05.05.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (1076)

77. mál, menntaskólinn í Reykjavík

Flm. (Pálmi Hannesson):

Herra forseti ! Ég vil nú leitast við að svara því í stuttu máli„ sem fram hefur komið. Hv. 5. þm. Reykv. ræddi nokkuð um heimspekileg efni, sem hann hefur minnt á áður. Hann talaði um freistingar, sem yrðu á vegi ungra manna, og þær hættur, sem þeim bæri að höndum, en ekki þýddi að þoka úr vegi fyrir þeim, enda kæmu freistingarnar því harðar niður á unglingunum síðar meir. Það eru ekki allir á sömu skoðun um þetta. Ég álít, að einmitt 4 árin eftir ferminguna séu sá aldur, sem muni verða fyrir öllum þorra manna miklu hættulegri en þau ár, sem á eftir koma. Þetta er almennt viðurkennt. Í annan stað talaði hv. þm. um, að það hafi ekki verið meining sín, að nemendur yrðu felldir úr skólum eða „grisjað“ á þann hátt, eins og hann sagði í fyrri ræðu sinni, heldur hitt, að reyndust nemendur ekki færir um að þreyta nám við menntaskólann, mundi leitað annarra úrræða. Reynslan hefur sýnt, að menn, sem komnir eru inn á skólabrautina, halda áfram námi, meðan þeir geta með nokkru móti. Nærri því hver einasti maður, sem verður að hætta við skólanám sitt, sér eftir því allt sitt líf. Þess vegna er meira en lítil ábyrgð, sem fylgir því, ef mönnum er komið út úr skólum, enda hlýtur skólinn alltaf að halda verndarhendi sinni yfir þeim nemendum, sem þangað eru komnir og reyna að koma þeim áfram til prófs, ef þess er nokkur kostur. Hitt er alkunnugt, að menn, sem komnir eru inn í skólana, hverfa þaðan ekki at ráðnum hug til annarra starfa. Ég þekki eitt dæmi frá mínum námsárum, að einn skólabróðir minn varð að hætta námi sökum fátæktar. Það varð honum til gæfu, og hefur hann komizt bezt af okkar allra, enda ágætur maður. En þó uggir mig, að hann sjái enn eftir því að hafa ekki lokið námi og orðið stúdent. Ég get bent á dæmi frá skólastjórnarárum mínum: Ekki fyrir löngu kom nemandi í skólann, sem hafði lokð sveinsprófi í múraraiðn. Honum fannst harn geta orðið sér og stétt sinni til meira gagns, ef hann hefði stúdentspróf en ella. Nú lýkur hann stúdentsprófi, og um sama leyti fær hann meistararéttindi í iðn sinni. Hvað gerir hann svo? Fer hann og gerist múrari? Nei, ónei. Hann heldur til Þýzkalands og leggur stund á verzlunarfræði. Það er líkt og sogdæla hins breiða vegar, sem dregur unga menn áfram á námsbrautinni, ef þeir á annað borð komast þangað. Ég hygg, að allir skólastjórar reyni eftir föngum að lofa nemendum að komast áfram til fullnaðarprófs, og einmitt þess vegna hlýtur það að verða ráðandi viðhorf hjá skólamönnum að reyna að koma skóla sínum þar fyrir, sem nemandinn hefur meiri möguleika til að ljúka náminu og komast til þroska.

Hv. þm. sagði, að það væri mjög vafasöm kenning, að menn hefðu gott af því að brjótast áfram af sjálfsdáðum. Mönnum bæri heldur að óska öllum foreldrum landsins svo góðs efnahags, að þeir gætu veitt börnum sínum betri skilyrði til að ná andlegum og líkamlegan þroska. Vitanlega er þetta rétt, ef allt annað er tekið með. En mér er kunnugt um, að á fjölda mörgum heimilum vita menn ekki, hvað kemur unglingunum helzt að haldi, þó að efnin séu nóg. Þjóð, sem hefur lifað við skort og harðrétti um langa hríð, eins og vér Íslendingar, gætir ekki varúðar, þegar um hægist. Og þegar vér komumst yfir fé, reynum við ekki að halda því frá börnum okkar, heldur lofum þeim að taka þátt í því skemmtanalífi, sem á boðstólum er, án þess að gefa því gaum, hversu hollt það sé ungu fólki. Mér virðist sú tízka vera ríkjandi, að unglingar, verði fullorðnir um aldur fram, löngu áður en jafnaldrar þeirra erlendis, þar sem ég þekki til. Aftur er landið kalt og kjör þess hörð, og þjóðin hefur komizt vel af hingað til, með því einu að leggja að sér hart, mjög hart, ef með þurfti. En hversu fer nú um þá kynslóð, sem er að vaxa upp í landinu? Er hún tamin við þá sjálfsafneitun og aga, sem náttúra þessa lands krefur af börnum þess.

