19.05.1942
Sameinað þing: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (1289)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Allt frá því 1927 og fram á síðastliðinn laugardag hefur Framsfl. átt fulltrúa í ríkisstj., og allan þann tíma hefur forsrh. verið úr flokki framsóknarmanna. Þetta er óvenjulangur, óslitinn valdaferill, og mun það engan hneyksla, þótt nokkuð hafi úr skorðum gengið rétt sjálfsmat framsóknarmanna, jafnt um stjórnhæfni flokksins sem almenn borgaraleg réttindi — og sérréttindi — framsóknarmönnum til handa. Þetta sé afsökun hv. þm. Str. í augum þeirra, sem telja, að 8 ára forsrh. hefði borið að tala öðruvísi.

Þá skyldi það engan undra, þótt slíkur flokkur fyllist áhyggjum um andlegan og veraldlegan velfarnað þjóðarinnar, er svo er komið, að áhrifa hans gætir ekki í stjórn landsins, jafnvel þótt aðeins um skamma hríð væri, enda má glöggt greina, að svo er. Hafði hin nýja stjórn eigi fyrr tekið við völdum en Framsfl. bar fram vantraust á hana, og nú hafa menn heyrt í ræðu hv. form. Framsfl. og hv. þm. Str., fyrrv. forsrh., Hermanns Jónassonar, að slíkt er hvorki gert til gamans né heldur af úlfúð. Það er nú eitthvað annað. Það er aðeins kvíði þess flokks, sem mest og oftast talar um, að hann sé ábyrgur stjórnmálaflokkur, — kvíði og ótti út af framtíðarafkomu þjóðarinnar, eða þannig ætti það að vera.

Og þessi kvíði og þessi umhyggja nær einnig til Sjálfstfl. Hann tekur nú sárt til þess, að Sjálfstfl. sé deyjandi flokkur, hafi tapað bæjarstjórnarkosningunum í Reykjavík o.s.frv. Ég get huggað hv. þm. með því, að þetta er aðeins missýning. Sjálfstfl. fékk hreinan meiri hluta í bæjarstjórn Reykjavíkur, en það slys henti í leiðinni, að fyrir borð datt sá eini fulltrúi, sem flokkur hv. þm. átti þar áður.

Fyrir Sjálfstfl. hefur ekkert komið annað en það að vera í samvinnu við hv. þm. og flokk hans í 3 ár, og auðvitað fer enginn alveg skaðlaus út úr slíku. Ég hef hins vegar beztu von um, að Sjálfstfl. bregðist við fljótt og vel, eftir að hann nú er laus úr samvinnunni.

Áheyrendur greinir sennilega á um mörg rök hv. framsóknarmanna. Engum blandast hugur um, að margvíslegar hættur grúfa yfir þjóðinni. Allir viðurkenna einnig, að enda þótt margar þeirra séu þess eðlis, að sjálfir getum við lítil eða engin áhrif á þær haft, þá varðar þó mjög miklu um margt, að þjóðin standi sem fastast saman og einbeiti sameiginlegu átaki til sóknar og varnar í þeirri lífsbaráttu, sem nú er fram undan, enda má ætla, að víxlsporin, ef stigin verða, geti nú orðið örlagaríkari en nokkru sinni fyrr í sögu þjóðarinnar.

Ytra tákn samstilltrar þjóðar er sterk stjórn, þ.e.a.s. stjórn, sem hefur að baki sér mikið og traust þing- og þjóðarfylgi, og enda þótt ríkisstj. skipuð fulltrúum mikils meiri hluta þingsins geti verið veikari en hún sýnist, þá er hvort tveggja, að oftast mun slík stjórn sterkari en flokksstjórn, sem og a einnig það hefur þýðingu, að myndin út á við sýnist sem heilsteyptust. Af þessum ástæðum kjósa allir fremur, að þjóðstjórn fari nú með völdin en flokksstjórn, um það er hv. frummælandi og ég prýðilega sammála. Og þegar nú það samstarf að fullu rofnar, er til var stofnað 1939, og við sjálfstæðismenn eigum einir að halda um stjórnvölinn, bornir vantrausti af öðrum samstarfsflokknum, en án alls beins stuðnings hins, þá harmar það enginn meir, að svo skuli hafa tekizt fyrir þjóðstjórninni, en einmitt við.

En um þetta þýðir ekki að fást. Úr því að enginn var kostur samstarfs og samábyrgðar, þá varð einhver flokkur að sýna þann manndóm að taka á sínar herðar þær byrðar, er stjórnarstörfum fylgja á þessum örlagaríku tímum, í þeirri von, að honum endist afl og þrek til að standa undir þeim, þar til dagur friðar og samstarfs rís að nýju.

Það er kall þessarar skyldu, sem Sjálfstfl. nú hefur hlýtt.

Um þetta allt erum við, hv. þm. Str. og ég, sammála. Hitt greinir okkur mikið á, hver ber sök á því, hversu komið er, og þá eigi síður hitt, hvort ógn og ógæfa stafi af þeirri breytingu á kosningarréttinum, er gera á með stjórnarskrárbreyt. þeirri, er fyrir þinginu liggur, eða hvort hér sé um raunverulega réttarbót að ræða.

Skal ég nú leitast við að rökstyðja mál mitt í sem fæstum höfuðdráttum.

