19.05.1942
Sameinað þing: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (1287)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Hermann Jónasson:

Með þeirri ríkisstj., sem nú hefur göngu sína, byrjar nýtt tímabil í lífi íslenzku þjóðarinnar. Á alvarlegustu tímum, sem þjóðin hefur lifað, er rofið allt samstarf um viðnám og viðreisn, en stofnað til samtaka um illdeilur og unnlausn.

Það samstarfstímabil, er hófst 1939 og nú er lokið, víkur fyrir flokkadeilum, er Sjálfstfl. hafði úrslitaatkvæði um að stofna til. — Stjórnmálaflokkunum var þá tvennt ljóst, er þjóðlegt samstarf hófst, að samstarf var þjóðarnauðsyn og að til þess að það samstarf gæti komizt á og haldizt, varð að leggja viðkvæmustu deilumálin til hliðar. Meðal þeirra voru fremst í flokki kjördæmaskilunin, grundvallaratriði í atvinnurekstri, sérstaklega í stóriðnaði, stórútgerð og verzlun, og á síðasta reglulegu Alþ. bundust flokkarnir í bræðralag um lausn sjálfstæðismálsins. Þetta var fyrst og fremst grundvöllur samstarfs og friðsamlegra vinnubragða í þjóðlífinu um sameiginleg vandamál. Þannig ætluðum við með samstilltum átökum að mæta sameiginlegum erfiðleikum, gera þjóðina sterka, verja hana áföllum. Eftir óveðrið gátum við svo skipað sjálfstæðismálum okkar, stjórnskipun allri, atvinnu- og fjármálum í samræmi við þann nýja sið, er upp kynni að verða tekinn eftir styrjöldina. Deilur um þessi atriði, eins og á stæði, væru bæði hættulegar og ófrjóar í þessu myrkri, sem nú grúfir yfir veröldinni og ekki sést út úr. Við framsóknarmenn höfum því meðal annars ekki hreyft kröfum um breytingar á stórútgerð og verzlun, enda þótt við séum mjög andstæðir ýmsum grundvallaratriðum þess atvinnurekstrar. Við vissum, að deilur um það var, eins og á stóð, að rjúfa samstarfið og friðinn.

Sérhverjum sjálfstæðismanni átti því að vera jafnljóst, að friður um þau mál, sem okkur í dreifbýlinu eru viðkvæmust, var sams konar grundvallaratriði samstarfsins. Og þegar samstarfið var treyst milli Sjálfstfl. og Framsfl. eftir áramótin í vetur, hafði ég rökstuddar ástæður til að telja tryggt og treysti því, að Sjálfstfl. léði ekki máls á að afgreiða kjördæmamálið á þessu þingi — fyrir kosningar í vor, sem allir flokkar höfðu þá um langt skeið talið óhjákvæmilegar, eins og komið var. En Sjálfstfl. hefur nú kosið annað hlutskipti.

Alþfl. sleit samstarfinu fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vetur og gerði það að ágreiningsatriði, að hann vildi ekki þola sömu lög fyrir umbjóðendur sína og aðra landsmenn. Alþfl. hafði í byrjun samstarfsins 1939 gengið með því að setja gengisl., þar sem grunnkaupið var lögbundið og klipið mjög af dýrtíðaruppbótinni. En fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1942 gerbreytir flokkurinn um stefnu og slitur samstarfinu vegna gerðardómsl., sem voru sams konar l. og gengisl., en launþegum miklu hagkvæmari, þar sem samræma mátti grunnkaup og skylt var að greiða fulla dýrtíðaruppbót á allt grunnkaup. Dagana fyrir þessar sömu bæjarstjórnarkosningar birtast í flokksblaði Alþfl. tillögur um breytingar á kjördæmaskipun landsins. Flokkurinn hafði samþykkt þessa kjördæmaskipun fyrir 10 árum og einatt siðan, þegar betur hefur staðið á fyrir þjóðinni, fann þessi flokkur ekki neina nauðsyn þessara breytinga. Daginn fyrir kosningar varð það allt í einu nauðsynlegt. Núna, á alvarlegustu tímum, sem yfir þjóð okkar hafa dunið, var það mesta nauðsynjamálið, sem Alþfl. hugkvæmdist. Og Sjálfstfl. féllst á þessa skoðun Alþfl. Þess vegna hefur hann nú, án þess að geta svo mikið sem bent á, að Framsfl. hafi gefið til þess minnsta tilefni, rofið það samstarf við Framsfl., er treyst var eftir s.l. áramót, til þess að mynda ríkisstj. með stuðningi konmnúnista og Alþfl., andstöðuflokkum fyrrv. ríkisstj. En þessir nýju stuðningsmenn hinnar nýju stj. eru fjandmenn allra aðalmála, er Sjálfstfl. hefur með samningum við Framsfl. bundizt samtökum um að styðja og framkvæma, og formaður flokksins lýst yfir að væri lífsnauðsyn fyrir þjóðina að vinna að til að afstýra fjárhagslegu hruni. — Þegar yfir þjóðina ganga hinir alvarlegustu tímar í sögu hennar, þegar þörf er samtaka og samheldni um óteljandi vandamál meira en nokkurn tíma fyrr, þá er mynduð stjórn, sem til er stofnað með þeim hætti, er ég hygg einsdæmi, því er beinlínis lýst yfir af öllum flokkum, er að stjórninni standa, að þeir séu ekki samtaka né sammála um neitt af vandamálum þjóðarinnar, sem bíða bráðrar lausnar. Þeir eru ósammála um allt nema eitt, þ.e. að stofna til innanlandsófriðar um viðkvæmasta deilumál þjóðarinnar, þar sem, með lævísum hætti, á að ræna aðra aðalstétt þjóðfélagsins, sem með striti sínu brauðfæðir þjóðina á hættunnar stund, miklu af réttinum til að hafa áhrif á þjóðmál.

