04.05.1942
Efri deild: 48. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

59. mál, bændaskóli

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Mig langar til að fá nokkra fræðslu hjá hv. frsm. um, hvort nokkuð hafi verið rætt um, hvar slíkum skóla hafi verið ætlaður staður. Það skiptir kannske ekki máli um framgang þessa máls, og ég mun greiða frv. atkv., þó að upplýsingar um þetta verði ekki tæmandi, en ég hef heyrt raddir manna um, að nú þegar hafi margir menn komið auga á einn stað á Suðurlandi, sem sé álittegur til að vera skólastaður fyrir fræðslu bændefna, sem sé Skálholt. Ég vil gjarnan, að það komi fram við þessa umr., hvort nokkuð hefur verið um þetta rætt, svo að hv. frsm. sé kunnugt um, og enn fremur það, sem enn svífur í lausu lofti, hvenær hafizt verði handa um stofnun þessa skóla. Mér skilst helzt á hv. frsm., að hann ætlist til, að ekki verði rokið í það strax að koma skólanum á, en mér skilst, að hv. flm. telji það mjög aðkallandi. Ég vil fá fræðslu um þetta, því að ég er með þessum skóla og vil, að full alvara fylgi slíku máli, og ég hygg, að yfirleitt sé sú skoðun uppi í þinginu, að þessi skóli eigi að komast upp svo fljótt sem verða má.