31.03.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (1100)

34. mál, lögreglueftirlit utan kaupstaða

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er að sumu leyti ekki nema gott, að svona till. skuli koma fram, en samkv. þeirri löggjöf, sem til er, hafa svona námskeið þegar tíðkazt. Þau hafa farið fram á tveimur stöðum, í Þingeyjarsýslu og í Eyjafirði. Það er gert ráð fyrir því í löggjöf, sem nú gildir, að ríkið kosti þessi námskeið eins og námskeið fyrir lögregluna í Reykjavík, og samkv. því hefur þetta verið gert. Það hefur verið ætlunin, að héruðin gætu á þennan hátt komið sér upp lögreglu, sem grípa mætti til undir þeim kringumstæðum, sem gert er ráð fyrir í þáltill. En það er enn þá eitt atriði, sem ekki hefur verið gengið frá í sambandi þið þessa lögreglu, en það er það, hver á að greiða kostnaðinn við lögregluhaldið. Það er gert ráð fyrir með þessi námskeið, að ríkið greiði kostnaðinn a.m.k. við kennsluna þar, en svo kemur strax kostnaður við búninga handa öllum þessum lögregluþjónum og ef til vill einhver þóknun fyrir að taka að sér þetta starf og vera viðbúnir að gegna kalli, hvenær sem er, og að sjálfsögðu greiðsla, þegar kallið kemur og þeir þurfa að sinna þessum störfum. Er æskilegt, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, vildi sérstaklega gera till. um það, hvernig kostnaðarhliðinni skuli hagað, því að að öðru leyti er málið komið á það stig, sem till. gerir ráð fyrir, og hvert sýslufélag, sem hefur nægilega mikið af ungum mönnum til þessa starfs, getur fengið svona tilsögn. Í grg. er gert ráð fyrir, að þóknun til þessarar lögreglu verði greidd úr ríkissjóði. Í kaupstöðum greiðir ríkið 1/6, þar sem tala lögregluþjóna hefur náð vissri hæð, og á einstöku stöðum, þar sem mikið er um útlent herlið, hefur ríkið auk þess séð fyrir talsverðri lögreglu og hefur greitt kostnaðinn við hana að öllu leyti. Ég vit vara n. við því, ef ríkið á að greiða allan þennan kostnað í sveitunum, því að hann gæti orðið talsvert mikill. Reynslan er sú, að alls staðar á landinu, þar sem ríkið á að inna af hendi greiðslu til slíkra hluta sem þessara, verða þær hærri, þegar ríkissjóður á að sjá um þær en þegar sveitirnar eiga að annast þær að meira eða minna leyti.

Þessar aths. vil ég láta fylgja till., um leið og hún fer til n.