En til þess að ekki hallist um drengskapinn í vinnubrögðum Sjálfstfl., segir hann þjóðinni í blöðum sínum, að hann hafi boðið Framsfl. þau auðvirðilegu pólitísku hrossakaup, að Framsfl. beitti sér fyrir nýrri frestun kosninga, gegn því, að Sjálfstfl. frestaði afgreiðslu kjördæmamálsins á þessu þingi. En kosningafrestun var aldrei né verður af minni hendi nein pólitísk verzlunarvara. Þetta tilboð um verzlun á kosningarétti þjóðarinnar skal nú athugað.

Kosningum var frestað í fyrra, vegna þess að þjóðin var lostin harmi og kvíða, er skipum hennar var sökkt með hörmulegum hætti, þingmaður tekinn í þinghelgi og fluttur úr landi, líklegt var, að aðalátökin yrðu um Atlantshafið, en ekki Rússland. Frestun kosninga þótti framkvæmanleg, vegna þess að þjóðstjórn var í landi, svo að segja allir þingmenn, er stóðu að stjórninni voru henni samþykkir og því treyst, að öll stjórnarblöðin stæðu að henni og engar deilur risu um hana innan stjórnarflokkanna. Ef því hefði ekki verið treyst, að þannig yrði að kosningafrestuninni staðið, hefði hún aldrei verið ákveðin, því að þá náði hún ekki tilætluðum tilgangi fyrir þjóðina, að stilla deilur, skapa starfsfrið og sterkara samstarf.

En það skorti bæði orðheldni og drenglund til að standa að kosningafrestuninni eins og vera þar og á var treyst. En í því sambandi játa ég gjarnan yfirsjón mína í kosningafrestuninni, og þá yfirsjón eina, — ég oftreysti þessum eiginleikum.

Þegar þm. N.-Ísf. sagði af sér og Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla varð þingmannslaus, töldu framsóknarmenn og jafnaðarmenn sjálfsagt, að þeir byðu ekki fram í Snæfellsnessýslu, Sjálfstfl. hefði haft þingmanninn og ætti að fá sætið mótsóknarlaust af hálfu hinna stjórnarflokkanna. Sama reglan ætti að gilda í N.-Ísafjarðarsýslu. Alþfl. ætti að fá sitt sæti þar mótsóknarlaust af hálfu Framsfl. og Sjálfstfl. Á báðum stöðum átti að vera friðarkosning. Þetta töldum við í samræmi við framkvæmd kosningafrestunar annars staðar, er til þekktist. Ef friður var rofinn í tveimur kjördæmum og til ófriðar stofnað, var vitað, að þeir, sem óánægðir voru með kosningafrestunina, mundu segja af sér og fleiri kosningar valda áframhaldandi kosningaófriði, verri en þó að kosningar hefðu farið fram un. allt land í einu tagi s.l. vor. En Sjálfstfl. neitaði friðarkosningum, ungan sjálfstæðismann langaði á þing, flokkurinn gerði sér vonir um að geta unnið N.-Ísafjarðarsýslu af samstarfsflokknum. Sjálfstæðismenn sögðu í Morgunblaðinu, að friðarkosningar hefðu aðeins verið áskildar, ef þingmenn stjórnarfiokkanna féllu frá. Alþfl. taldi sig svikinn og neitaði að standa lengur að kosningafrestun, krafðist kosninga þegar, og ráðh. flokksins neitaði að fresta bæjarstjórnarkosningum, svo sem um hafði verið talað.

Blöð Sjálfstfl. létu ekki á sér standa, þau heimtuðu þegar almennar kosningar. Einn af þingmönnum Sjálfstfl. ritaði grein í Morgunbl. 17. sept. 1941 með fjögurra dálka fyrirsögn, er þannig hljóðaði: „Alþingiskosningar næsta sumar.“ Þar er krafizt kosninga. Í sama blaði var birt hver skammagreinin annarri dónalegri um mig fyrir að efna ekki þegar til kosningaófriðar. Visir skrifaði s.l. sumar svo margar greinar, þar sem hann fyrir hönd Sjálfstfl. heimtaði kosningar, að engin tök eru að rekja þær hér, og blaðið neitaði því að hafa staðið að kosningafrestun. Öllum var þá þegar ljóst, að með þessu höfðu þessir flokkar eyðilagt kosningafrestun að fullu. Framsfl. var eini flokkurinn, sem hélt sér við samningana.

