23.03.1942
Efri deild: 21. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

50. mál, aðstoðarlæknar héraðslækna

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í bollaleggingar út af því, hvað gera þurfi til þess að bæta kjör læknanna. En ég skal lofa hv. 2. þm. N.- M. því, að allshn. taki til athugunar þessar bendingar, sem hann og hv. 1. þm. N.- M. hafa komið hér með. Hins vegar get ég ekki gefið þeim neitt loforð um bifreiðir eða annað því um líkt til handa læknum. Þessar ábendingar eru góðar og athugunarverðar. En mér finnst — það er kannske af því ég er orðinn svo gamall —, að við megum fagna hverju spori, sem stigið er í áttina til þess að bæta úr því ástandi, sem er í þessu efni, þó að við getum ekki farið alla leiðina í einu. Ég hef bara lýst hér afstöðu minni til launamálsins, en ekki afstöðu n., því að ég get það ekki. Hins vegar er það opið fyrir hvern þm. sem vera skal, að gera betur heldur en allshn. hefur gert hingað til (P.Z: Það rætist úr henni) og róa fastara. En ég persónulega hef ekki séð mér fært að fara lengra heldur en í þessum tveimur frv. er farið fram á. Allshn. er öll stödd hér í hv. d., þó að margir hv. dm. hafi sýnt þessu máli tómlæti í að hlusta á umr. um það. Ég býst við, að allshn. sé fús til að taka allar bendingar til greina í þessu máli, sem hún sér sér fært, þó að ég vilji ekki fyrir mína hönd né n. gefa loforð um frekari umbætur en fram hafa komið.