22.05.1942
Sameinað þing: 20. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (1259)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

*Jón Pálmason:

Ég skal ekki eyða löngum tíma í að ræða þetta mál né halda fyrirlestur um það eins og hv. síðasti ræðumaður. En sem einn flm. þessarar þáltill. vil ég lýsa yfir ánægju minni og þakklæti fyrir afgreiðslu hv. fjvn. á þessari þáltill. Því að ég geri ráð fyrir því, að þó að tveir af nefndarmönnum hafi sérafstöðu, þá muni þessi þáltill. verða samþ.

En varðandi það, sem þeir vinir mínir, hv. 5. þm. Reykv. og hv. 6. landsk., tóku hér fram áðan, þá vil ég segja það, að mér skilst þeir vera hvorugur andvígur þessari þáltill., heldur vilja fresta henni eða vísa henni til ríkisstj. En stuðningsmenn stjórnarinnar munu treysta henni til að afgreiða þetta mál vel og drengilega.

Á aukaþinginu, sem haldið var hér fyrri hluta vetrar, lá fyrir frv. um ráðstafanir gegn dýrtíðinni, og í því var ákvæði um að bæta upp verð útfluttra landbúnaðarvara. Sá maður úr Framsfl., sem ljósastan skilning hefur á þörfum bænda (StgrSt), tók fram, að það væri mesti kosturinn á því frv. Og það kom fram í umr. um það mál, sem ekki var hægt á annan veg að skilja en þann, að öll þáverandi stjórn áliti sjálfsagt, að þetta ætti að gera.

Nú er að vísu í þessari þáltill. farið nokkru lengra, og tel ég það mjög sanngjarnt. En að setja þetta mál í samband við það, hvort afgreiddar eru frá þessu þingi aðrar till., t.d. til hjálpar sjávarútveginum, það sýnist mér í sjálfu sér ekki vera nauðsynlegt. Því að það er ekki eins aðkallandi nauðsyn á að taka ákvörðun um það að veita fjárframlag til bátabygginga, vegna þess að þær koma ekki til framkvæmda á þessu sumri, og mundi því nægja að taka afstöðu til þess máls á þinginu, sem háð verður seint á þessu ári. Vil ég því halda því fram sem alveg eðlilegum hlut, að það sé ekki nein afstaða gegn þeirri till., þó að þessi þáltill. verði samþ. nú, en hin látin bíða síðari tíma. Ég veit, að þeim hv. þm. a.m.k., sem kunnugastir eru ástæðum í sveitum landsins, þeim er fullljóst, að það er á því brýn þörf, að þetta mál sé afgreitt á þann veg, sem í þessari þáltill. felst, hvort sem það er afgreitt á þann hátt að samþ. að fela ríkisstj. að gera það eða með því að samþ. þáltill., sem ég tel sjálfsagt að gera.

Hv. 6. landsk. minntist á, að sér þætti um þetta mál vanta upplýsingar. En hæstv. ríkisstj. mun að sjálfsögðu leita upplýsinga um það, enda er þáltill. í heimildarformi.