En til þess að kóróna þetta, — til þess að rjúfa ekki aðeins samninga, heldur og grundvöll þeirra —, taka Morgunblaðið og Vísir að úthúða Alþfl. vegna kosningafrestunarinnar. Í grein í Vísi 22. ág. 1941 segir, að Stefán Jóh. Stefánsson sé óþarft fimmta hjól í ríkisstj. Flokkinn vanti bak við hann. Ástæðulaust sé að fela fylgis- og flokkslausum manni að vera utanríkisráðherra, þótt aðrir vinni þar verkin hans.

En Mbl. 20. sept. segir í leiðara: „Sósíalistar gripu hins vegar kosningafrestunina eins og sökkvandi maður í bjarghring, og í skjóli hennar sitja 6 gervimenn úr hópi hálfsálaðs flokks þeirra á Alþingi:

Þannig er ekki hægt að standa að kosningafrestun. Hún átti að tryggja vinnufrið og varðveita samstarf, en var gerð að ófriðarefni og illdeilum milli Alþfl. og Sjálfstfl. Friðurinn var orðinn að ófriði. Árangur gagnstæður tilgangi.

Af þessu hygg ég vera ljóst, svo sem verða má, að Sjálfstfl. sleit samkomulaginu um kosningafrestun vitandi vits þegar s.l. sumar, og þá þegar var ljóst, að hún var úr sögunni. Á haustþinginu voru Framsfl. og Sjálfstfl. sammála um að mynda stjórn saman til kosninga næsta vor. Fyrir áramótin, er auglýsa átti bæjarstjórnarkosningar, gerði ég þó enn eina tilraun til sátta milli Alþfl. og Sjálfstfl. um kosningafrestun, en alveg án árangurs. Kosningabaráttan hófst. Eftir áramótin lýstu þrír ráðh. yfir því, að kosningar mundu fara fram í vor. Nú um miðjan þingtímann beitti Sjálfstfl. sér fyrir að fresta afgreiðslu fjárl., til þess að þingið, sem kjörið yrði við kosningar í vor, afgreiddi þau. Flokkurinn gekk út frá því sem sjálfsögðu, að hafa kosningar í vor. Það höfðu allir gert um langt skeið. Þingið yrði rofið og kosið.

Þess vegna kom þm. V.-Sk. fram með till um að endurnýja kosningafrestunina. Till var borin fram án vitundar Sjálfstfl., að sagt var. Ég krafðist útvarpsumræðna. Þá var till. dregin til baka og ekki sýnd síðan. Það voru 5 þm. í Sjálfstfl. með till. Þetta mátti ekki koma fram opinberlega, — þess vegna var till. dregin til baka, því að annars var ekki hægt að halda áfram yfirklórinu og hræsninni frammi fyrir þjóðinni.

Í enda grg. fyrir þessari till. kemur fram sú sama pólitíska siðspilling, sem einkennir allt skraf blaða Sjálfstfl. um endurnýjun kosningafrestunar. Það er ekki talað um kosningafrestun af þjóðarnauðsyn, því að í öðru orðinu er sagt, að vel megi stofna til mesta ófriðar, tveggja kosninga, samanhangandi kosningastyrjaldar allt sumarið. En ef frestað sé kosningum, megi fresta kjördæmamálinu. Það á að nota kosningafrestun til að stöðva mál. Ef deilur um kjördæmamálið eru það nauðsynlegasta fyrir þjóðina nú, þá á að taka því, en séu þær það ekki, á að víkja málinu til hliðar, vegna annarra mála, án tillits til frestunar kosninga. Kosningarrétturinn er ekki pólitískur gjaldmiðill til að braska með hér á Alþingi, til að kaupa stöðvun mála eða áframhaldandi völd. Þessir menn ættu að blygðast sin, ef þeir kynnu það, en í þess stað ráðast þeir með brigzlyrðum á okkur framsóknarmenn fyrir, að við skulum ekki gína við þessari þokkalegu verzlun.

Efnislega eru tillögurnar um endurnýjun kosningafrestunar, eins og þær eru fram bornar og rökstuddar, íslenzkum stjórnmálum til skammar. Í annan stað eru þær yfirklór og hræsni um vilja til friðar, sem alþjóð þráir, um leið og hafin er langvarandi kosningastyrjöld og friðarslit um allt, sem nauðsynlegt er að standa saman um.

Sjálfstfl veit, að það er næstum ekkert fylgi fyrir kosningafrestun í þinginu, ekki einu sinni í hans flokki, og þetta fylgisleysi stafar fyrt og fremst af því, að Sjálfstfl. rauf samninginn frá í fyrra um kosningafrestunina efnislega og einnig grundvöll hans með sérstaklega drengskaparlausri framkomu, svo sem ég hef áður rakið með tilvitnunum í blöð flokksins. Það þarf engan að undra, þótt þm. séu ekki ginnkeyptir fyrir að endurtaka samninga um kosningafrestun við flokk, sem þannig kemur fram ofan á allt annað, enda næstum þýðingarlaust.