Þegar þjóðstjórnin var mynduð vorið 93a, ríkti að vonum nokkur ágreiningur innar Sjálfstfl. um, hvort stíga bæri það spor. Annars vegar var óttinn um algert hrun í atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar, ef Sjálfstfl. fengi ekki önnur og meiri áhrif á tarf og stefnu þings og stjórnar en þá hafði verið um langt skeið, en hins vegar trúðu menn því, að Sjálfstfl., sem þá nýverið hafði staðið af sér þá eldraun að ganga tvískiptur til úrskurðar í einu viðkvæmasta fjárhagsmáli alls almennings, gengismálinu, þyldi ekki að bæta því ofan á að taka nú höndum saman við forna fjendur, er um langt árabil með lítilli sanngirni höfðu beitt valdaaðstöðu sinni og hvergi hlífzt við að sverfa eftir fremstu getu á hugsjóna- og hagsmunamálum sjálfstæðismanna, — án þess að Sjálfstfl. gæfist jafnframt færi á að lagfæra og leiðrétta þær misfellur í löggjöf og framkvæmd, er flokkurinn fram að þeim tíma fastast hafði deilt á. Og enn voru þeir margir, er að minnsta kosti vildu skilja til, áður til samstarfs yrði gengið, að um einstök deilumál, svo sem viðskiptamálin, yrði samið, svo að missætti yrði eigi af síðar.

Að lokum sættust forustumenn flokkanna á þingi og utan þess á myndun þjóðstjórnar, er hafði að höfuðverkefni að efla og treysta friðinn í landinu í því skyni að sameina þjóðina til átaka um viðrétting atvinnulífsins og búa hana undir það, er þá þegar þótti uggvænt um, að koma mundi, þ.e.a.s. hina miklu styrjöld.

Nokkurri gagnrýni sætti þessi ákvörðun forustu Sjálfstfl. frá kjósendum flokksins, en brátt beygðu flestir sig fyrir óyggjandi rökum. Á einum aldarfjórðungi höfðu kröfur ríkissjóðs á hendur hvers mannsbarns í landinu tífaldazt. Á 5 árum hafði vísitala skattanna þrefaldazt: Á 15 árum hafði andvirði útflutningsvörunnar minnkað um nær helming. Á 10 árum höfðu skuldirnar við úttönd þrefaldazt. Á 5 árum hafði fátækraframfærið meir en tvöfaldazt. Atvinnurekendur voru flestir raunverulega gjaldþrota, en atvinnuleysisbölið, sem lengi hafði þjáð mikinn fjölda snauðra verkamanna, snuðraði eins og hungraður úlfur við dyr alls almennings, og bankar, ríki, bæjar- og sveitarsjóðir voru í mestu þröng.

Þetta var sú mynd, er við blasti. Þetta var fjárhagsgrundvöllurinn, sem 120 þúsund manna þjóð stóð á, þegar hún lagði upp í síðasta áfangann í frelsisbaráttu sinni, en yfir vötnunum sveif geigvænlegur skuggi heimsstyrjaldar.

Í slíku viðhorfi skildist sjálfstæðismönnum, að stærsti flokkur þjóðarinnar átti í rauninni ekkert val. Sjálfstæðismenn gerðu sér ljóst, að um ekkert gat verið að ræða annað en að leggja fram alla sína krafta og fagna því, að aðrir vildu taka höndum saman við þá, og leggja síðan inn á hina langþráðu braut, burt frá snös feigðarhylsins og áleiðis til hins fyrirheitna lands blómlegs atvinnulífs og góðrar fjárhagsafkomu, sem frjó mold og ríkustu fiskimið heimsins ævinlega opna okkar dugmiklu þjóð aðgang að, þegar framtakið og frjálshugur fá notið sín. Og flestir sjálfstæðismenn féllust á, að sagan mundi dæma veg okkar því meiri sem við settum færri skilyrði um flokkslega sigra fyrir samstarfi, sem beindist fyrst og fremst að því að bjarga fé og frelsi þjóðarinnar í nútíð og framtíð.

Ég viðurkenni, að frá flokkslegu sjónarmiði okkar sjálfstæðismanna hefði margt mátt betur fara í stjórnmálunum, frá því að þjóðstjórnin var mynduð, en raun ber vitni um, enda hefur ófriðurinn raskað eðlilegri þróun stjórnmálanna, sem flestu öðru hér á landi. Hitt fullyrði ég óhikað, að það var mikil þjóðargæfa, að til samstarfs var gengið, einmitt þegar gert var, og mátti sannast sagna ekki síðar verða. Vegna samstarfsins vorum við miklu betur undir styrjöldina búnir, höfðum bæði haft óvenjulegar framkvæmdir um aðdrætti og gerðum auk þess réttar ráðstafanir til að tryggja landsmönnum hærra verð fyrir útflutningsvörurnar, strax og styrjöldin skall á. Hika ég ekki við að fullyrða, að á þessu græddust þjóðinni milljónir og milljónatugir. Og þótt ég geti ekki í þessari stuttu greinargerð gert samstarfinu skil, fullyrði ég, að það hefur reynzt til mikillar farsældar og meiri en hægt er að leggja fram gögn fyrir.

Að sjálfsögðu hefur oft ríkt mikill ágreiningur um innanlandsmálin og skattamálin. Dreg ég þó í efa, að mikill þjóðarskaði hafi hlotizt af þeim ágreiningi. Tel ég, að varðandi ágreining um innanlandsmálin hafi það verið skaðlegast, að við sjálfstæðismenn fengum ekki fyrr en varð næg áhrif á stefnuna í viðskiptamálunum. Verður að sönnu að viðurkenna, að lengi var þröngt um fjárhag og eftir að úr greiddist, leið ekki á löngu áður en dyrnar tóku að hallast aftur, svo að æ örðugra varð um öflun ýmissa nauðsynja frá útlöndum. En þrátt fyrir þetta þori ég að fullyrða, að hrein flokksstjórn sjálfstæðismanna mundi hafa fært landinu mikinn fjárhagslegan feng ef hún hefði verið einráð í þessum efnum, svo ljóst sem reynsla síðustu styrjaldar stóð okkur fyrir augum með fangið fullt af óyggjandi sönnunum þess, að því lengra sem á leið, því dýrari urðu vörurnar eða verðminni peningarnir. En einmitt þessi reynsla hlaut að hvetja til þess að tefla á fremsta hlunn um notkun eignar eða lánstrausts til fyrstu og mestu nauðsynjavörukaupa, sem nokkur föng stóðu til.

