08.04.1942
Neðri deild: 30. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Sigurður. Kristjánsson:

Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta mál, en ég sleppti því frv. fram hjá mér, sem ég ætlaði mér að tala um, frv. um tekju- og eignarskattinn. En þetta frv. er svo nátengt því, að það má einu gilda, við hvort frv. umr. eru bundnar. Sú stefna, sem hér er gengið inn á og allfast hefur verið sótt undanfarin ár, er frá mínu sjónarmiði algert skattarán. Það þýðir ekkert að vera að fara í launkofa með það, að ef ég ætlaði að fylgja þessu máli, þá væri það þvert á móti þeim orðum, sem ég hef undanfarin ár látið falla um þessi mál. Nú er það svo, að þetta er samkomulagsmál innan ríkisstj., og ég á því ekki annars kost en að vera annaðhvort á móti ríkisstj. eða sannfæringu minni. Hins vegar geri ég ráð fyrir því, að ríkisstjórnin hafi tryggt sér sigur í þessu máli, hvað sem ég segi, og þess vegna held ég, að ég mundi ekki vinna neitt níðingsverk, þó að ég fylgdi sannfæringu minni. Einasti frádrátturinn hjá stj. væri þá sá, að það sýndi sig með mínu atkv., að samvizka mín væri á móti henni (stj.). Ég býst við, að það sé tilgangslítið að vera að ræða málið almennt, en ég get þó ekki látið hjá líða að láta í ljós þá ætlun mína, að stj. hafi ruglazt nokkuð í þeim háu tollum, sem nú þarf að reikna með.

Ég held, að stj. hafi ekki athugað það, hvað fyrirtækin þurfa geysilegar upphæðir til þess að tryggja með framtið atvinnurekstrar sins. Þó að það megi til sanns vegar færast, að manni, sem græðir milljón á einu ári, sé nóg að halda eftir 200 þús. kr., þá er það allt annað mál, þegar um er að ræða fyrirtæki, sem stendur undir stórkostlegum atvinnurekstri og afkoma fjölda manna hvílir á. Mér dettur í hug í þessu sambandi að taka til dæmis fyrirtæki eins og „Eimskip“, sem á 7 skip og þau öll komin að því að verða höggvin upp. Þó að þetta fyrirtæki hafi um 4 millj. kr. í skattskyldar tekjur, þá fær það ekki að halda eftir nema 1100 þús. kr. Nú stendur þannig á, að „Eimskip“ þarf að endurnýja 5 eða 6 af skipum sínum og eftir 3–4 ár gæti félagið verið búið að safna nægilega miklu fé til þess, en þá ætti fyrirtækið ekkert fé eftir til þess að halda atvinnurekstri sínum, með öðrum orðum, það væri gersamlega óstarfhæft fyrir fátæktar sakir.

Það má segja það, að þetta séu stórar fjárhæðir fyrir einstaklinga, en þegar um fyrirtæki er að ræða, gegnir þarna allt öðru máli,. því að þau þurfa að endurnýja framleiðslutæki sín, og það er náttúrlega undirstaðan undir atvinnurekstrinum í framtíðinni. Það eru aðallega tvö atriði, sem skipta miklu máli í sambandi við þetta frv. Þessi atriði eru í fyrsta lagi, að með þessu frv., ef að l. verður, er afnuminn réttar manna til þess að draga greiðslur ársins frá skattskyldum tekjum. Þetta mál út af fyrir sig getur verið ákaflega hættulegt. Í fyrsta lagi af því, sem á hefur verið bent, að ef ríkissjóður kemst í kröggur, sem hann vel getur komizt í þrátt fyrir þær miklu tekjur, sem hann nú hefur haft upp á síðkastið, þá hefur hann tækifæri til. þess að hækka skattstigann aftur án þess að reka sig upp undir. En með frádráttarreglunni væri þetta ekki hægt nema að miklu takmarkaðra leyti. Ég hefði talið, að miklu skynsamlegra hefði verið að ganga inn á það fyrirkomulag, sem margsinnis hefur verið bent á hér á Alþ. og utan þings, að heppilegast væri að reikna tekjuskattinn af meðaltalstekjum nokkurra ára. Það mundi koma miklu betur við fyrirtækin, því að bylgjugangurinn er svo mikill hér í velgengni atvinnuveganna. Og það mundi einnig tryggja ríkissjóði miklu jafnari tekjur af þessum skatti og gera tekjuskattsliðinn fyrir ríkissjóð miklu vissari frá ári til árs. Þetta hefur hæstv. ríkisstj. ekki talið fært eða kannske ekki orðið sammála um það. En það er þó þess vert að fjhn. athugi þetta, þegar hún fer að ræða um frv.

