30.03.1942
Efri deild: 24. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

19. mál, hafnarlög fyrir Neskaupsstað

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það hefur dregizt, að sjútvn. skilaði áliti í þessu máli, og er það ekki sökum meðnm. minna, að svo hefur farið, heldur af þeim ástæðum, að ég vildi ekki afgreiða málið úr n. fyrr en ég væri búinn að fá frá vitamálaskrifstofunni áætlanir yfir það mannvirki, sem fyrirhugað væri á þessum stað, Og nú hef ég fengið þær áætlanir, og vænti því, að málið geti fengið greiðari afgreiðslu á þinginu hér eftir en hingað til hefur verið. Vitamálaskrifstofan hefur gert 5 áætlanir yfir þetta mannvirki af mismunandi gerð og úr mismunandi efni. Eins og málið liggur nú fyrir, þá er það sjálfsagður hlutur, að þingið tekur ekki neina ákvörðun um það, hver af þessum till. vitamálaskrifstofunnar verður tekin til notkunar. En ég vil benda á það, að fullkomnasta og, dýrasta áætlunin samsvarar þeirri upphæð, sem til er tekin í frv., þannig að það virðast ekki líkur til, að um meiri fjárframlög þurfi að vera að ræða til þessa mannvirkis en frv. gerir ráð fyrir.

Ég hef alveg nýverið fengið þessar áætlanir og er ekki fyllilega búinn að setja mig inn í þær, enda álít ég, að það skipti ekki miklu máli, En það er töluverður ávinningur fyrir málið að geta látið þetta fylgja til hv. Nd., til þess að sú hv. d. geti gert sér glögga grein fyrir frv.

Viðvíkjandi frv. er það að segja, að það er sniðið nákvæmlega eftir þeim hafnarl., sem afgr. hafa verið frá Alþ. á síðustu árum. Og við frv. hefur n. ekki gert nema 2 lítilfjörlegar brtt. Önnur brtt. er leiðrétting. Það er óheppilegt orðalag á 7. gr., og n. hefur lagt til, að sú gr. yrði orðuð upp. — Í 15. gr. frv. er 4 orðum ofaukið, og þau eru nánast sagt óskiljanleg, ef þau eiga að standa í frv. áfram. En ástæðan til þess, að þau eru komin inn í frv., er sú, að það hefur viljað þannig til á Alþ. áður, að afgr. hafa verið hafnarl. einmitt með þessu vansmiði. En n. tók nú eftir því og leiðrétti það. Leggur n. til, að frv. verði samþ. með þessum á minnztu breyt. En n. er ljóst, að óhugsandi er að koma upp hafnarmannvirkjum á þessum stað öðru vísi en með því móti, sem hér er farið fram á og átt hefur sér stað á öðrum svipuðum stöðum. Væntir n. því, að málið nái fram að ganga með þeim breyt., sem eru á þskj. 101.