim er skaðlegur. Ég er ekki að tala um Reykjavík í því sambandi. Það á að tala um, hvort heppilegra sé að hafa skólann í kaupstað eða sveit. Ég hef ekki aflað mér neins sér staks fróðleiks til þess að gera samanburð á, hvernig þessu er háttað annars staðar, en ég hygg, að ég fari rétt með það, að svo mikið er upp úr því lagt, hverjir búa í háskólabæjunum, t.d. Cambridge, að stjórn skólanna hafi vald til að ákveða, hverjir megi setjast að í bæjunum, og geti vísað mönnum burtu, ef vera þeirra er álitin óheppileg fyrir skólalífið á þeim stað. Þó að ekki sé hægt að taka þetta upp hér, er auðsætt, hve mikið er lagt upp úr því, að unglingarnir verði ekki fyrir óheppilegum áhrifum.

Ég man það vel, að sá ágæti skólamaður, sem stjórnaði skólanum, sem ég stundaði nám í, — í sambandi við þau góðu áhrif, sem unglingarnir eiga að verða fyrir í bæjunum og eiga að leiða til grisjunar, m.ö.o. að láta það lélega í skóginum falla —, ég man eftir því, að hann var ekki með fordóma eða óvild til bæjanna, en ég man mjög vel eftir reglunum, sem við urðum að hlíta um að vera ekki í bænum eftir vissan tíma á kvöldin, og þeir, sem voru ekki í heimavist, urðu einnig að gefa skýrslu, ef þeir voru úti á kvöldin og brugðu út af þeim ströngu reglum, sem um skólann giltu. Þetta ber allt að sama brunni. Við getum misstigið okkur og gerum það oft, en erum aldrei veikari fyrir en á þeim aldri, þegar við stundum skólanám. Á þeim aldri, þegar reynslan er engin og hætta á, að við verðum fyrir óheppilegum áhrifum. Og ég held, satt að segja, a.m.k. frá mínu sjónarmiði, að enginn unglingur tapi á því að vera alinn upp utan við sollinn, sem kallaður er, og í talsverðri einveru, a.m.k. held ég, að enginn nemandi tapi á því ð vera alinn upp í ekki meiri einveru en er í fjölmennum heimavistarskóla, á stóru skólaheimili. Ég vil heldur segja, að það muni sannast í dag og um langa framtíð, spakmælið, sem þingmenn voru að tala um í dag: „Þeir munu lýðir löndum ráða, er útskaga áður of byggðu.“ Það var reynslan, og það mun verða.

Íslendingar þurfa áreiðanlega að fá þroska samhliða náminu, og í sambandi við það að vera utan við sollinn sem mest að hafa tækifæri til þess og tíma að mótast hver og einn eftir því, sem honum er eðlilegt, og ég held, að það verði ákaflega erfitt að halda því fram, að sá þroski njóti sín betur í sollinum.

