20.05.1942
Sameinað þing: 18. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (1251)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

*Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir undirtektir hans, sem voru mjög góðar.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að sér fyndist till. illa orðuð, en ég legg lítið upp úr því. Þá var hann einnig hræddur um, að hér lægju brellur á bak við og Búnaðarfélag Íslands ætti að ráða um þetta, en það hlýtur að vera á misskilningi byggt. Þá benti þessi hv. þm. á, að þar sem ákveðið hefði verið í frv. hæstv. viðskmrh., sem hann kom fram með í haust, að landbúnaðarafurðir skyldu ekki hækka, þá væri einkennilegt að fara fram á verðbætur hér. Þessu er því til að svara, að í frv. var um að ræða landbúnaðarafurðir ársins 1942, en hér er um að ræða verðbætur á afurðir ársins 1941.

Hann minntist og á skemmdir á gærum af völdum geymslu. Ég verða að segja það, að ef eðlilegir tímar hefðu verið, þá hefðu gærurnar selzt og ekki þurft að geyma þær, svo að mér finnst sanngjarnt, að þær verði bættar. Þessum hv. þm. fannst einnig ástæða til að bæta upp sjávarútvegsmönnum við Faxaflóa, sökum þess hve þeir hefðu átt erfitt uppdráttar á vertíðinni í vetur. Ég er þessu alveg samþykkur, en þar er um að ræða afurðir ársins 1942, svo að mér finnst ekki eiga að blanda því saman við þessa till. til þál., því að þar ræðir um afurðir ársins 1941, og þá var afkoma sjávarútvegsins góð. Ég hef svo ekki meira að segja um þetta við þessa umr.