31.03.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (1098)

34. mál, lögreglueftirlit utan kaupstaða

*Flm. (Bjarni Bjarnason):

Við flm. þessarar þáltill. höfum flutt hana, vegna þess að okkur er kunnugt um; hversu erfitt er að halda reglu á samkomum, sérstaklega skemmtisamkomum, víða úti um landið, einkanlega í þeim héruðum, sem liggja út frá bæjum og kauptúnum.

Hér í Reykjavík mun vera á annað hundrað lögregluþjóna, sem eiga að gæta reglu í bænum innan Hringbrautar, að ég held. Það virðist svo, að þessir lögregluþjónar hafi nóg að gera í bænum, og margir kvarta undan, að eftirlit með vangæfu fólki og óreglusömu sé ekki nærri því í því lagi, sem þyrfti að vera. Og þá er augljóst, að fjöldi af þessu óreglusama fólki leitar á samkomur, sem haldnar eru á Suðurlandsundirlendinu, sérstaklega í Árnessýslu, þar sem samgöngur eru greiðar og samkomurnar einatt auglýstar þannig, að almenningur veit um þær, enda verð ég að viðurkenna, að ég hef allmikið orðið var við það, þar sem ég er kunnugur, að bifreiðar með ölvuðu fólki koma á þessa skemmtistaði. Fyrir er rólegt fólk, sem ekki hefur kjark til að hindra, að þetta fólk, sem er frekt og uppvöðslusamt, fari inn á samkomurnar, og ég hef verið sjónarvottur að því, að fámennur hópur af svona fólki hefur gersamlega eyðilagt skemmtisamkomurnar.

Þessi till. miðar að því að hindra, að þetta órólega fólk geti komizt inn á skemmtisamkomurnar og eyðilagt þær. Við leggjum til, að námskeið fari fram í héruðum, þar sem þess er þörf, og mönnum, sem til þess yrðu kjörnir, verði kennt það nauðsynlegasta, sem lögregluþjónar þurfa að kunna til þess að standa í stöðu sinni, og sýslumaður gæti þá kvatt þá til starfa, þegar honum þætti ástæða til eða þess væri óskað.

Ég tel, að hér sé nauðsynjamál á ferðinni, og vænti því, að till. verði tekið vel.

Ég legg til, að till. verði vísað til allshn.