Ég hef átt vinsamleg viðskipti við mörg heimili hér í bæ, og mér virðast þau vera all misjöfn. Ég get þess hér, að traustustu og beztu heimilin í Reykjavík eru elztu heimilin, heimili þeirra manna og ætta, sem lengst hafa lifað hér. Heimili aðflytjenda eru aftur á móti frekar veik. Mörg sjómanna- og iðnaðarmannaheimili eru fullkomin fyrirmynd og meðal þeirra, sem bezt ala börn sín upp. En miklu lausar á uppeldi er aftur hjá okkur, sem höfum flutzt hingað eftir að við höfum tekið þroska, og þetta er eðlilegt. Við höfum orðið að breyta um stétt og stað og þá eigi hirt um að halda í þá uppeldisháttu, sem okkur þóttu harðir í okkar tíð. Og ég er sannfærður um, að mjög mörg heimili innflytjenda í bænum eru veikar uppeldisstofnanir.

Hv. þm. gat um, að það mundi verða nokkuð dýrt að koma börnunum burt til framhaldsnáms. Ég sagði síðast, að ég teldi þetta meginatriði málsins, sem þyrfti að rannsaka vel, áður en gengið yrði frá endanlegum till. í þessu máli. Ef fólk getur ekki af sjálfsdáðum kostað börn sin til framhaldsnáms, verður ríkið að hlaupa undir baggann þannig, að efnilegir nemendur geti komizt áfram. Þetta er fullkomið höfuðatriði, sem ekki er hægt að ganga fram hjá. Svo framarlega sem rannsókn leiddi í ljós, að fátækum nemendum reyndist ókleift að stunda skólann, ef hann væri fluttur úr bænum, kemur ekki til mála að flytja hann burt. En þetta þarf rannsóknar, og má þar ekki gleyma þeim nemendum, sem búa annars staðar en í Reykjavík.

Hv. þm. sagði, að engir erfiðleikar væru á því að byggja skólann á sama stað og hann er n:í. Ég er viss um, að það er bæði dýrt og óhentugt. Ég hef lagt málið þannig fyrir, að ríkisstj. hafi frjálsar hendur um framkvæmd þess. E n ég hef í málflutningi mínum reynt að gefa henni nokkrar bendingar, samkvæmt reynslu minni og skoðun, um það, hvernig ég telji, að eigi að leysa það. Mér þykir það hart, ef till. verður ekki samþ. eins og hún er, þó að í niðurlagi hennar sé bent á, að hinn gamli skólastaður, Skálholt, verði einnig rannsakaður, þegar nýtt skólahús verður byggt. Mér er algerlega varnað þess að skilja, að ekki megi rannsaka hann eins og aðra staði, og þá geta hv. þm. skapað sér skoðun á þessu máli, þegar fengizt hefur raunhæf niðurstaða af rannsóknunum.

Hv. 8, landsk. þm. hefur flutt skrifl. brtt. við tillgr. þess efnis, að í stað þess, að í till. segir: „hvort ekki reynist tiltækilegt að flytja mennlaskólann að Skálholti“ o.s.frv., vill hann hafa að „reisa menntaskóla í Skálholti“. Ég legg áherzlu á það fyrir mitt leyti, að það væri einmitt Menntaskólinn í Reykjavík, sem fluttur yrði, með eignum sínum, venjum og kennaraliði, ef á annað borð ætti að reisa menntaskóla úti á landi. Ég benti á fyrir nokkru, að þegar er hafin viðleitni að stofnun nýs menntaskóla hér í bænum, og væri miklu eðlilegra, að sú stofnun fengi að vaxa til þess þroska, sem hún getur náð, og gamli skólinn fluttur á þann stað, sem hann upphaflega var.

Ég vil ekki hafa ræðu mína lengri, en leyfi mér að biðja hæstv. forseta um nafnakall um báðar till.umr. lokinni.