Til þessarar brigðmælgi Sjálfstfl. má rekja hvert óhappið eftir annað. Þegar Sjálfstfl. sá, að hann hafði eyðilagt kosningafrestunina síðastliðið sumar, þorði hann ekki að framkvæma dýrtíðarl. vegna væntanlegra kosninga, hann þorði ekki að samþykkja dýrtíðarfrv. Eysteins Jónssonar, sem hann hafði verið með í að kalla aukaþing saman til að samþykkja, vegna þess, eins og einn þm. flokksins orðaði það: að bæjarstjórnar- og Alþingiskosningar voru framundan.

Af sömu ástæðum boðaði Stefan Jóh. Stefánsson bæjarstjórnarkosningar og hljóp svo úr ríkisstj. til að reyna að afla sér fylgis í þeim kosningum með því að vera á móti gerðardómsl.

Ef Sjálfstfl. hefði haldið samkomulagið um kosningafrestun, mundi sennilega öllu þessu hafa verið afstýrt, og svo látast sumir forvígismenn þessa flokks bjóða það til friðar að fresta kosningum, sömu dagana og uppvíst er, að næstum ekkert fylgi er fyrir þessu tylliboði í flokknum.

Kosningafrestun, eins og nú er komið, mundi ekki verða treyst, þótt meiri hluti þings fylgdi henni, en sá meiri hluti er ekki til. Þm. byggjust við því, vegna reynslunnar, að sá samningur yrði svíkinn þá og þegar. Vegna kosningahræðslunnar mundu sömu vinnubrögð endurtaka sig og á síðasta ári í mörgum stórum málum. En þau eru nú mörg fyrir höndum, og er næstum víst, að þau verða fleiri og stærri með hverjum degi. — Slik kosningafrestun yrði gerð í andstöðu við stjórnarandstöðuna og einnig mikinn hluta stjórnarflokkanna. Enn fremur í andstöðu við mörg stjórnarblöðin. Ég veit um nokkra þm., sem mundu neita að koma til þings. Slík vinnubrögð mundu ekki styrkja, heldur veikja bæði þingið og stjórnina og auka vantraust á hvoru tveggja meðal þjóðarinnar. Það mundi og vekja slíkar deilur milli flokka og innan flokka, að miklu verra vær í en kosningabarátta, og afleiðingar yrðu upplausn á þingræði í landinu. Þannig eru oftast afleiðingar þess að halda ekki gerða samninga.

Eftir að samkomulagið um kosningafrestun var rofið, hefur mér verið það ljósara með hverjum degi, að eina úrræðið til að fá sterkara þing og starfhæfari stjórn, var að láta stuttar og sem friðsamastar kosningar fara fram, þar sem aðaldeilumálin væru lögð til hliðar af samstarfsflokkum og samstarfi um vandamálin haldið áfram meðan kosið var. Engar heitar deilur, friðarslit eða hatur hefði skapazt. Í stað þess að tvennar kosningar, um heitasta deilumálið, rjúfa allan samstarfsgrundvöll og skapa hatur og upplausn, hefðu einar kosningar, þar sem aðaldeilumál voru ekki til, styrkt þjóðina. Eftir þær kosningar og með fjögurra ára umboð, mundi þingið hafa orðið starfhæfara til að skipa vandamálunum, skapa ríkara samstarf milli flokka og kjósa þjóðinni ríkisstjórn. Bæjarstjórnir víðs vegar um landið sitja nú að friðarstóli eftir kosningahríðina, sem þó var óþarflega hörð, vegna þess, hvernig á stóð. Í Ástralíu, Egyptalandi, Írlandi, Kanada og Bandaríkjunum eru kosningar fyrir dyrum eða ný lokið, — til þess að gera umboð þinganna varanlegri og styrkja ríkisstjórnirnar til hinna miklu átaka. Þetta áttum við einnig að gera, eins og komið var. Um þetta voru allir sammála, unz nú fyrir nokkrum vikum, að kjördæmamálið kom fram, þá var af sumum sjálfstæðismönnum byrjað að tala um endurnýjun kosningafrestunar, af þeirri smekkvísi og heilindum, sem ég hef þegar rakið.

Þannig var talað og skrafað af fláttskap sömu daga og ákveðið var að ganga í lið með stjórnarandstöðunni til að slita öllu samstarfi við alla um málin, sem þjóðinni er lífsnauðsyn að leysa með samstarfi, og til að stofna til innanlandsófriðar um viðkvæmasta deilumálið, sem til er meðal þjóðarinnar, mál, sem allir vissu, að var frá upphafi grundvöllur samstarfsins, að ekki yrði hreyft frekar en þeim deilumálum, sem við höfum lagt til hliðar.

Landsmenn eru næsta almennt lostnir undrun. Hvernig má það ske, að Sjálfstfl. kjósi nú að slíta samstarfi og stofna til pólitískra vígaferla um stjórnskipun landsins?

