08.05.1942
Sameinað þing: 13. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (1082)

77. mál, menntaskólinn í Reykjavík

Flm. (Pálmi Hannesson):

Herra forseti ! Hv. síðasti ræðumaður kom inn á nokkur atriði, sem ég vildi svara.

Hann minntist á, að aðeins nokkur hluti þeirra, sem sæktu um inngöngu í menntaskólann, kæmust þangað. Ég vil minna á, að eftir núgildandi l. er það bæjarins að sjá um unglingafræðslana, og samkv. því starfa hér tveir gagnfræðaskólar.

Ég hef fyrir löngu. gert till. um, hvernig unglingafræðslunni ætti að haga. Mín till. er sú, að bærinn komi upp tveimur gagnfræðaskólum, öðrum fyrir austurbæ, hinum fyrir vesturbæ, og þeir væru það, sem kallað er „graderaðir“, þ.e. að þar væri fræðsla í verklegu og bóklegu námi, og menn væru valdir til þess eftir vilja og getu, þannig að þeir, sem væru verklagnir, en ekki bókhneigðir, stunduðu verklegt nám, en hinir, sem væru hneigðir til bóklegra iðkana, stunduðu nám í þeim greinum. Síðan, þegar lokið væri gagnfræðaprófi út úr þessum skólum, væri sérstök prófnefnd, sem veldi þá, sem hæfir þættu til að ganga í lærdómsdeild menntaskólans, og væri þar miðað við ástæður þjóðfélagsins og annað. Kunnugt er, að það er ekki nema nokkur hluti æskulýðsins, sem er gæddur þeim gáfum og áhuga til bóklegra iðkana, að hann sé fær um að leggja á sig stúdentspróf, en æskilegt er, að stór þorri þeirra geti stundað gagnfræðanám. Þeir, sem ganga gegnum menntaskóla, verða að hafa þær gáfur og atorku, að þeim sé bjóðandi þungt nám, því að ég er sannfærður um það, að þeir stúdentar, sem fara í önnur lönd til mennta, fá ekki betra fararnesti en haldgóða þekkingu. Þeir eiga heimtingu á þessu nesti. Þess vegna verður menntaskóli að vera þungur og getur því ekki verið fyrir aðra en þá, sem vilja og geta lært mikið. Reynslan hefur orðið sú, að allur fjöldi þeirra manna, sem í menntaskólann gengur, leiðist áfram til stúdentsprófs, og síðan dragast menn áfram með straumnum til háskólans. Ég tel rétt að láta þessi atriði koma fram, en þar sem ungmennafræðslan hér er bæjarmálefni, hef ég ekki haft annan vettvang fyrir þær en skólasetningu og skólauppsögn, og þar hef ég rakið þær oftar en einu sinni.

Ég vil einnig benda hv. þm. á, að þótt nokkuð kunni að vera áfátt um inntöku í menntaskólann, þá eiga þeir, sem ekki komast þar að, nokkurs úrkosta engu að síður, þar sem hér eru tveir gagnfræðaskólar, annar með skólagjaldi, en hinn án skólagjalds, og auk þess hafa verið haldin ókeypis námskeið við menntaskólann þeim til hjálpar. En útkoman hefur orðið önnur en ætla mætti, sem sé, að þeir fátækari virðast eiga erfitt með að koma börnum sínum til náms þessa braut, og það eru fyrst og fremst efnaðri stéttirnar og miðstéttirnar, sem senda börn í menntaskólann. Um undanfarin ár hefur húsakostur o.fl. hjá undirstéttunum verið þannig, að þær hafa ekki getað veitt börnum sínum þau skilyrði, sem nauðsynleg hafa verið til þess að geta þreytt þungt nám við æðri skóla. Þetta er mín skoðun, byggð á nokkurri reynslu, og ég vænti þess, að hv. þm. viðurkenni, að hún hafi nokkuð til sins máls.

Hv. 4. þm. Reykv. ræddi einnig um flutning skólans, og greinir okkur þar vitanlega á að ýmsu leyti. Ég hef þó ekkert tekið af í þessu máli enn, og vitanlega hefur það ýmislegt til síns máls að hafa skólann hér. Það er rétt, að erlendis eru menntaskólar viða í höfuðborgum og öðrum stórborgum, þó að hins vegar í síðari tíð hafi allmikið verið gert að því að færa þá út fyrir bæina.

Hv. þm. sagði, að nemendur ættu þess lítinn kost að lesa erlendar bækur, ef skólinn væri fluttur úr bænum. Ég býst við, að þeir ættu að geta fengið þær bækur, sem til þyrfti, þó að skólinn væri ekki hér í bæ, því að vitanlega mundi hann eiga sín bókasöfn. Það er sorglegt, en þó satt um þá góðu nemendur, að þeir fara lítið á söfn, nema Landsbókasafnið til að lesa námsbækur sínar. Þetta er raunar skiljanlegt og kemur af því, að bærinn svelgir frístundir þeirra, svo að þeir hafa ekki tóm til að sinna slíkum lestri. Hv. þm. segir, að skólinn verði slitinn úr sambandi við menninguna, ef hann er færður að Skálholti. Skyldi ekki mega fá austur þangað fræðimenn og menntamenn til að flytja þar fyrirlestra? Og ég held, að meira yrði eftir þeim tekið þar en hér.

Annars skal ég ekki þreyta um þetta lengri kappræður. Ég býst við, að þær sannfæri engan, og ég hef hins vegar ekki látið sannfærast af því, sem fram hefur komið af hálfu hv. andstæðinga. Eins og ég gat um í fyrstu ræðu minni, hef ég talið skylt að láta þetta sjónarmið koma fram, og spá mín er sú, að einhvern tíma, áður en mjög langt um liður, verði menn nokkru mildari í dómum sínum um þetta mál og jafnvel, að þeir telji ekki ófyrirsynju að færa eitthvað af menntaskólum þjóðarinnar út úr bæjunum o ekki vegna neins annars en unga fólksins sjálfs.