Ég hef aldrei haldið því fram í þessu sambandi og álít, að menn ættu að leggja það niður að tala eins og Reykjavík væri eitthvert spillingarbæli. Því hefur aldrei verið haldið fram af neinum formælendum þessarar stefnu, að það ætti að reisa skólann utan Reykjavíkur, heldur er um hitt rætt, hvort skólinn á að vera í sveit eða kaupstað. Og það má aðeins minnast á það í þessu sambandi, að einn af helztu skólamönnum landsins og þeim reyndustu, Sigurður skólameistari á Akureyri, hefur nú alveg nýlega sent til fjvn. bréf, þar sem hann óskar eftir, að gert verði við leikfimihús skólans, vegna þess að hann segist neita því að láta nemendur sína stunda nokkurt nám utan skólaveggjanna, meðan þeir séu í skóla hjá sér. Og hann sagði á fjölmennum fundi á Akureyri, að þrátt fyrir það, þó að honum líkaði Akureyri allra bæja bezt, þá hefði aldrei verið annað en tjón að því að hafa skólann á Akureyri, vegna þess tjóns, sem nemendur hefðu orðið fyrir af þeim solli, sem í bænum er. Þetta sjónarmið má reyndar nefna. Ég efast um, að Sigurður skólameistari fáist til að gegna störfum við skólann, ef þessi regla verður brotin og hann þarf að láta nemendur vera utan skólans við eitthvert nám, þótt ekki sé nema í leikfimi. Þó að mörg rök megi færa gegn þessu máli, þá hygg ég, að þegar á það er litið, að maður eins og Sigurður Guðmundsson skólameistari, jafnreyndur maður í skólamálum, heldur þessu fram viðvíkjandi því að hafa skólann á Akureyri, þá sé a.m.k. ekki fjarri lagi, að það megi taka það til athugunar í þeirri rannsókn, sem þessi væntanlega nefnd á að gera, hvort skólinn eigi að standa í kaupstað eða sveit. Og það er dálítið eftirtektarvert, og ég get sagt frá því í þessu sambandi, að í þeim nýstofnaða húsmæðraskóla hafa sumar af beztu húsmæðrunum í Reykjavík, og jafnvel eftir beiðni nemendanna, óskað eftir því, að nemendurnir væru teknir í heimavist í skólanum og undir þann aga, sem heimavistunum fylgir. Þegar ég kom í skólann og sá lista yfir þær ungu stúlkur, sem eru í heimavistinni, þá vakti þetta athygli mína. Og ég álít þetta mjög eðlilegt. Það er ekki vafi á því, að agi í skólanum er betri með þessu móti, að nemendur séu í heimavist. A.m.k. þótti Stefáni skólameistara á Akureyri það alveg auðsætt mál, og var honum ekki neitt illa við kaupstaðina —, að það væri stór galli á skólanum að hafa okkur nemendurna ekki alla í heimavist, heldur þyrftu sumir að búa úti um bæinn. Og ég er a.m.k. ekki í neinum vafa um það, að ef ég ætti að senda krakka í skóla, hvort heldur væri, hér í Reykjavík eða í öðrum bæjum, þá mundi ég velja þeim þann sama kost og sum af beztu heimilunum í bænum hafa gert gagnvart sínum unglingum, sem hafa þess kost að geta haft sína unglinga heima hjá sér um skólatímann, að ég mundi vilja hafa mín börn í heimavist. Og það er áreiðanlega athugandi mál fyrir þessa nefnd, sem tekur þetta mál til meðferðar, ef það verður ofan á, að skólinn skuli standa í kaupstað, að þá er það áreiðanlega lágmarkið, sem verður að setja, að honum verði þannig fyrir komið, að hann hafi nægilega stórt land umhverfis sig, þannig að ætlað verði fyrir því, að nemendurnir geti verið í heimavist í skólanum undir umsjón skólastjórans.

Ég álít, að við eigum ekki að mæta þessu máli með þeim fordómum, svo stórt sem það er, að ekki sé svigrúm fyrir það í þáltill., ef samþ. verður, að það eigi að athugast, hvar skólinn eigi að standa, hvort heldur í sveit eða kaupstað.

Eitt vil ég segja að lokum. Ýmsir menn álíta það, að það muni verða ódýrara fyrir þá, sem búa í bæjunum, og þá í þessu tilfelli í Reykjavík, að kosta börn sín í þennan skóla, ef hann er hér í bænum. Ég hygg, að sú n., sem rannsakar þetta mál, muni komast að þeirri niðurstöðu, að það verði ódýrara fyrir foreldrana að kosta börn sín í skóla í sveit, þar sem er heimavist og þar af leiðandi ókeypis eða ódýrt húsnæði. Og það þarf ekki annað en benda á sveitaskólana, sem nú eru, til að sanna þetta að verulegu leyti, þar sem fæðiskostnaður er svo lágur, að ég hygg, að það sé næstum óhugsandi, þó að nemendur séu hafðir heima, að það verði ekki í beinum útgjöldum dýrara í Reykjavík heldur en þessi fæðiskostnaður í sveitaskólunum. Því að unglingar, sem í sveitaskólunum hafa dvalizt, þurfa sannarlega ekki að hafa mikla peninga þar. T.d. geta þeir auðveldlega kostað sig þar af kaupi sínu fyrir sumarvinnuna. Þetta hygg ég, að n. mundi komast að niðurstöðu um m.a. Ég hygg því, að það sé alls fjarri, að það, að hafa skólann í sveit, sé að gera foreldrum, og þar með þeim, sem búa í bænum, neitt erfiðara fyrir um að kosta börn sín til náms. En hinum, sem búa utan bæjar, mundi þetta vera ódýrara. Því að það má telja alveg ókleift fyrir þá, sem utan Reykjavíkur búa og ekki eru í góðum efnum, að kosta börn sín og unglinga til náms í Menntaskólanum í Reykjavík, nema þeir sömu foreldrar eigi skyldmenni hér í bænum, sem taki við unglingunum endurgjaldslaust eða endurgjaldslitið. Og þegar maður athugar þessi 25% nemendanna í skólanum, sem heima eiga utan Reykjavíkur, þá sér maður, að þannig er þessu háttað um flesta þá nemendur. Og það er vissulega atriði, sem má koma til álita í sambandi við þetta mál, þótt sleppt væri öðrum atriðum.