Hitt atriðið, sem talsvert hefur verið minnzt á hér, er að sveitarfélög hafa verið afskipt með þessum frv., sérstaklega með stríðsgróðaskattsfrv. Það er víst alveg vitað, að útsvarsbyrði héraða hefur yfirleitt verið miklu hærri en tekjuskatturinn. Ég hef nú einhvern tíma gert athugun á þessu, en er búinn að gleyma því nokkuð, en ég held, að yfirleitt hafi þarfir sveitarfélaganna orðið fjór- eða fimmfaldar á við tekjuskatt ríkissjóðs á venjulegum árum. Nú er þessu snúið við. Það má segja, að það sé óhætt, af því að skattskyldar tekjur séu svo gífurlega háar sem stendur. Sveitarfélögin muni fá sitt. En ég, hef gert nokkrar athuganir til dæmis um háar tekjur. Og það kemur í ljós; að af háum tekjum, sem komnar eru yfir 200 þús. kr., þá eiga sveitarfélögin ekki kost á meiru en sem svarar þriðjungi til helmingi lægri upphæð heldur en ríkissjóðstekjurnar, — þannig að þarna er hlutföllunum snúið alveg við. Það má vel vera — það hef ég ekki haft aðstöðu til að rannsaka að sökum þess, hve skattskyldar tekjur manna eru miklar hér á landi nú, muni þetta standast. En þarfir sveitarfélaganna hafa margfaldazt eins og útgjöld annarra, vegna dýrtíðarinnar. Og mér þætti ekki óeðlilegt, að það rættist, sem nokkrir hv. þm. halda fram, að sveitarfélögin séu hér mjög ógætilega afskipt. Og vert er að hafa það í hyggju, að ríkissjóður hefur frá öndverðu sýnt bæjar- og sveitarfélögunum allmikla ágengni í því að taka tekjustofna þeirra. Ríkissjóður hefur vaðið inn á þá tekjustofna, sem sveitarfélögunum voru ætlaðir, og hefur sífellt fært sig upp á skaftið í því efni. En þetta getur ekki endað með öðru em því, að sveitarfélögin seilist inn á tekjuliði ríkissjóðs með því að leggja á tolla og því um líkt.

Ég vil aðeins taka það fram ,enn, að það er frá mínu sjónarmiði alveg röng hugsun, ef menn halda það, að ríkið muni geyma betur fé almennings heldur en almenningur sjálfur. Mér skilst, að með þessari löggjöf eigi að taka fé úr greipum atvinnufyrirtækjanna til þess að geyma það, svo að það fari ekki í hundana. En hver er reynsla okkar um geymsluhæfileika ríkissjóðs annars vegar og einstaklinganna hins vegar í þessu landi? Reynslan er sú, að það er eins og að bera vatn í hripum að geyma fé í ríkissjóði. Það er horfið með sama. Það er látið til hluta, sem að vísu mega teljast þarflegir, en að mjög miklu leyti til hluta, sem ekki eru frjóir, heldur heimta sífellt aukin útgjöld. Aftur á móti er það vitað um atvinnurekendur, að þeir halda fast og forsjálega á sínu fé. Það er hægt að benda á ýmsa einstaklinga, sem eru eyðslusamir. Það hefur verið talað um slíkt gagnvart sjómönnum og verkamönnum. Og hvert fer svo þeirra eyðslufé? Ætli það fari ekki í vasa þeirra, sem eru fastheldnar í á það og geyma það betur. En hitt er víst, að menn, sem stunda þá höfuðatvinnuvegi landsins: landbúnað, iðnrekstur og verzlun, þessar stéttir a.m.k. eru vanar að nurla saman fé sínu á mörgum árum, og geyma þær það því miklu betur heldur en ríkið gerir. Þetta gengur meira í bylgjum hjá útgerðinni, en það er víst, að fé það, sem á að halda uppi atvinnurekstri við sjóinn, er betur geymt hjá útgerðarfyrirtækjunum sjálfum heldur en í ríkissjóði.