Ég skal ekki rifja upp ágreiningsmálin að þessu sinni og hvorki stefna frekari gagnrýni að einstökum flokkum né stjórnarflokkunum í heild. Hitt staðhæfi ég, að jafnvel þeir, sem illa una úrlausn innanlandsmálanna, urðu að viðurkenna, að utan og ofan við þau deilumál hafa að höndum borið óvænt viðfangsefni, sem kallað hafa á skjótar og öruggar ákvarðanir. Og það þori ég að segja, að sá friður, sem skapazt hafi við myndun þjóðstjórnarinnar, dagleg samvinna og sameiginleg ábyrgð andstæðra flokka á margvíslegum ákvörðunum, hafi átt mjög mikinn þátt í, að okkur hefur tekizt að rata furðu rétta leið út úr einmitt þeim vandanum, sem mest hefur á oltið, og hefur þó oft bæði komið á óvænt og enga bið þolað.

Ákvarðanir Alþingis í sjálfstæðismálinu út af hertöku Danmerkur, hernám Íslands og hervernd Íslands, allt eru þetta viðburðir til jafns við það, er merkast verður talið í sögu þjóðarinnar að fornu og nýju. Allt hefur þetta kallað á margar og mikilsvarðandi ákvarðanir af hendi þings og stjórnar, bæði leynt og ljóst. En um það, er mestu varðar; óvæntast bar að og menn bezt þekkja til, þ.e.a.s. ákvarðanirnar í sjálfstæðismálunum og ákvarðanir ríkisstj. varðandi herverndina, hygg ég, að þeir, er til þekkja, utan þings og innan, viðurkenni, að vel og skörulega, en þó hóflega, hafi verið ráðið fram úr vandanum, og gafst þó lítill tími til íhugunar.

Lokaþættirnir í þessu samstarfi eru mörgum í fersku minni. Á síðasta sumri tók að hrikta í. Á haustþinginu í fyrra sagði forsrh. af sér út af ágreiningnum um dýrtíðarmálin. Tilraunir til myndunar nýrrar stjórnar stóðu lengi yfir. Sjálfstfl. tók þegar þá afstöðu að neita að mynda flokksstjórn eða taka þátt í né styðja aðra stjórn en þá, er studd vær í af þeim þrem flokkum, er að samstarfinu höfðu staðið. Þeim leik lauk með því að forsrh. myndaði nýja stjórn, sömu flokka, sömu manna með sömu verkaskiptingu, og þótti enginn hafa af vaxið.

Eftir áramótin, þegar hin svo kallaða frjálsa leið í dýrtíðarmálunum hafði brugðizt, taldi Sjálfstfl. þeim flokkum, er að henni stóðu, skylt að beita lagavaldi til að ná settu marki, enda var það í beinu framhaldi af stefnu flokksins frá öndverðu. Alþfl. neitaði að una því, sagði slitið samvinnunni, tók ráðh. sinn úr stjórninni og hóf hvatskeytlega og ekki góðgjarna sókn. Sjálfstfl. og Framsfl. héldu samstarfinu áfram. Með festu tókst að hafa það gagn af kaupfestingarákvæðum gerðardómsl. sem frjálsu leiðinni var ætlað að ná. Gerðardómsl. munu vera staðfest af Alþingi og gerðardómurinn halda áfram starfi sínu, nema því aðeins að Framsfl. vegi aftan að honum, t.d. með því að taka fulltrúa sinn úr dómnum. Og heyri ég nú, að það vilji hann raunar gera, hafi tekið þaðan annan fulltrúa sinn, Vilhjálm Þór. Auk þessa báru þessir tveir flokkar gæfu til að semja sin á milli um ný skattalög, sem skapa möguleika fyrir atvinnurekstur þjóðarinnar til áframhaldandi þróunar að ófriðnum loknum, en áskilja þó því opinbera bróðurpartinn af stríðsgróðanum til sjóðsöfnunar í því skyni, að ríkið reynist fært um að verja almenning frá atvinnuleysi, þegar verðfall hefst og bráðabirgðasamdráttur færist í atvinnulífið, sem væntanlega verður nokkru eftir ófriðarlok. En ekki þyngja lög þessi skatta á öllum almenningi, og er það verk Sjálfstæðisfl.

Veit ég að vísu, að þessi nýju skattalög, er Alþingi nú hefur samþykkt, ganga að margra dómi langt úr hófi fram um álögur á þann atvinnurekstur, er alltaf er áhættusamur, og því verður að safna í kornhlöður, ef atvinna almennings á að heita sæmilega trygg. En þó hygg ég, að sjálfstæðismenn megi sæmilega við una, þegar á allt er litið, og tel ég l. þeim, er að þeim stóðu, til sóma og vott þess, að báðir flokkarnir vildu halda áfram samstarfi.

Ég rek þessa sögu ekki lengra. Það er komið sem komið er. Stjórnarsamvinna hefur með öllu rofnað. Sjálfstfl. hefur myndað hreina flokksstjórn, og Framsfl. sætti fyrsta færi til þess að bera fram vantraust það, er hér er til umr. og meðal annars er byggt á því, að stj. sé veik.

