01.04.1942
Efri deild: 26. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

50. mál, aðstoðarlæknar héraðslækna

*Magnús Jónsson:

Hæstv. forseti sá sér ekki fært að verða við tilmælum hv. þm. Hafnf. um að taka málið út af dagskrá. Mér sýnist þetta mál þannig vaxið, að leiðinlegt sé að gera það að kappsmáli, og vildi ég því leggja ósk mín við ósk hv. þm. Hafnf., að málið verði ekki afgreitt nú að sinni, því að ég tel heppilegra að hafa það hér í d. enn þá nokkurn tíma. Enn fremur er einn nm. ekki viðstaddur, og finnst mér óviðeigandi að ganga frá málinu að honum fjarverandi. Málið er þannig, að þörf er að lipra það. Það á að vera metnaðarmál fyrir þessa hv. d. að ganga sem bezt frá málinu, því að hitt er enginn greiði við það, að senda það nú til Nd. og láta hana síðan breyta því, sem allt virðist benda til. Nú fara páskarnir í hönd, og er því gott næði til að vinna að málinu bak við tjöldin. en ef málið yrði sent til Nd. fyrir páskana, þá yrði því aðeins útbýtt þar, en kæmist ekki í neina n., og lægi því bara í reiðuleysi. Hér í d. er málið hjá n. og hægt að ná niðurstöðum í því. Þetta er aðeins um formshlið málsins. Ef ég vík lítilsháttar að efnishlið málsins, þá finnst mér þessar ráðstafanir orka nokkuð tvímælis, og ég tel þetta aðeins geta komið til mála, ef þvergirðingur er hlaupinn í málið. Ég tel hv. þm. Hafnf. þessum málum langkunnugustan og ætti að taka tillit til þess, sem hann segir. Fyrir einni öld átti að setja svipuð l. um presta. Gert var að skilyrði fyrir styrkveitingu til guðfræðinema, að þeir færu í viss prestaköll að náminu loknu. Gegn þessu reis sterk alda um land allt, og jafnvel hinir fátækustu nemendur afsöluðu sér styrknum heldur en að gangast undir þetta. — . Ég er sannfærður um, að hér yrði svipuðu máli að gegna og þetta yrði óframkvæmanlegt. Ég teldi betra að hleypa ekki hita í málið, heldur reyna að lipra það. Allir skilja þörf hinna afskekktu landshluta á að fá lækna, en ég álít, að leysa megi það vandamál á annan hátt. Það kom greinilega fram hjá hv. 2. landsk., að hann vildi leitast við að gera kjör þessara manna sem lífvænlegust. Það er ekki gott að vita, hvað fylgdi í kjölfarið, ef þessu yrði framfylgt. Ef til vill gæti það orðið vísir til annars, t.d. á öðrum sviðum í þjóðfélaginu, þar sem illa gengi að fá menn í stöður. Það er ekki gott að vita. Ég álít hér vera um „princip“mál að ræða. Ég vildi svo beina því til hæstv. forseta, hvort hann geti ekki endurskoðað úrskurð sinn í þessu máli, svo að n. geti athugað málið um páskana.