04.05.1942
Efri deild: 48. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

59. mál, bændaskóli

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti: Þetta frv. er flutt í Nd. af Sunnlendingum og er nú hingað komið talsvert breytt. Landbúnaðarnefnd hefur athugað það og leggur til, að það verði samþykkt. Það orkar ekki tvímælis, að þörf er fyrir meiri bændafræðslu en nú er, en ef til vill má deila um, hvernig haganlegast er að koma henni fyrir. Ýmsir ætla, að það sé bezt í sambandi við alþýðuskólana. Þeim flokki fylgi ég ekki, nema að litlu leyti, og get ég að því leyti fullkomlega mælt með þessu frv. Hins vegar vil ég taka fram, að fylgi mitt við frv. er fyrst og fremst byggt á því, að sett séu um þetta nokkur sérákvæði, sem gildi fyrst um sinn gagnvart þessum væntanlega skóla. Mér er vel ljóst, að hvorugur þeirra skóla, sem nú eru til, hefur nægilegt fjármagn til þess að geta komið ár sinni eins vel fyrir borð og vera þyrfti, og ég tel, að það beri að sitja fyrir að fullkomna það, sem fyrir er, áður en byrjað er að káka við annað af vanefnum. Ég er með því að setja l. um að mynda þennan skóla, vegna þess að í sérákvæðunum stendur; að eftir gildistöku þessara l. skuli svo fljótt sem unnt er, þegar fé er veitt til þess á fjárlögum, reisa bændaskóla Suðurlands. Ég vænti þess, að á Alþ. sitji framvegis menn, sem hafa skilning á þörfinni fyrir að búa sem bezt að þeim bændaskólum, sem fyrir eru, og þegar það er gert, sé sjálfsagt að láta þennan skóla koma upp, en ekki fyrr. Í trausti þess, að kröftunum verði ekki dreift enn þá meira þannig, að hinir skólarnir komist ekki í það horf, sem menn vildu óska, er ég með þessu frv. og að skólinn komi á sínum tíma.