Engri þjóð í veröldinni hefur hugkvæmzt það, svo að vitað sé, á þessum hættutímum. Þessari stjórn hefur því lánazt að gera okkur Íslendinga að viðundri frammi fyrir öllum heimi. Og þessi dæmalausa stjórn slítur friðinn við alla, hún hefur yfirlýst frá öllum flokkum, að hún hafi ekki traust og engan stuðning til að framkvæma nokkurt vandamál þjóðarinnar. Hún hefur stuðning til þess eins að stofna til ófriðar. Kommúnistar orða þetta skýrt í blaði sínu. Þeir segjast styðja stjórnina vegna þess, að hún sé nægilega ósjálfbjarga og veik. Þeir styðja hana ekki sem stjórn, heldur sem upplausn. Ég hygg, að það sé brot, a.m.k. á anda stjórnskipunar íslenzka ríkisins, að slík stjórn sé mynduð.

En maður skyldi nú halda, að þegar þjóðin er öll sett á annan endann í tvennum ófriðarkosningum, þá væri málið, sem barizt er fyrir, rækilega undirbúið, eins og siðaðar þjóðir gera, þegar þær breyta stjórnskipun sinni, og breytingarnar séu sniðnar við þá reynslu, sem þjóðirnar hafa fengið svo mikla og örlagaríka undanfarin ár af lýðræðislegri stjórnskipun. Nei, það má ekki hugsa þetta mál né undirbúa, aðalatriðið virðist vera að hrasa að málinu. Alþfl. setur málið, — breytingar á stjórnskipun landsins —, fram sem kosningabombu eða kosningaflesk fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Það er hripað upp í flýti, án greinargerðar. Flokknum datt ekki í hug, að málið næði fram að ganga, enda ekki borið fram í þeim tilgangi. Það liggja fyrir margar sannanir um þetta atriði, sem þingheimur þekkir, en handhægasta sönnunin eru tvær stórgreinar í Alþýðublaðinu.

Þar er afdráttarlaust fullyrt sömu dagana og frv. er birt, að Sjálfstfl. hafi bundizt loforðum við Framsfl. um að hreyfa ekki kjördæmamálinu á þessu þingi. frekari vitnaleiðslur um skoðun Alþfl. eru óþarfar. En Alþfl. gerði hið pólitíska verzlunartilboð um stjórnskipun landsins þannig úr garði, að Sjálfstfl., sem seinustu bæjarstjórnarkosningar um allt land sýndu, að er hvort tveggja í senn að tapa fylgi og sundrast, gæti fengið 6 þm., þótt hann væri í mínni hluta í tvímenningskjördæmunum. Ef Sjálfstfl. hafnaði tilboðinu, og Alþfl. taldi, að hann yrði að gera það, átti að reyna að nota það í kosningunum til að vinna af Sjálfstfl. fylgi, fyrir það að vera á móti réttlætismálinu, — eins og þessir flokkar kalla það. En Alþfl. athugaði það ekki, að fyrir flokk, sem er að deyja fyrir rás tímanna, var tilboðið að ná í 6 þingsæti með hrekkvísi of ginnandi.

Sjálfstfl. gein við agninu. Það var of seint að kippa því til baka, þótt Alþfl. hefði viljað. Ef hann gerði það, voru orðin hausavíxl á vélræðinu fyrir næstu kosningar. Það var þá Alþfl., sen hafði brugðizt svokölluðu réttlætismáli kjósenda.

Hrekkvísi Alþfl. varð að úlfakreppu fyrir hann sjálfan. Annars vegar var Sjálfstfl., hins vegar úlfurinn, sem Alþfl. er hræddur um, að gleypi sig — kommúnistarnir. — Þannig verður þá stjórnskipun íslenzka ríkisins til ársins 1942. Það er sennilega stærri og sögulegri atburður en margur hugleiðir, þegar hann er að gerast.

Ég veit ekki um ánægju Alþfl. og hygg, að hún sé blandin, en það ber mjög á því, að hefndarhugur frá því í vetur gefur foringjum þeirra a.m.k. þrótt til verknaðarins. Kommúnistar eru aftur á móti sá flokkur, sem er fullkomlega ánægður, og vitanlega ráða þeir mestu í þessu máli eins og öðrum, er Alþfl. og þeir hafa sameiginlega.

