23.05.1942
Sameinað þing: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (1268)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

*Emil Jónsson:

Út af þessum tilmælum vil ég segja það, að ég fór þess á leit í gær við fyrri umr., að málinu yrði frestað til sumarþingsins að minnsta kosti. Þing ætti væntanlega eftir að koma saman, ekki einu sinni, heldur tvisvar enn á þessu ári, og væri því góður tími til að fá málið afgr. þá, þegar betri upplýsingar lægju fyrir um söluverð þessara landbúnaðarafurða, svo að hægt væri að gera sér nokkra hugmynd um, hve mikið ríkissjóður þyrfti að greiða í þessu skyni. Það getur ekki gilt sem röksemd, að bændur muni miða heyskap sinn við það, hvort þessi uppbót fæst eða ekki. Ég geri ráð fyrir, að þeir séu búnir að taka sínar ákvarðanir um fólksráðningu, hvort sem þessi uppbót er veitt eða ekki. Það væri á allan hátt viðkunnanlegra, að fyrst væri séð, hvað söluverðið yrði, og síðan, hvað ríkissjóður ætti að greiða, og hvort hann þyrfti að greiða allt eða nokkurn hluta. Ef hv. þm. gengur inn á þetta, skal ég óðar fyrir mitt leyti geyma till. mína.