23.03.1942
Efri deild: 21. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (1176)

50. mál, aðstoðarlæknar héraðslækna

*Bjarni Snæbjörnsson:

Það eru fáein orð, sem ég vildi beina til allshn., og það því fremur, sem hv. flm. bjóst ekki við, að n. mundi koma með neinar brtt. eða gera neina breyt. á því, sem hún hefur þegar lagt fram hér í þessu máli.

Ég ætla fyrst að taka undir það með siðasta ræðumanni, hv. 2. þm. N.-M., að einmitt launakjör læknanna hafa afar mikið að segja í þessu máli. Það er þess vegna mikið til af því, að læknar fáist ekki til að fara í léleg héruð, þar sem „praksís“ er lítill, vegna þess að launin eru svo lág. Og ef fara ætti inn á það svið, þá hlýtur hver maður að sjá, að mismunurinn á launakjörum læknanna, þeirra sem í fjölmennum héruðum eru með miklum „praksís“ og hinna, sem í fámennum héruðum eru og hafa lítinn sem engan praksís, hann er allt of lítill eftir núverandi launal.

Einnig er það annar hlutur, sem gerir það að verkum, að yngri lækna er erfitt að fá til að gegna hinum erfiðu og vondu læknishéruðum, sem er það, að veiting læknishéraða hefur ekki verið á þá lund, að það mundi ýta undir neinn ungan mann um að fara út í fámennt og afskekkt hérað. Vitanlegt er það, að enginn ungur læknir fer í slíkt hérað, nema með það fyrir augum, að hann eigi að fá það að endurgjaldi, að hann eigi síðar að fá betra og hægara hérað og tekjumeira, þegar um slíkt hérað verður að ræða til veitingar. En því hefur ekki verið framfylgt á síðari árum. Það hefur verið þannig, að ýmist hafa nýir læknar, sem engum héraðslæknisstörfum hafa sinnt, fengið héruðin og verið þannig teknir fram yfir eldri héraðslækna, eða í öðru lagi hefur það verið þannig, að ef tveir eldri héraðslæknar hafa sótt um læknishérað, þá hefur sá læknirinn fengið það, sem hefur verið í vel launuðu og hægu læknishéraði, en hinn, sem hefur verið í erfiðu og illa launuðu héraði, hefur ekki fengið það. Þessi atriði gera það að verkum, að þessir erfiðleikar eru á skipun lækna í verri læknishéruðin. Og þrátt fyrir ákvæði þessa frv., þótt að l. yrði, verður þetta ekki lagfært, því að það fæst aldrei fullkomin lagfæring á þessum málum. Ég hirði ekki um að nefna dæmi til sönnunar því, sem ég hef sagt hér um veitingu læknishéraðanna, nema ef hv. þm. vildu fá að heyra þau, þá skal ég nefna þau.

Viðvíkjandi frv. því, sem hér liggur fyrir, hef ég ekki nema gott eitt að segja. Það er indælt í sjálfu sér. Og það hefur einmitt verið vilji læknastéttarinnar að fá því til vegar komið, að héraðslæknarnir gætu komizt burt, ef þeir þyrftu, úr héruðum sínum um stundarsakir, annaðhvort í veikindaforföllum eða til þess að afla sér aukinnar menntunar og gætu fengið staðgengil fyrir sig, sem erfitt er á þessum tímum. En með núverandi launakjörum eiga þeir blátt áfram engan kost á að fá slíka menn fyrir sig. Þess vegna væri mjög gott, ef það gæti orðið svo, að frv., sem hér liggur fyrir, gæti orðið að l. En um hitt frv., sem lýtur að þessu efni, ætla ég ekki að læða nema sem minnst, enda liggur það ekkí fyrir. Mér finnst samt sem áður, að það væri ekki nema rétt af hv. allshn., um leið og hún leitar umsagnar landlæknis um það frv., að hún leitaði einnig umsagnar formanns Læknafélags Íslands.. Því allir sjá, að það, að samþ. það frv., sem var útbýtt hér í dag, en ekki er til umr., gæti orðið mikil kvöð á ungum læknum, sem getur orðið þess valdandi, að menn fái ekki ótakmarkað lækningaleyfi fyrr en einhvern tíma og einhvern tíma, því að það geta. komið fleiri læknaefni, sem verða útskrifuð á ári heldur en þörf er fyrir í það, sem frv. talar um, aðstoðarlæknisstörf. Og ef þeir eiga að vera 6 mánuði í héraði hjá héraðslækni, áður en þeir fá ótakmarkað lækningaleyfi, þá getur farið svo, að þeir fái ekki fyrr en seint og síðar meir það leyfi. Sem sagt, það frv. ætla ég að leiða hjá mér að ræða um. En ég álít, að það væri ekki nema sjálfsagt fyrir allshn. að senda það frv. sem fyrst formanni hins íslenzka læknafélags, svo að umsögn hans gæti verið komin um það mál, áður en það er komið til 2. umr.