En hvers vegna tók Sjálfstfl. þessa flugu? Eftir að flokkurinn brást í dýrtíðarmálinu s.l. sumar og aftur á haustþinginu, reis stórfelld óánægjualda í flokknum, einkum meðal framleiðenda, sem sáu hættuna af vaxandi dýrtíð. Þess vegna varð flokkurinn óviljugur og klofinn að fylgja gerðardómsl. eftir áramótin. Þótt þessar ráðstafanir móti dýrtíðinni væru aðeins hluti af fullkomnum aðgerðum, er við framsóknarmenn höfðum áður borið fram, og þótt það kæmi of seint og öllu málinu hefði verið spillt vegna dráttar, fylgdum við þessum málum, því að það var seinasta tækífærið til bjargar. En þetta át:k varð Sjálfstfl. ofraun. Hann hálfsligaðist á þessu átaki. Ofan á það koma svo bæjarstjórnarkosningarnar, þar sem flokknum var borin á brýn undirokun undir Framsfl., og við kosningarnar reyndist flokkurinn vera klofinn og á allan hátt hrörnandi. Í Rvík tapaði hann í fyrsta skipti meiri hluta kjósenda. Í stað þess að skilja það, að flokkurinn er að byrja að hrynja, eins og sams konar flokkar annars staðar, er standa fyrir skefjalausri samkeppnis- og auðpólitík, var flokkurinn lostinn undrun og kvíða. Ofan á þetta kom svo afgreiðsla skattal., sem var þó vegna Sjálfstfl. beðið með að sýna fyrir bæjarstjórnarkosningar. Undir þessi skattal. höfðu sjálfstæðismenn orðið að skrifa í samningum við Framsfl. Þegar auðmenn flokksins, sem dreymir um hreina afturhaldspólitík í verzlun og fjármálum, sáu þessi skattalög, trylltust þeir gegn þingmönnum og forvígismönnum flokksins. Þessir auðmenn hafa nú, án þess að flokkurinn sem slíkur yggði að sér, náð algerðum yfirráðum yfir Vísi og Morgunblaðinu. Þessir stríðsgróðamenn ráða stefnunni, sem tekin hefur verið, og með hrekkvíslegum l. á að ná því, sem flokkurinn hefur tapað í fylgi.

Um það er ekki hirt, þótt stjórnskipun landsins sé gerð að skrípi. Yfirlýsingar Alþingis frá í fyrra eru gerðar hlægilegar frammi fyrir umheiminum. Hina nýju stjórnarskrá á að samþykkja og senda út til auglýsingar meðal erlendra þjóða sem stjórnarskrá konungsríkisins Íslands.

Í hinni nýju stjórnarskrá á að standa:

„Skipun konungserfða er sú, er segir í 1. og 2. gr. konungserfðalaga frá 31. júlí 1853.“

Fleira á að fylgja með af sama tagi. Þessi er þá, frammi fyrir umheiminum, alvaran í samþykktum Alþingis um fullt frelsi og sjálfstæði, sem við tilkynntum þjóðunum fyrir einu ári.

Þess virðist og vandlega gætt að taka ekkert tillit til þeirrar reynslu, sem aðrar þjóðir hafa fengið um stjórnskipun. Hér er þvert á móti apað eftir þeim ágöllum, sem verstir hafa reynzt og flestum lýðræðisþjóðum hafa orðið að fjörtjóni. Hér er fetað í fótspor þeirra ógæfumanna í Þýzkalandi og víðar á meginlandi Evrópu, sem börðust fyrir sams konar „réttlætismálum“, hlutfallskosningum og jafnrétti meiri hluta og minni hluta, þangað til flokkarnir skiptu tugum, enginn gat myndað stjórn og lýðræðið var að lokum þynnt út í ekki neitt. Í Þýzkalandi voru 30–40 flokkar, áður en síðustu leifar þingræðisins dóu þeim dauðdaga, sem kunnugt er. Sama er um Ítalíu, sama er um Spán, eftir að sama tegund af lýðræðisvinum hafði þar verið að verki. Og nú ætla lýðræðisvinirnir á Íslandi að fá íslenzka kjósendur til að fallast á, að það sé mesta nauðsynjamál Íslendinga að stofna til pólitískra vígaferla, til að geta hrapað að því óhugsað og óundirbúið að sníða stjórnskipun íslenzku þjóðarinnar sem næst stjórnskipun þjóðar, sem hefur glatað lýðræðinu, að minnsta kosti að verulegu leyti vegna megingalla, sem á því voru. Þetta var meðal annars varið með þeirri broslegu röksemd, að búnaðarþingið sé kosið með hlutfallskosningu.

Stéttarfélag bænda, með valdsvið aðeins í eigin félagsmálum, er borið saman við Alþing. En búnaðarþing er nú byrjað að breyta tvímenningskjördæmunum hjá sér í einmenningskjördæmi. Framsóknarmenn eru því meðmæltir, en ýmsir sjálfstæðismenn andvígir.

Hins vegar er alveg gengið fram hjá reynslu þeirra þjóða, sem nú standa í brjóstvörn fyrir lýðræði og þingræði, einu stórveldunum í veröldinni, sem hefur tekizt að vernda traust lýðræði fram á þennan dag. Og þetta er engin tilviljun. Þessar þjóðir hafa látið meiri hlutann í kjördæmunum ráða, þær telja það lán sitt að hafa forðast hlutfallskosningar, sem íslenzku lýðræðishetjurnar telja hið eina rétta. Þar hefur meirihlutareglan orkað því, að einatt hafa 2–3 flokkar farið með vald kjósendanna í stað 30–40 flokka meðal þjóða, sem við eigum að taka til fyrirmyndar. Þar hafa ráðið öruggar meirihlutastjórnir um áratugi. Það er talið aðalatriði. Hættan á misnotkun meiri hlutans takmarkast af því, að fari meiri hlutinn illa með vald sitt, afhenda kjósendurnir minni hlutanum valdið. Á þetta má nú ekki líta. Þótt við höfum boðið að endurskoða stjórnskipun ríkisins á þessum grundvelli í milliþinganefnd, fæst ekki um það rætt.

