30.04.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (1060)

77. mál, menntaskólinn í Reykjavík

*Haraldur Guðmundsson:

Mér finnst þessar umr. að ýmsu leyti hafa verið skemmtilegar, þó að ég geti ekki neitað því, að þær hafi verið nokkuð á víð og dreif. Ég get t.d. ekki séð, að það, sem sá ágæti skólameistari, Sigurður Guðmundsson á Akureyri, hefur sagt viðvíkjandi skólahaldi við þann skóla, sem hann veitir forstöðu, gefi til kynna, að sveitaskólarnir séu betri en kaupstaðaskólarnir. Ég veit að vísu, að á þessum síðustu og verstu tímum eru ýmsir erfiðleikar í sambandi við skólahald fyrir unglinga. Ég minnist þess ekki að hafa séð þennan ágæta skólamann, Sigurð Guðmundsson, halda því fram, að erfiðleikarnir á því hverfi, þó að skólarnir væru fluttir upp í sveit.

Um þá þáltill., sem hér liggur fyrir, vil ég segja það, að mér finnst fullkomlega þýðingarlaust og ástæðulaust að rannsaka í þessu sambandi, hvort tiltækilegt sé að flytja menntaskólann að Skálholti, þegar af þeirri einföldu ástæðu, að það kemur ekki til nokkurra mála, að Reykjavík verði menntaskólalaus. Það, —að taka skólann héðan, væri, ef til þess kæmi, stórkostlega öfugt spor. Það atriði skólamálanna út af fyrir sig að hafa skóla í sveit, hefur vitanlega sína kosti, og jafnvel í sumum tilfellum hafa sveitaskólarnir með góðri stjórn kosti fram yfir kaupstaðaskólana. En Reykjavík er orðin það stór borg, að það að ætla öllum þeim Reykvíkingum, sem þreyta vilja stúdentspróf, að hverfa á brott til þess úr bænum til annars staðar, er gersamlega ástæðulaust, sérstaklega eftir að það hefur verið upplýst, að 3/4 af nemendum skólans eru úr Reykjavík, og það er ekki óeðlilegt, þó að sá hundraðshluti nemendanna við þennan skóla, sem eru Reykvikingar, vaxi vegna Akuryrarskóla og annarra skóla.

Það er mikið rætt um enska skóla í þessu sambandi. Þar hafa að vísu verið byggðir ágætir sveitaskólar. En ég veit ekki annað en að í hverri einustu stórri borg þar sé menntaskóli. Og að engir háskólar séu nema í Oxford og Cambridge, það nær ekki nokkurri átt. Það eru háskólar í fjölda mörum borgum í Englandi. En ástæðan fyrir því, að sveitaskólarnir þar eru góðir, er sú, að miklu er kostað til þess að gera þá góða með því að fá þangað ágæta og þekkta menn sem kennara, og þessir skólar eru fínir skólar og dýrir, og þangað láta auðmenn börn sín fara. Það þykir ríkmannlegt að hafa börn sín þar, og það hefur skapazt mikill ljómi í kringum þessa skóla. En þetta á ekkert skylt við það skólamál, sem hér er um talað, né við okkar skóla. Og með tilliti til þess, sem ég hef nú sagt, finnst mér það ekki koma til nokkurra mála, að Menntaskólinn í Reykjavík verði lagður niður sem slíkur.

Ég er sannfærður um, að það muni tefja aðgerðir í þessu máli, ef það á fyrst og fremst að deila um það, hvort skólinn eigi heldur að vera hér eða í Skálholti, og síðan að fara að leita að stað fyrir hann í Reykjavík.

Þær upplýsingar, sem hæstv. forsrh. gaf um það, að sómahúsfreyjur í Reykjavík vildu heldur, að dætur sínar væru í heimavist, — ja, þær ættu nú heldur en ekki að gefa til kynna, að það ætti ekki að vera óefnilegt eftir því að setja upp heimavistarskóla hér í bænum, ef sú heimavist yrði með þeim afbrigðum, að menn hér vildu heldur láta börn sín vera í heimavist heldur en heima hjá sér. Heimavistarspursmálið er ekki erfitt viðfangs eftir þeim upplýsingum, sem hæstv. forsrh. gaf hér áðan.

Í stuttu máli: Mér finnst allt mæla með því að samþ. fyrri hluta þáltill. þessarar. En menntaskólinn á að vera hér í Reykjavík, hvort sem svo á að reisa annan skóla í Skálholti.