Það undrar sjálfsagt margan, að forsrh. hinnar nýju stjórnar skuli svara vantraustinu á þann hátt, er ég nú hef gert, með rökstuddum staðhæfingum um það, að það sé þjóðstjórn eða að minnsta kosti sterkari stjórn en flokksstjórn getur orðið hér á landi, eins og nú er skipt flokkum, sem þjóðin nú þarfnast. En þetta er skoðun Sjálfstfl., sem ég sé enga ástæðu til að fara dult með. Þjóðstjórn, en ekki flokksstjórn, það er okkar vilji. Hitt vona ég, að okkur verði virt til vorkunnar; að verði á annað borð að notast við flokksstjórn, treystum við engum betur og heldur engum jafnvel og Sjálfstfl. til þess að fara með þá stjórn. Og það vil ég líka, að menn skilji, að þótt Sjálfstfl. þrái friðinn í þjóðfélaginu, frið og samstarf til úrlausnar þeim óvenjuvandasömu viðfangsefnum, sem framundan eru og þjóðin getur átt frelsi og frama undir, að vel leysist, þá mun Sjálfstfl. þess albúinn að berjast bæði vasklega og drengilega, bæði gegn andstæðingum í stjórnmálum og fyrir þeirra og annarra Íslendinga hagsmunum í öllum viðskiptum út á við.

Ég vík þá að því, hverja sök Sjálfstfl. eigi á því, að dregið hefur til samvínnuslita. Við þann flokk er vantraustið ber fram, þarf ég ekki að ræða um, hverjir valda, að þjóðstjórn rofnaði, er Alþfl. gekk úr stjórninni. Sé þar um sök Sjálfstfl. að ræða, er Framsfl. samsekur, því að báðir stóðu að þeirri löggjöf, er Alþfl. gerði að fráfararefni. En hvorugur mun vilja kannast við þá sök, heldur telja báðir, að Alþfl. hafi skotið sér undan ábyrgðinni, fyrst og fremst í pólitísku ávinningsskyni, ef til kosninga kæmi.

Reikningsskilin verða því um það, hvor það sé, Sjálfstfl. eða Framsfl., sem valdur er að því, að sundur dró með þeim flokkum, svo að samvinnan nú hefur rofnað.

Hv. þm. Str. var fljótur að reikna dæmið, enda var það fljótfærnislega gert, aðferðin skrýtin og útkoman skökk.

Skýrasta svarið fæst með því að athuga, hvað það er, sem samvinnuslitunum hefur valdið, en það er, svo sem alþjóð veit, breytingar þær á stjórnarskránni, sem nú liggja fyrir Alþingi og talið er víst, að samþykktar verði.

Ég vek athygli á því tvennu, að ef staðið hefði verið við þá ákvörðun um frestun kosninga, er Alþingi gerði í fyrra, kom að sjálfsögðu engin breyting á stjórnarskránni til greina, þar eð sérhver slík breyting krefst þingrofs og kosninga, og að ég hef seint og snemma á þessu þingi margtjáð hv. þm. Str., að ég væri reiðubúinn til þess að berjast fyrir því innan Sjálfstfl., að ákvörðun um kosningafrestun stæði óhögguð, og teldi mig, að minnsta kosti framan af þingi, hafa talsverðan meiri hluta flokksráðs Sjálfstfl. að baki mér um þann vilja. En var þá hægt að standa við ákvörðun Alþingis að fresta kosningum áfram til þess þannig að tryggja frið og samstarf. Við skulum athuga málið:

Í fyrra var lögð fyrir Alþingi svohljóðandi þáltill. um frestun almennra alþingiskosninga: „Vegna þess, að Ísland hefur verið hernumið af öðrum aðila styrjaldarinnar og lýst á hernaðarsvæði af hinum og vegna þess ástands, sem af þeim sökum hefur skapazt í landinu, og fullkominnar óvissu um það, sem í vændum kann að vera, telur Alþingi, að almennar kosningar geti ekki að svo komnu farið fram með eðlilegum hætti eða í samræmi við tilgang stjórnarskrárinnar og anda lýðræðisins.

Alþingi ákveður því, að almennum kosningum til Alþingis skuli frestað fyrst um sinn, þar til ástæður breytast þannig, að fært þyki að láta kosningar fara fram, þó ekki lengur en 4 ár, og framlengist núverandi kjörtímabil í samræmi við það.“

Þessi till. var borin fram af þeirri ríkisstj., sem hv. þm. Str. hafði for sæti í, og samþykkt með nær öllum greiddum atkvæðum.

Í ræðu þeirri, er hv. þm. Str. flutti þá fyrir þessari till., færði hann að því alveg óyggjandi rök, að svo brýn nauðsyn væri á frestun kosninga, að hann teldi óverjandi að láta þær fara fram þrátt fyrir ótvíæðan bókstaf 26. gr. stjórnarskrárinnar, sem fyrirskipaði, að kosningar skyldu fram fara.

Ég hirði ekki að greina öll þau rök, enda felst kjarni þeirra í till. sjálfri. Hernám styrjaldaraðila, yfirlýsing annars styrjaldaraðila um, að Ísland sé á hernaðarsvæði, það ástand, er af þessu hefur skapazt í landinu, og óvissan um, hvað í vændum kann að vera. Það er þetta, sem hv. þm. Str. taldi valda því, „að almennar kosningar geti ekki farið fram í samræmi við tilgang stjórnarskrárinnar og anda lýðræðisins“. Af þessum ástæðum lagði hann til að víkja til hliðar alveg skýlausum bókstaf stjórnarskrárinnar og fresta kosningum, og eigi aðeins á því sumri, heldur „þar til ástæður breytast þannig, að fært þyki að láta kosningar fara fram“.

Um allt þetta vorum við þá fullkomlega sammála.

