21.05.1942
Sameinað þing: 19. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (1133)

134. mál, stjórnarskrárnefnd

*Flm. (Bergur Jónsson):

Ég vil bara benda hv. flm, þessarar brtt. á það, að það er einkennilegt af honum að bera þessa brtt. fram sem brtt. við brtt. á þskj. 422, við þá brtt., sem hann vill ekki fylgja. Með þessu neyðir hann a.m.k. einn þingflokkinn til þess að vera algerlega á móti þessari brtt., því að þrátt fyrir það, þó að sá þingflokkur, sem er á móti brtt. á þskj. 422, hefði ekkert á móti þessari brtt. hv. 4. þm. Reykv., þá mun hann greiða atkv. á móti aðaltill., enda þótt henni verði breytt á þennan veg. Svo að með því að bera þessa brtt. svona fram, en ekki sjálfstæða við þáltill., virðist hv. 4. þm. Reykv. eingöngu eiga mál sitt undir þeim, sem kynnu að vilja vera með brtt. á þskj. 422. Það getur vel verið að þessi hv. þm. og flokkur hans sé búinn að semja um það að láta Kveldúlfsvaldið, sem hann svo kallar og er búinn að úthrópa mest, taka forustuna um stjórn landsins. Ég get vel trúað þessum flokki til þess. En ég er ekki alveg viss um það samt, að allir hv. þm., sem hafa nú staðið að stjórnarskrárbreyt., þeim þyki vera sérstök nauðsyn á því, að í þessari n., sem á að vinna alvarleg störf í kyrrþey, eigi sæti menn, sem standa í fararbroddi í kosningabaráttunni á þessum tíma, sem n. á að starfa, heldur hygg ég, að þeim þyki heppilegra, að í n. séu menn, sem eru vinnufærir á þessum tíma til þess að undirbúa fyrir Alþ. till., sem Alþ. getur unnið úr. Ég er ekki viss um, eins og Alþ. er skipað nú, að þessir hv. þm. allir mundu telja það neinn sérstakan sanngirnisgrundvöll í þessu máli að fara að láta flokk hv. 4. þm. Reykv. eiga fulltrúa í þessari n., né heldur Bændafl., sem maður býst við, að sé nú aðeins eins og hvert annað nafn, sem ekki lifi langt fram yfir þetta þing. Það virðist ekki vera mikill áhugi flm. fyrir þessari brtt., úr því að —hann ber hana ekki fram sem sjálfstæða brtt.