En „réttlætismálið“, sem svo er kallað, það á ekki upp á pallborðið hjá þessum öndvegisþjóðum lýðræðisins. Þegar Roosevelt, eða einhver annar, er kjörinn forseti Bandaríkjanna, eru með almennum kosningum valdir kjörmenn til að kjósa forsetann. Ef repúblikanarnir fá í einhverju fylki einu atkvæði færra en demokratar, fá þeir engan kjörmann, en demokratar alla. Minni hlutinn, sem er einu atkvæði minni en meiri hlutinn, sættir sig við það, — hann er minni hluti. Flokkarnir, sem keppa um kjörfylgi og stjórna landinu, eru aðallega tveir. Ef Bandaríkin hefðu hlutfallskosningar, yrðu sennilega fljótt tugir flokka og viðlíka margir tugir andstæðra flokka kjörmanna. Þeir geta svo setið og makkað lengri tíma um val forseta, fellt hann og makkað á ný. Sömu yrðu þá vinnubrögðin í þjóðfélaginu. Þetta telja Bandaríkin sér lífsnauðsyn að forðast, það mundi valda glundroða og upplausn. En á Íslandi eru flokkar, sem telja bað mesta nauðsyn fyrir þjóðina að sundra henni, vekja hatur og illdeilur til að auka hlutfallskerfið í kosningum. England hefur svipað kosningakerfi og Bandaríkin. England telur það lán sitt að forðast hlutfallskosningakerfið. Gegn þessari reynslu er hiklaust gengið og allt við það miðað, að Alþfl. og Sjálfstfl. geti með hrekkjum unnið nokkur þingsæti.

Í ofanálag á allt annað er svo stjórnarskráin, sem hér á að samþykkja, hreint skrípi, hlutfalls- og meirihlutakosningum blandað saman með þessum hætti. Þetta auðveldar möguleika fyrir kosningasvikum. Með því að bjóða Bændafl. fram í tvímenningskjördæmum, getur Sjálfstfl. sennilega fengið 6 þm. með færri atkvæðum bak við sig en nokkurn tíma hefur tíðkazt, og ranglætið, sem réttlætispostularnir kalla svo, orðið margfalt samanborið við það, sem nú er. Uppbótarþingmenn, vegna atkvæðamagnsins í þéttbýlinu, fengi Sjálfstfl. svo í fullum mæli. Þegar jafnaðarmönnum er á þetta bent, segja þeir hróðugir, að þeir geti einnig svíkið, með því að bjóða fram undir sérstöku flokksnafni á Seyðisfirði, V.-Ísaf jarðar sýslu og viðar, og Fá þannig þingmann á fá atkvæði í fámennum kjördæmum. Alþfl. fái svo óskerta tölu uppbótarþingmanna vegna atkvæðanna úr þéttbýlinu. Það er stofnað til þessarar breyt. á stjórnarskránni sem vélræðis, hún eykur möguleikana til svika og gagnsvika, svo sem sýnt er. Þetta sýnir, að þegar meirihlutakerfi og hlutfallskerfi er blandað saman í kosningum, svo sem nú er í stjórnarskránni og enn er fært til verri vegar, verður stjórnskipunin vanskapnaður, sem leiðir til enn meiri upplausnar en uppbótarþingmannafyrirkomulagið hefur gert, og hefur það þó valdið mikilli hrörnun og spillingu í störfum Alþingis.

Ég hef nú gert nokkurt yfirlit um málin. Sjálfstfl. stofnar nú til hinnar einkennilegustu stríðsstjórnar, er engan líka mun sér eiga. Ekki til að verja þjóðina áföllum á hættustund, heldur til að leiða þau yfir hana. Ekki til að hefja samstarf til viðnáms gegn utan að komandi styrjöld, heldur er mynduð hér stríðsstjórn til að hefja innanlandsstyrjöld um mál, sem er heitasta deilumál, er fundið varð meðal þ jóðarinnar og er alveg ófrjótt á þessum tíma.

Sjálfstfl. mun ganga erfiðlega að réttlæta þá styrjöld, sem hann stofnar nú til, eða benda á nokkurt tilefni, sem við framsóknarmenn höfum gefið til friðarslita. Ég veit ekki betur en við höfum haldið hvert loforð og samkomulag í samstarfinu. Okkur er borið á brýn, að við höfum verið óvægnir á haustþinginu, þegar Sjálfstfl. neitaði að samþykkja dýrtíðarfrumvarpið, sem hann kallaði þing saman, ásamt okkur, til að fjalla um. Ráðstafanir, sem ráðh. flokksins samþykktu um seinan, en lítið breyttar, með gerðardómsl. eftir áramótin, og form. Sjálfstfl. sagði þá í útvarpsræðu, að væru lífsnauðsynlegustu ráðstafanir, sem gerðar hefðu verið fyrir þjóðina, svo að það var ekki undarlegt, þótt við fylgdum þeim fast eftir fyrir áramótin.

