23.05.1942
Sameinað þing: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í D-deild Alþingistíðinda. (1271)

138. mál, verðlagsuppbætur á útflutningsafurðir landbúnaðarins

*Bjarni Ásgeirsson:

Þessi brtt. hv. 6. landsk. er visst form af neii gegn þessu máli og er ekki komin fram til neins annars en að reyna að koma fæti fyrir það, með því að brtt. er fyllilega óaðgengileg. Hér er tvennu ólíku saman að jafna. Sjávarútvegurinn hefur aldrei haft jafngóða og mikla markaðsmöguleika fyrir vörur sínar eins og nú á stríðsárunum, t.d. 1941. Og það er vitað mál, að þeir, sem hann stunda, hafa aldrei grætt eins mikið. En á landbúnaðinn hefur stríðið haft þau áhrif, að útflutningsmarkaður er að lokast meira og minna, þannig að landbúnaðurinn situr með mikið af vörum sínum frá 1941 óseldar, og er ófyrirsjáanlegt, hvenær sel jast. Þá ber hv. þm. fram till. um að legg ja að jöfnu að bæta upp sjávarútflutningsvörur, þó að sala þeirra stæði með hinum mesta blóma 1941. En hvað landbúnaðinn snertir, þá er ekki einungis að ræða um vörurnar frá 1941, heldur er allt í óvissu um sölu og verð á miklum hluta landbúnaðarafurða á yfirstandandi ári.

Það er sýnilegt, að í þessari till. er engin sanngirni á ferð, heldur er aðeins verið að bregða fæti fyrir þetta mál. Hv. þm. sagði, að það mætti vel fresta þessu til sumarþingsins, þangað til sýnt væri, hvað fæst fyrir vörurnar. Nú er upplýst, að alveg er óvíst, hvort hægt er að selja fyrir nokkurt verð sem nemur, fyrr en jafnvel eftir stríð. Það er talað um að geyma ullina þangað til eftir stríð.

Hv. þm. neitaði enn fremur, að það hefði nokkur áhrif á fólksráðningu til bænda, hvort þessi till. er samþ. eða ekki. Heldur hann, að það hafi engin áhrif á ráðstafanir bænda á þessu ári, hvort þeir hafa hugmynd um, hvort þeir fá nokkurn skapaðan hlut fyrir mikinn hluta af útflutningsvörum sínum? Ég veit, að bændur hafa treyst á þetta liðsinni, að öðrum kosti hefðu margir þeirra dregið við sig verkafólk og framkvæmdir á þessu ári, — og munu áreiðanlega gera það, ef þessi till. verður felld. Hygg ég, að þjóðin megi sízt við slíkum afturkipp á þessum tímum. Vona ég, að meiri hl. þingsins skilji það, að bændur þurfa nú á því að halda, að þeir séu hvattir til að starfa og framleiða í sumar til þess að tryggja þjóðinni lífsnauðsynjar. En tilgangurinn með brtt. þessari er enginn annar en að koma aðaltill. fyrir kattarnef. Hv. flm. hefur ekki látið sér detta í hug að koma með hana fyrr en síðasta dag þingsins. Ef nauðsynin væri svo rík, hefði hann líklega komið auga á hana fyrr. Aðalröksemd hans var sú, að málið væri svo gersamlega óundirbúið og alveg út í bláinn þær tölur, sem voru nefndar. En til þess að bæta úr þessu, kórónar hv. þm. þetta með því að koma með till., sem er miklu minna undirbúin og miklu síður hægt að segja, hvaða tölur muni hafa í för með sér: Auk þess er ómögulegt að sjá, eins og kom fram í ræðu hv. 4. þm. Reykv., hverjir eiga að fá þessa uppbót. En ég skýrði frá því við framsögu þessa máls, að samkv. áætlun þess manns, sem nákunnugastur er þessum hlutum, Jóns Árnasonar framkvæmdarstjóra, mundi þessi heimild, sem farið er fram á í till. okkar, kosta ríkið í mesta lagi frá 21/2–3 millj. kr. Hann reiknaði það út með þeirri nákvæmni, sem honum er lagin, og eftir þeim gögnum, sem voru fyrir hendi. En það getur enginn reiknað út nema á löngum tíma, hvað það mundi kosta ríkissjóð, sem hv. 6. landsk. flytur till. um. Það getur vel verið, að komi á daginn; þegar farið er að athuga afkomu ársins 1942, að sjávarútvegurinn verði fyrir afhroði á þessu ári, og það verði nauðsynlegt fyrir ríkið að hlaupa undir bagga á einn eða annan hátt, og tel ég þá sjálfsagt, að það verði gert. En ég hygg, að það mætti athuga það mál fram eftir árinu, jafnvel fram á árið 1943, um leið og afkoma landbúnaðarins fyrir það ár verður e.t.v. athuguð. Ég tel, að það geti ósköp vel farið saman.