En hvað hefur þá eiginlega breytzt frá því í fyrra? Hvað er það, sem því veldur, að meiri hluti Alþingis hefur ákveðið að rifta ákvörðun Alþingis frá í fyrra um frestun kosninga? Er Ísland enn hersetið af öðrum styrjaldaraðilann? Eða hefur herliðið horfið burt úr landinu? Er Ísland enn lýst á ófriðarsvæði af hinum styrjaldaraðilanum? Eða hefur hann afturkallað þá tilkynningu? Hefur kannske nýtt og betra ástand skapazt í landinu? Eða er það óbreytt eða jafnvel enn alvarlegra? Er óvissan um, hvað í vændum kann að vera, horfin? Eða grúfir hún kannske enn yfir, óráðnari og þungbúnari en nokkru sinni fyrr?

Að þessu spyr ég og bíð rólegur svars. Falli úrskurður á þá leið, að „ástæður séu óbreyttar“, þá hef ég orð hv. þm. Str. fyrir því, að „kosningar geti ekki farið fram í samræmi við tilgang stjórnarskrárinnar og anda lýðræðisins“, eða með öðrum orðum, að einnig frá formsins sjónarmiði sé það hreint neyðarúrræði að láta almennar alþingiskosningar fara fram og slíkar kosningar séu bein rifting þeirrar ákvörðunar Alþingis í fyrra að fresta kosningum, „þar til ástæður breytast“. Ef ekki var hægt að kjósa í fyrra, þá er ekki heldur hægt að kjósa nú. Sé hægt að kjósa nú, þá var líka hægt að kjósa í fyrra. Hafi verið hægt að kjósa í fyrra, þá var líka skylt að gera það.

Það eru rakalaus ósannindi hjá hv. þm. Str., að Sjálfstfl. hafi rofið samkomulagið um fre5tun kosninganna. Hv. þm. veit, að ég hef aldrei vikið hársbreidd frá því að halda fast við frestunina, og hann veit, að ég hafði flokkinn nær óskiptan að baki mér í þessu. Málið liggur því alveg augljóst fyrir:

Í fyrsta lagi: Það er stjórnarskrármálið, sem ágreiningnum hefur valdið.

Í öðru lagi: Ef staðið hefði verið við ákvörðun þá, er Alþingi tók í fyrra um frestun kosninga, var misklíðarefnið þar með úr sögunni.

Í þriðja lagi: Nærri stappar, að það sé með öllu ókleift fyrir sömu alþm., sem í fyrra ákváðu að fresta kosningum, að láta nú kosningar fram fara.

Þrátt fyrir þetta er það Framsfl., enda þótt hann berjist með oddi og egg gegn stjórnarskrárbreytingunni, en ekki Sjálfstfl., sem þó hefur lengi barizt fyrir stjórnarskrárbreytingunni, fyrst og fremst sem mannréttindamáli, en einnig sem hagsmunamáli flokksins, — það er Framsfl., en ekki Sjálfstfl., sem kosninganna hefur krafizt.

Svo mikils mat Sjálfstfl. friðinn, að til þess að tryggja hann, bauð hann að fresta framkvæmd þess málsins, er hann hvað lengst hefur barizt fyrir og á hvað mest undir, að fram nái að ganga. En Framsfl. aftur á móti sýnist ekki hafa sótzt meir eftir samstarfinu en svo, að hann vildi ekki bægja frá misklíðarefninu með því að standa við ákvörðun Alþingis um frestun kosninga, enda þótt öllum megi vera ljóst, að óhjákvæmileg afleiðing kosninga í sumar er ekki eingöngu friðslit og úlfúð, heldur og, að þjóðin mun áfellast meiri hluta Alþingis fyrir að leggja þann skilning í sjálfa stjórnarskrá landsins, er hann telur sér bezt henta á hverjum tíma.

Þetta eru hinar köldu staðreyndir málsins. Þær sanna, að sé núverandi stjórn of veik, sé framkvæmd þeirra mála í hættu, sem Framsfl. og Sjálfstfl. einhuga hafa unnið að, sé upplausn og óreiða í vændum, eins og hv. þm. Str. boðar, þá er ekki um að sakast við Sjálfstfl. Framsfl. verður að gera þær sakir upp við sig sjálfan og þá ef til vill þá aðra flokka, sem kosninga hafa krafizt og því valda, að úr því sem komið er, er ekkert fram undan annað en þingrof og kosningar.

Mér þykir líklegt, að hv. Framsfl. viðurkenni í rauninni flest, er ég nú hef sagt. En frá hans sjónarmiði eru þau höfuðrök enn órædd, ð Sjálfstfl. hefði borið að fella stjórnarskrármálið til þess að tryggja samvinnuna.

Ég játa, að tíminn til stjórnarskrárbreytingar er illa valinn. Ég skil, að Framsfl. þyki hart. a við sjálfstæðismenn skulum nota liðstyr þeirra manna, er að stjórnarskrármálinu standa, til þess að sækja rétt okkar í hendur framsóknarmanna, einmitt nú, þegar Framsfl. og Sjálfstfl. unnu saman í góðri einingu að þörfum málefnum og þegar hann hafði, eins og hv. þm. Str. réttilega tók fram, rökstudda ástæðu til að telja, að stjskrbreyt. mundi ekki ná fram að ganga.

En ég hef þá líka margboðið að standa við ákvörðun Alþingis um frestun kosninga og þannig að slá deiluefninu á frest.

Ég vík þá að sjálfri breytingunni á kjördæmamálinu, en mun aðeins stikla á því stærsta, enda mun þeirri hlið málsins gerð betri skil af hálfu Sjálfstfl., áður en þessum umr. lýkur.

Ef ég tek umbúðirnar utan af ummælum hv. þm. Str., verður kjarni ádeilu hans sá, að kjördæmabreytingin kalli á tvennar kosningar og sé auk þess hreint skrípi og vanskapnaður, eins og hann orðaði það.