Jafnaðarmenn bera sér það í munn, að við höfum brugðizt þeim með samþykkt gerðardómsl., þess vegna hafi þeir orðið að fara úr ríkisstj. Þetta er ósatt. Upphaf samstarfsins og grundvöllur 1939 voru gengisl., þar sem gengið var inn á þá starfsaðferð að lögbinda grunnkaupið, og dýrtíðaruppbót meira að segja mikið skert. Þessa starfsaðferð hafa flokksbræður þeirra viðurkennt réttmæta fyrir stríð, viða um lönd, í tugum tilfella, hún er nú notuð eða viðurkennd í mörgum löndum af jafnaðarmönnum nú í styrjöldinni, enda voru gerðardómsl. miklu hagstæðari fyrir verkalýðinn en reglan í gengisl., sem jafnaðarmenn sömdu um í byrjun samstarfsins 1939. Jafnaðarmenn hlupu úr ríkisstj. til að afla sér kosningafylgis, sem þeir munu nú reita af sér í næstu kosningum, því að ef einhverjir hafa haldið, að jafnaðarmenn meintu eitthvað með andmælum sínum gegn gerðardómsl., sjá þeir það væntanlega nú. Þeir styðja stjórn, sem á að framkvæma þessi sömu l., og buðust til að setja menn aftur í ríkisstj., sem á að framkvæma þau, þótt sjálfstæðismenn vildu ekki þiggja það.

Hér er sami pólitíski skrípaleikurinn og árið 1938, þegar Alþfl. dró ráðh. sinn úr ríkisstj., vegna gerðardóms í togaradeilunni. En eftir fáa daga studdu þeir stjórn, sem framkvæmdi l., vildu koma, ekki einum, heldur tveimur mönnum í stjórn og báðu um lögþvingaðan gerðardóm í deilum stýrimanna eftir fáar vikur. Í þessu öllu saman er engin heil brú, engin stefna, eintóm pólitísk spákaupmennska.

Með bezta vilja fæ ég ekki séð, að Framsfl. hafi brugðizt í samstarfinu á nokkurn hátt, en gert sitt ýtrasta til að halda því við.

Þannig hefur þessu tímabili lokið. Við fyrstu göngu sína fær nýja stjórnin þá yfirlýsingu samstarfsflokkanna, að henni skuli bjargað frá falli fram á sumarþingið. Þá á að byrja nýjan skopleik. Þá á að þvo sig af fylgi við stjórnina fyrir haustkosningarnar. En á sumarþinginu segjast stjórnmálaflokkarnir ætla að samþykkja fullt frelsi og sjálfstæði þjóðinni til handa. Á þessu sama sumarþingi verður þessi veikasta ríkisstj. af öllum veikum yfirgefin af jafnaðarmönnum og kommúnistum, og þar með verða leifar hennar gerðar óþingræðislegar. Þannig á að kóróna allt saman, þannig á að byrja frelsistímabilið, þannig mun eiga að styrkja þjóðina út á við. Og með svona ríkisstj. á þjóðin að ganga út í ný pólitísk vígaferli, nýjar kosningar, hvað sem þá kann yfir að dynja. — En eftir seinni kosningarnar? — Enginn flokkur fær meiri hluta. Jafnaðarmenn og kommúnistar segjast ekkert mál hafa sameiginlegt með ríkisstj. Væntanlega er ekki ráðgert, að Framsfl., sem öll þessi ósköp eru gerð til að reyna að eyðileggja, eigi þá að koma til bjargar? Á þá, eftir allar breytingarnar á stjórnskipun ríkisins, að hefja hið langþráða tímabil fulls frelsis og sjálfstæðis með því að hafa allt sundrað og sundurtætt í illdeilum? Á máske að hefja þriðju kosningahríðina, þegar kemur fram á veturinn? Þetta eru vinnubrögðin, sem hin nýja stríðsstj. stefnir að.

Landsmenn sjá vonandi, út í hvað er stefnt. Eina leiðin til að afstýra fullkominni upplausn er, að kjósendur bæði við sjó og í sveit, veiti Framsfl. stöðvunarvald. Ég hef að vel íhuguðu ráði ekki rofið þing, þjóðin fær með þessum kosningum tækifæri til að hrinda áhlaupinu sjálf, og það er hún, sem á að gera það.

Menn kjósa nú um upplausn eða stöðvun hennar. Menn geta með atkvæði sínu í vor komið í veg fyrir innanlandsófrið og áframhaldandi kosningastyrjaldir.

Að lokum þakka ég, um leið og ég læt af starfi sem forsrh., landsmönnum öllum, nær og fjær, fyrir gott samstarf og þá velvild, sem þeir hafa sýnt mér í starfi mínu öll þessi ár.