20.05.1942
Sameinað þing: 18. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (1249)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

*Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég get um efnishlið málsins látið við það sitja, sem hv. flm. þessarar þáltill. hefur nú sagt. En ég vil kveða fastar á en hann um það, að það mun nú engin von um það, að verðuppbætur fáist á framleiðslu ársins 1941 frá Bretlandi eða Bandaríkjunum, eða fyrir þær vörur, sem harðast hafa orðið úti, hvað markaði snertir. Eins og kunnugt er, létu Bretar af hendi um 5 millj. kr. til verðuppbótar á þær vörur, sem lakastur markaður var fyrir á árinu 1940, og af þeim ástæðum mun afkoma margra bænda hafa orðið miklu sæmilegri á því ári en ella mundi.

Mín skoðun er sú, að jafnvel þótt miðað sé við afkomu bænda, sem betur hafa orðið úti, þá beri samt sem áður að taka til greina þá hugmynd, sem hér er fram borin. Það er öllum kunnugt, að flestar stéttir þjóðfélagsins búa nú við annan og betri kost heldur en verið hefur, kannske nokkru sinni fyrr. Framleiðslan við sjávarsíðuna mun í flestum tilfellum gefa betri raun en verið hefur undanfarin ár og mun hafa rétt fjárhag sinn langt fram yfir það, sem björtustu vonir höfðu staðið til. Hins vegar er það kunnugt, að óvissan um afkomu landbúnaðarins er nú meiri en nokkru sinni fyrr, og það er mjög nauðsynlegt, að ríkisvaldið geri sér það ljóst, að nú er á því meiri nauðsyn en nokkru sinni fyrr að bæta hag landbúnaðarins, svo að fólkið hverfi ekki með öllu frá sveitunum og framleiðslu hinna nauðsynlegustu matvæla.

Hins vegar er nú freisting fyrir þá, sem dvelja í sveitum landsins að hverfa þaðan til annarrar vinnu, sem er betur borguð í augnablikinu. Það er því nauðsynlegt, að ríkisvaldið láti sér nú skiljast, að það geta orðið úrslitaátök einmitt á þessu ári um það, sem mestu varðar, hvort okkur tekst að halda fólkinu í sveitunum, þar sem þjóðarnauðsyn er, að fólkið vinni áfram að framleiðslustörfunum. Ég er þess vegna meðmæltur, því, að þessi þáltill. verði samþ. og verðuppbætur verði greiddar á þessar vörur, sem nú eru ýmist óseldar eða lítt seldar, aðrar en kjöt og að nokkru leyti gærur, svo af afkoma bænda á árinu sem leið megi verða sæmileg og eigi lakari e n á árinu 1940.

Varðandi þá hugmynd, sem hv. flm. minntist á, að ríkið keypti ullina, þá vil ég segja það, að þeirri hugmynd hafði skotið upp hjá fyrrv. stj., að slíka gæti verið mjög heppileg ráðstöfun, þar sem fullt útlit væri fyrir, að hún mundi ef til vill hækka í verði eftir stríðið, og er þessi leið því mjög athugandi. Einnig tel ég þá hugmynd skynsamlega, að miðað sé að því að eiga nokkrar vörubirgðir umfram það, sem venja er til, þar sem ætla má, að ullarframleiðsla verði nokkru minni fyrst eftir ófriðinn.

Ég vil að lokum endurtaka það, sem ég áður hef sagt, að ég tel, vegna allra hluta, ekki aðeins heimilt og sanngjarnt, heldur líka nauðsynlegt, að taka vel á þessu máli, sem hér er til umr.