23.05.1942
Sameinað þing: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (1267)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

*Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Hér kemur fram á þskj-. 508 brtt. frá hv. 6. landsk. við till. okkar meiri hl. í fjvn. Ég verð að segja, að mér finnst efni þessarar till. alveg sérstakt mál og það mikið mál. En því máli fylgja ekki minni gallar en þessari megintill. okkar, því að enn verr er till. hv. þm. undirbúin, svo að þar er rennt algerlega blint í sjóinn. En ég vil taka það fram, þar sem hv. þm. sagði áðan, að þetta væri 1–5 millj. kr., að það er ekki rétt. Ég sagði, að það væri um 1–3 millj., held ég hafi orðað það nánast 11/2–3 millj. En þar að auki var það, að þessi aðaltill. okkar var búin að vera í n. og athuguð þar, en þessari till. er skotið fram við síðari umr., eftir að það er ómögulegt orðið fyrir sömu n. að fjalla um hana. Hún er líka allt annars eðlis en aðaltill. okkar. Hún á við afurðir, sem eru seldar meiri hluta ársins 1942 eða hálft árið, en ekki einu sinni hálft árið 1941, en okkar till. á aðeins við að bæta upp sölu fyrir árið 1941. Hér er farið út á allt aðra braut fyrir yfirstandandi ár og meira að segja ókominn tíma. Því að mér skilst þetta nái til júníloka þetta ár, og þegar af þeirri ástæðu er þetta annars eðlis. Ég vona, að hv. flm. sjái, að það liggur ekki svo mjög á að taka þessa till. fyrir og hann sýni þá sanngirni við hitt málið, að hann vildi taka till. aftur og taka hana upp á næsta þingi, enda þá útrunnið það skeið, sem hann biður um uppbót fyrir á þessum fiskafla. Þetta virðist mér mjög sanngjarnt. En hitt virðist mér, ef till. er ekki tekin aftur, benda á það, að ekki sé eingöngu tilgangurinn að fá þessa uppbót fram, heldur líka að gera ófært að samþ. aðaltill.