13.04.1942
Efri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

36. mál, eftirlit með skipum

*Ingvar Pálmason:

Ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari snertir aðeins aðra brtt. nefndarinnar á þskj. 143, það er ákvæðið um flutning á benzíni. Ég hef gengið inn á ákvæðin, sem þar eru sett, um að banna benzínflutning á farþegaskipum, þótt ég sjái, að það geti orðið nokkrir erfiðleikar á að fullnægja flutningsþörfinni. En af því að ég tel hér vera um mikla hættu að ræða, finnst mér sjálfsagður hlutur að fallast á það. Þó er það gert með þeirri skilgreiningu, að það séu aðeins þau skip, sem skráð eru sem farþegaskip. Allir vita, að samgöngum er svo hagað hér við land, að menn eru næstum því til þess neyddir að nota hverja fleytu til að komast hafna á milli, og ef ákvæðin ættu að vera svo víðtæk, get ég ekki undir neinum kringumstæðum verið þeim samþykkur. En ég hef lagt þann skilning í orðalag brtt. n., að ákvæði hennar nái aðeins til þeirra skipa, sem skráð eru farþegaskip, og með þeim skilningi get ég fylgt þessari brtt.

Ég vil taka þetta fram vegna þess, að það er sannfæring mín, að þannig eigi að framfylgja þessu, og þannig sé mögulegt að framfylgja því. Verði aftur á móti sá skilningur lagður í brtt., að ákvæðið nái til þeirra báta, sem flytja farþega hafna á milli, get ég ekki orðið því fylgjandi. Enda virðist mér, að 2. málsgr. sömu brtt. taki af öll tvímæli um þetta, því að þar er sagt, hvernig skuli um slíkan farm búið, þegar hann er fluttur með öðrum skipum.

Ég vildi gera grein fyrir þessu, af því að það gæti hugsazt, að menn vildu halda því fram, að óheimilt væri að flytja benzín á öllum fleytum, sem flytja farþega.

Ég hef þá gert grein fyrir fyrirvara mínum. Og ég vil að lokum aðeins slá því föstu, að þetta er skilningur n. allrar, og hún gerir ráð fyrir, að þannig verði þessu framfylgt.