„Hvers vegna er þjóðinni varpað út í langvinna kosningabaráttu og stjórnleysi, þegar nauðsynlegt er að beina öllum kröftum hennar að lausn hinna miklu vandamála líðandi stundar?“

Þannig spyrja nú fulltrúar þess flokks, sem í marga mánuði hafði krafizt kosninga.

Ég spyr aftur á móti: Hvernig getur sá, er heimtað hefur kosningar, kosningar, sem rjúfa friðinn, kosningar, sem varpa þeim skugga á Alþingi, að það hafi annað hvort brotið stjórnskipunarlög landsins í fyrra eða ætli að gera. það í sumar, hvernig geta þeir fyllzt heilagri vandlætingu yfir því, að kosið sé tvisvar í stað einu sinni? Þeir vita sjálfir, að allt hjal um friðarkosningar er markleysa ein. Við erum þannig skapi farnir, Íslendingar, metnaður okkar g kapp er slíkt, að þegar á hólminn er komið, faðmast menn ekki, heldur berjast þeir.

Nei, sannleikurinn er, að sé hægt og rétt að kjósa einu sinni, má að sönnu rökstyðja, að ekki sé jafnauðvelt að kjósa tvisvar, vegna þess, að baráttan stendur lengur. En það getur enginn staðhæft, að auðvelt sé að kjósa einu sinni, en ókleift tvisvar, og því síður sem fyrri kosningarnar varpa að vissu leyti skugga á virðingu Alþingis, en það gera hinar síðari ekki.

„En,“ spyr hv. þm. Str., „úr því að viðurkennt er, að meiri ófriður stafi af tvennum kosningum heldur en, einum, hvers vegna geta þá ekki einar kosningar nægt á þessum alvörutímum?“

Þessu svara ég þannig: Framsfl. krafðist kosninga. Fyrir Alþingi lá frv. um breytingu á kjördæmaskipuninni. Fullvíst er, að enda þótt Sjálfstfl. og aðrir þeir flokkar, er að breytingunni standa, hefðu verið fáanlegir til að fresta samþykkt frv. í því skyni að forðast síðari kosningar gegn því, að Framsfl. semdi við þá um að samþykkja málið í því formi, er það nú liggur fyrir Alþingi, strax og henta þætti að ganga frá sjálfstæðismálinu, þá hefði Framsfl. verið með öllu ófáanlegur til þess. Er það raunar óskiljanleg afstaða þess flokks, er telur síðari kosningarnar stappa nærri þjóðarógæfu, að hann skuli ekki vilja afstýra þeim, úr því að flokkurinn gæti gert það sér að skaðlausu og þó jafnvel meira en það, því að eins og komið er, verður þessari kjördæmabreytingu ekki afstýrt, og skyldi maður þá halda, að Framsfl. vildi fremur, að hún kæmi árinu síðar en fyrr.

Þegar á þetta er litið, verður ekki um deilt, að hvort sem hv. þm. Str. er ljúft eða leitt að bera ábyrgð, þá er það Framsfl., sem ber að minnsta kosti mesta ábyrgð á því öngþveiti, sem hv. þm. Str. kveið svo mjög, að í vændum væri, þar eð sá flokkur fyrst krefst kosninga, en mundi auk þess ófáanlegur til að gera sér meinlausar ráðstafanir til að fresta síðari kosningunum.

Hið eina, sem Framsfl. hefur boðið okkur, sem varðveita vildum friðinn, er, að við felldum fyrst kjördæmamálið, en gengjum síðan til kosninga, svo kallaðra friðarkosninga.

En eru menn vissir um, að kjósendur þeirra flokka, sem að kjördæmamálinu standa og margir hverjir hafa aðeins hálf mannréttindi á við framsóknarmenn, hefðu elskað þann frið? Ég dreg það í efa. Mér er nær að halda, að gremja þeirra og sársauki hefði enzt til ófriðar, langs og hatramms ófriðar, sem aldrei er hættulegri en einmitt á slíkum tímum, sem við nú lifum á.

Og hvað er það svo, sem hneykslinu veldur? Er þessi krafa um breytingu á kjördæmaskipun jafnhneykslanleg sem af er látið, eða er hún kannske sanngjörn og þar með sjálfsögð?

Stjórnarskrá Íslands gerir ráð fyrir, að hver flokkur „hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar.“

Heildarskýrslur um hlutfallið milli þingvalds og kjósendafjölda flokkanna verða sjálfsagt greindar í þessum ummælum. Til sönnunar því, hversu fjarri fer, að tekizt hafi að fullnægja þessari grundvallarreglu stjórnarskrárinnar með núverandi kjördæmaskipun, skýri ég aðeins frá því, að við síðustu alþingiskosningar fékk Framsfl. aðeins 14500 atkv., en 19 þm. kosna, en Sjálfstfl. fékk 24500 atkv., en aðeins 17 þm. Ég endurtek það, sem ég hef sagt, að 19 þm. kosnir með aðeins 14500 atkv., sem setjast eiga á bekk með 17 þm. með 24500 atkv., eru ekkert annað en 19 háðsmerki aftan við lýðræðishugsjónina, eins og hún er í framkvæmd á Íslandi.

Og það er náttúrlega ákaflega erfitt, að ekki sé meira sagt, að una kjördæmaskipan, sem sýnir þingið sem hreina skrípamynd af þjóðarviljanum. Ég nefni annað skýringardæmi frá síðustu kosningum. Á svæðinu frá Hrútafirði austur og suður um land að Hellisheiði fengu Sjálfstfl. og Bændafl. þá til samans 8100 atkv. og 2 þm. kosna. Framsfl. fékk 9700 atkv. á þessu svæði eða einum 1600 atkv. fleira en hinir flokkarnir, en hann fékk ekki 2 þm. kosna, heldur 16.

