22.05.1942
Sameinað þing: 20. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (1258)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti ! Sem einn flm. þessarar till. þakka ég fjvn. fyrir nál. hennar og tillögur.

Ég skil það vel, að sá bóndasonurinn, sem hér talaði áðan úr sæti hæstv. forsrh., finni og viti, hvar skórinn kreppir að hér, því að faðir hans er fyrsti íslenzki bóndinn, sem gefizt hefur upp á framleiðslunni og' snúið sér að öðru, sem í bili er talið arðvænlegri atvinna. Og ég skil, að ráðh. vilji fylgja þessum till., svo að síður verði hætta á, að aðrir feti í fótspor föður hans. Til þess eru vítin að varast þau og rétt að byrgja brunninn, áður en barnið dettur í hann.

Frsm. minni hl. talaði um, að sannanir vantaði í þessu máli fyrir nauðsyn þess að styrkja landbúnaðinn. Það er hér ekki fyrst og fremst verið að styrkja landbúnaðinn hans vegna. Það er þjóðarnauðsyn að því, að framleiðslan leggist ekki niður, og það er fyrir þjóðina í heild, enn þetta fé er lagt fram. Það er þess vegna allri þjóðinni jafnnauðsynlegt, ekki frekar bændum en öðrum, að bændurnir séu við starf sitt og hlaupi ekki frá því í annað. Þess vegna er þetta frá mínu sjónarmiði ekki á nokkurn hátt styrkur til bænda eða bændastéttar landsins, heldur fé, sem ríkissjóður leggur fram til þess að tryggja það, að það haldi áfram framleiðsla landbúnaðarafurða í landinu og að menn, sem hafa verið við þá framleiðslu, verði við hana áfram, en fari ekki eftir lífsskoðun guðfræðingsins, sem situr hér nú sem ráðh., þegar hann sagði, að hver maður ætti að vera við það, sem mest hefðist upp úr í þann og þann svipinn.

Þegar við svo lítum á bændur landsins í heild og reynum að átta okkur á, hvað þeir hafa fyrir vinnu sína við búskapinn árið 1941 miðað við árið 1940, þá hef ég alla tíð síðan 1933 reynt að átta míg á þessu. Ég hef farið gegnum skattaframtöl allra bænda landsins og athugað, hvað þeir sjálfir borga í kaup, fyrir áburð o.s.frv. Og ég hef reiknað fæðið út eftir búreikningum Guðmundar Jónssonar á Hvanneyri og svo eftir vísitölu, þegar um þann tíma er að ræða, sem engir búreikningar eru til fyrir. Ég get því sagt um, hversu margt fólk hefur unnið hjá bændum síðan 1933 og hvernig hún skiptist á ártímana og sýslurnar. Út frá þessu hef ég svo verið að reyna að átta mig á, hve mikið er að hafa upp úr hverju búi bóndans, sem margir þm. gleyma, hve lítið er, því að hv. þm. tala hér mest um stóru bændurna, sem hafa t.d. 200 fjár, en meðalbóndi hefur ekki 200 heldur um 78 fjár og 3.8 nautgripi. Þegar ég reyni að átta mig á gjöldum meðalbónda, þá kemur út, að þau hafi hækkað um full 45% árið 1941 miðað við árið 1940. Réttlætiskrafa bóndans en því, að hann fái þessum mun hærra fyrir afurðir sínar 1941 heldur en árið 1940. Árið 1940 lagði meðallamb sig á kr. 39.99, og þá ætti meðallamb að gera árið 1941 kringum 58 kr. til þess að samsvara auknum tilkostnaði. Ef það verður gert, sem farið er fram á í þáltill., að borga endanlegt verð á gærum og ull, eða útflutningsvörum landbúnaðarins yfirleitt, með 20% viðauka frá ríkissjóði miðað við það verð, sem fengizt hefur fyrir það af þessum vörum, sem þegar er selt, þá fær bóndinn fyrir lambið að meðaltali 50 kr., eða heldur minna heldur en sem svarar til verðsins 1940, þegar tillit er tekið til aukins búrekstrarkostnaðar. Séð frá þessu sjónarmiði er það líka réttlætiskrafa frá hendi bóndans, að hann beri nokkurn veginn jafnt úr býtum eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins, sem hann gerir, ef þáltill. þessi verður samþ., eða ef vörurnar seljast fyrir það verð, sem þarf til þessa. Ef ætla mætti, að síðari helmingurinn af gærubirgðunum seljist með svipuðu verði og sá helmingur þeirra, sem þegar er seldur, þá er hverfandi lítil uppbót, sem þarf á þær. En ef síðari helmingurinn af. gærunum selst ekki hærra verði en nú er talað um, sem er 15% lægra en sá helmingur seldist, sem búið er að selja, þá getur það farið þannig, að uppbótin á þær verði að vera 70–80 þús. kr. eftir þessari þáltill. Ullarsalan er alveg í óvissu. Árið 1940 voru 6064111/2 kg flutt út af ull, og var hún verðbætt úr Bretasjóði. Og það er ekki hægt að búast við öðru heldur en að það verði eitthvað svipað, sem flutt er út af ullarframleiðslu ársins 1941. En eins og sá maður tók fram hér í hv. d., sem kallar sig þm. Seyðf: — ég kalla yfirleitt engan mann þingmann hér á þessu þingi — þá má búast við því, að það gæti verið beinn hagur fyrir ríkissjóð að kaupa ullina og geyma hana til að selja hana væntanlega seinna með hækkuðu verði.

Ég held þess vegna, að hvernig sem á þetta mál er litið, þá sé ómögulegt með nokkurri sanngirni annað en að viðurkenna, að þessi þál. sé sjálfsögð og að till. beri því að samþ., og ekki fyrst og fremst sem sérmál bændanna, því að það er þetta alls ekki, heldur sem öryggismál fyrir þjóðarheildina, til þess að fyrirbyggja, að fleiri fari sömu leiðina og bóndinn, faðir mannsins, sem talaði hér við fyrri umr., og hverfi frá framleiðslunni og hlaupi í annað, af því að menn haldi, að það borgi sig betur. Og þetta á að samþykkjast af hæstv. Alþ. ekki fyrst og fremst sem styrkur til bænda. Ég fer ekki fram á, að í þáltill. sé lagður sá skilningur, að úr ríkissjóði beri að greiða bætur fyrir skemmdir, sem fram koma í vörunum. Það álit ég hættulega braut, sem ríkið eigi ekki að ganga inn á, og á móti þeim skilningi á till. er ég.