Nei, það hlýtur hver sanngjarn maður að viðurkenna, að við svo búið mátti ekki standa. Hitt er svo annað mál, að ég játa fúslega, að með rökum sé hægt að sýna fram á galla á þeirri skipan, sem nú á að lögfesta, þótt fjarri sé, að þeir séu nokkuð svipaðir því, sem framsóknarmenn vilja vera láta.

En auk þess spyr ég: Úr því að allir, — líka framsóknarmenn —, viðurkenna, að breyta þurfi kjördæmaskipuninni, hver vill þá kveða upp úr um, með hverjum hætti það verði gert, svo að öllum líki og ágallalaust sé?

Vill Framsfl. aðhyllast fyrri tillögu Alþfl., að landið sé allt eitt kjördæmi? Sjálfstfl. gengur aldrei að þeirri lausn.

Eða vill Framsfl., að kjördæmin séu fá en stór? Ég veit ekki um einn einasta þingmann Sjálfstfl., að undanteknum hv. 4. þm. Reykv., Sigurði Kristjánssyni, sem það vill, og Sjálfstfl. gengur aldrei að þeirri skipan.

Ég þykist vita, að hvorugt þetta samþykkti framsfl. heldur.

En hvað er það þá, sem hann vill?

Ég hef heyrt minnzt á að hafa aðeins einmenningskjördæmi og engin uppbótarþingsæti. En um það hefur þó engin till. verið lögð fram á Alþingi.

Ég sé kosti á þeirri skipan, en líka ókosti, meðal annars þann, að með þeim hætti getur stór flokkur meðal kjósenda orðið mjög lítill á þingi. Englendingar hafa aðallega einmenningskjördæmi. Ég man eftir kosningum þar eitthvað kringum 1925. Íhaldsflokkurinn fékk um 8 millj. atkv. og nær alla þingmennina, en frjálslyndi flokkurinn aðeins örfáa þingmenn, en þó 5 millj. atkv., — hvorki meira né minna en 5 milljónir atkvæða og nær enga þingmenn.

Slíkt yrði ekki vel séð hér á landi, og haldi Framsfl. fast við að koma á því skipulagi án uppbótarsæta, fær það aldrei byr hjá okkur.

Þá er eftir sú kjördæmaskipan, er nú á að lögleiða.

Hún hefur ágalla, það játa ég, en gagnrýni sú, sem Framsfl. hefur stefnt að henni, er markleysa ein, eins og sýnt mun, áður en þessum umr. lýkur.

Ég læt nægja að minnast á höfuðárás Framsfl., — höfuðfirru þeirra, að hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmi svipti sveitirnar valdi þeirra, en aðrir munu gera skil þeirri rökvillu, að hlutfallskosningar geri minni hluta kjósenda óeðlilega hátt undir höfði.

Tvenns konar rök eru fram færð, að sé hvor þingmaðurinn í tvímenningskjördæmi úr sínum flokknum, eins og leiða mun af hlutfallskosningum, verði báðir gagnslausir á þingi, því að hvor eyði annars atkvæði, og verði hlutfallskosning lögfest í þeim 6 tvímenningskjördæmum, sem nú eru til hér á landi, muni þeir 6 þingmenn, sem Sjálfstfl. fylla, verða verkfæri þeirra, er ekki geta unnt sveitum landsins .... ...... .... .

Þetta eru ekki rök, heldur fleipur og firrur. Í fyrsta lagi hefur Sjálfstfl. fram að þessu ýmist veitt lið eða haft forustu í sérhverju þrifamáli sveitanna. Í öðru lagi mundi vaxandi þingstyrkur sveitanna í fylkingu sjálfstæðismanna að sjálfsögðu tryggja enn betur þátttöku eða forustu Sjálfstfl. í baráttunni fyrir hagsmunamálum dreifbýlisins.

Í þriðja lagi ómerkjast þessi rök þegar af þeirri ástæðu, að ekkert er líklegra en Sjálfstfl. endurheimti fleiri eða færri þeirra þingsæta, er hann áður hefur haft í þessum 6 tvímenningskjördæmum, en í fjórða lagi skulum við svo spyrja reynsluna.

Hvað segja t.d. Skagfirðingar? Urðu þeir áhrifalausir á Alþingi, þegar Magnús Guðmundsson og Ólafur Briem fóru þar með umboð þeirra, og voru þeir þó hvor af sínum flokki?

Eða svo að um það sé spurt, sem framundan er. Halda Skagfirðingar, að hin blómlega og fagra byggð þeirra sykki í sjó eða legðist í auðn, ef þeir bræður, Pétur og Pálmi Hannessynir, færu með umboð þeirra á þingi?

Hvort þykir mönnum sennilegra, að bræðurnir legðust á eitt, hvor innan síns flokks, um að draga fram hagsmuni Skagafjarðar og dreifbýlisins yfirleitt eða að þeir mundu leggja skyldurnar alveg á hilluna, eingöngu af því, að þeir væru hvor af sínu pólitíska sauðahúsi?

Og svo að vikið sé að síðari staðhæfingunni. Halda menn, að Magnús Guðmundsson og Jón á Reynistað eða t.d. Jón Ólafsson og Pétur Magnússon hefðu reynzt bændum eitthvað þarfari á þingi, ef þeir hefðu verið í Framsfl.? Eða dirfist kannske einhver að bera á þá, að þeir hafi legið á liði sínu, er barizt var fyrir bændur landsins?

Nei, slík rök eru alls ekki frambærileg. Það er svo fjarri því, að hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmi veiki vald tvímenningskjördæmanna og þar með aðstöðu dreifbýlisins, að sanni nær væri að staðhæfa hið gagnstæða með þeim rökum, að tveir þingmenn sama kjördæmis stæðu betur að vígi að koma fram áhugamálum kjördæmisins, ef þeir væru hvor í sínum flokki, heldur en ef þeir væru báðir í sama flokki.

Allar þessar staðhæfingar hv. þm. Str. eru hreinar fjarstæður. Þó er sú mest og verst, að þessi kjördæmabreyting eigi að undirbúa það, sem koma á, sé aðeins þjófalykill að sveitavaldinu. Þm. þá, sem Sjálfstfl. vinni af Framsfl. með hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmi, eigi að nota til þess að afnema sveitakjördæmin, strax og henta þykir.

Ég trúi því ekki, að Framsfl. græði á slíkri málafærslu, beinlínis vegna þess að gagnsannanir liggja alveg á borðinu. Sannleikurinn er nefnilega sá, að jafnvel þeir, sem látið hafa blekkja sig um hug Sjálfstfl. gagnvart sveitunum, hljóta að sjá og skilja, að því fleiri þingmenn sem Sjálfstfl. fær kosna í sveitum landsins, því meiri trygging er fyrir því, að Sjálfstfl., — einnig vegna sjálfs sín hagsmuna —, hljóti að vera ófáanlegur til að breyta gildandi kjördæmaskipan. Um kjördæmamálið bæti ég svo aðeins þessu við:

Það er viðurkennt, að leiðrétta verður misrétti gildandi kjördæmaskipunar. Allar leiðir, sem stungið hefur verið upp á, eru með ágöllum, einnig sú, er nú á að lögfesta. En kosti hefur hún þá, að:

Í fyrsta lagi viðheldur hún hinni fornu kjördæmaskipun,

í öðru lagi er sveitavaldið óskert,

í þriðja lagi verður fjölgun þingmanna lítil eða engin,

í fjórða lagi eru miklar líkur til, að á þennan einfalda hátt verði fullnægt þeirri kröfu stjórnarskrárinnar, að þingið verði sem næst í hlutfalli við þjóðarviljann.

Ég hef nú sannað, að Sjálfstfl. hefur kosið frið og samvinnu. Ég hef sýnt fram á, að Framsfl. hefur ekki fengizt til að leggjast á þá sveif. Og þegar ég nú heyri, að áhyggjurnar um framtið þjóðarinnar leggjast á fyrrverandi starfsbróður minn eins og mara, þegar ég sé, hvernig kviðinn heltekur hann og vonleysið um, að voðanum verði afstýrt, lamar hann, þá rennur mér til rifja. Og þar sem. ég veit, að sjálfsásökunin er verst, vil ég, ef ske kynni, að ofan á þessi ósköp gægðist allt í einu upp í huga hans eitthvert hugboð um, að hann og hans flokkur ætti einhvern þátt í, hversu komið er, hugga hann með því að segja honum, að ég fyrir mitt leyti held ekki, að neinn voði stafi af því, þótt Framsfl. njóti ekki við um stundarsakir í stjórn landsins. Skattal. eru samþykkt. Gerðardómsl. verða samþykkt. Bæði l. verða framkvæmd. Og vonir standa til, að daglegar framkvæmdir muni sjálfstæðismenn annast engu síður en framsóknarmenn, og metur þó sá, er þetta mælir, starfshæfi og kostgæfni fyrrv. meðstarfsmanna að verðleikum.

Og loks vil ég gleðja hann með því að segja, að ég er alls ekki svo viss um, að stjórnin Sé jafnveik og hann óttast.

Aðalverkefni hennar eru þrjú.

Í fyrsta lagi ætlar hún að koma kjördæmamálinu í höfn. Í þeirri baráttu hefur hún að baki sér talsverðan meiri hluta Alþingis og áreiðanlega vilja nær þriggja fjórðu hluta þjóðarinnar.

Í öðru lagi ætlar stjórnin að reyna að verja þjóðina áföllum á þessum örlagaríku hættunnar tímum. Í því mun hún studd af öllum sönnum Íslendingum, þar á meðal hv. framsóknarmönnum engu síður en öðrum.

Og loks ætlar stjórnin að láta undirbúa síðasta skrefið í sjálfstæðismálinu, en að því stendur þjóðin óskipt.

Slík stjórn er kannske sterkari en ókunnugir halda við fyrstu yfirborðssýn, enda þótt ég fyrir mitt leyti kjósi heldur þjóðstjórn.

Ég vík svo að lokum að áskorun þeirri, sem hv. form. Framsfl. og hv. þm. Str. beindu áðan að þjóðinni um að efla nú Framsfl. og fá honum stöðvunarvald á sumarþinginu.

Það eru postular friðar og jafnvægis, mennirnir, sem stöðugt klifa á, að þeir séu ábyrgasti flokkur landsins, er þannig mæla.

Hvað eiga menn að halda?

Hvað er það, sem villir þessum reyndu stjórnmálamönnum svo gersamlega sýn?

Skilja þeir ekki, að ekkert meira óhapp getur hent Framsfl., tæplega nokkur verri pólitísk ógæfa þjóðina, heldur en að Framsfl. fengi stöðvunarvald á næsta þingi og notaði það?

Sjá þeir ekki, að sú kjördæmaskipun, sem þeir halda dauðahaldi í, gæti á engan hátt kveðið upp skýrari dauðadóm yfir sjálfri sér en með því móti að fá Framsfl. með kannske rúman 1/4 hluta atkvæða þjóðarinnar að baki sér, þingvald til þess að leggja að velli þær frelsiskröfur, sem 3 hlutar kjósenda á löglegan hátt höfðu krafizt?

Slíkt má ekki henda í lýðfrjálsu landi, en aldrei þó siður en nú.