19.05.1942
Sameinað þing: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (1297)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Héðinn Valdimarsson:

Mér eru ætlaðar rúml. 10 mínútur til þess að ræða þessa vantraustsyfirlýsingu og annað, sem þar fylgir, eftir miðnætti, þegar fæstir þeirra manna, sem ég vildi ná til, hafa tíma til þess að hlusta á. Það hefði verið auðvelt fyrir þjóðstjórnarflokkana, sem ráðið hafa reglunum fyrir þessum umr., að hafa tíma flokkanna 10 mínútum skemmri, þannig að útvarpinu yrði lokið kl. 11. En þetta hefur nú þótt heppilegast.

Með stjórnarskiptum þeim, sem nú hafa orðið, og þar af leiðandi þingrofi, brestur tvennt í senn, samkomulagið um kjördæmamálið, sem Ólafur Thors rak endahnútinn á við framsóknarmenn eftir samhliða baráttu Alþfl. og Sjálfstfl. 1931–1933 fyrir réttlátri kjördæmaskipun, og þjóðstjórnin svo nefnda, sem komst á vorið 1939, samábyrgðarstjórn flokkanna.

Framsókn hefur nú ráðið langmestu í landinu í nær 20 ár, og allan þann tíma hefur flokkurinn verið í algerðum minni hluta meðal kjósenda, haft 20%–25% atkvæða. Grundvöllur þessa ólýðræðislega ofurvalds minni hluta hefur eingöngu byggzt á úreltri kjördæmaskipun, sem upprunalega var miðuð við, að þjóðin byggði landið og ræki atvinnu sína á allt annan hátt en nú verður að vera. Framsókn var fyrst stofnuð sem frjálslyndur vinstri flokkur, runninn frá ungmennafélagshreyfingunni, og vildi ná jafnt til sveita sem sjávarsíðu, hafa föst vináttusambönd við samvinnufélög og verklýðssamtök. En raunasaga flokksins er sú, að aðalforingi hans og leiðtogi, Jónas Jónsson, leit svo á, að öruggast, skjótast og réttast væri að ná völdunum með því að hagnýta sér möguleika hinnar úreltu kjördæmaskipunar, ójöfnuð hennar, sérréttindi og gloppur, haga pólitík Framsóknar ekki eftir almennum þörfum þjóðarinnar, heldur eftir sérhagsmunum þeirra, sem gátu veitt flokknum skjótust völd, vinna þau með veitingu á sérréttindum fyrir sérstaka ráðamenn í fámennari kjördæmunum, boða hleypidóma og öfund gegn fólkinu í þéttbýlinu, siga saman landslýðnum í pólitíska flokka eftir búsetu: bændur gegn verkalýð og bæjarbúum, samvinnusamtök gegn verklýðssamtökum, slá á afturhaldsstrengina, telja þeim, sem bjuggu á sérréttindasvæðum stjórnarskrárinnar, trú um, að líf þeirra og velferð lægi við að halda sérréttindavaldi sínu. Í fáum orðum sagt: Framsókn yfirgaf lýðræðisstefnuna vegna valdastreitunnar og skemmdi með því flestöll stefnumál sín. Þaðan eru flestar pólitískar syndir Framsóknar runnar, afturhald flokksins og mannapólitík. Flokkurinn hefur að vísu náð meiri tökum í fámenninu, en ónýtt sjálfan sig sem almennan umbótaflokk í þjóðmálum. Þegar fyrir 1930 var stefna þessi runnin leiðtogunum — í merg og blóð. Mér munu seint gleymast tilraunir Jónasar Jónssonar, er Framsfl. og Alþfl. unnu saman, til að kenna okkur Jóni Baldvinssyni „Framsóknaraðferðina við sjóinn“, eins og Jónas nefndi það. Hann lagði hart að okkur, hvað eftir annað, til að fá 50–100 sjómenn úr Alþfl. í Reykjavík til að láta skrifa sig til heimilis á Seyðisfirði, er þeir væru í siglingum, og fá þar kosningarrétt, því að þessi atkv. gætu auðveldlega tryggt Alþfl. þingsætið á Seyðisfirði. Jónas Jónsson bar svo sem ekki neina sérstaka virðingu fyrir búsettu kjósendunum á Seyðisfirði og rétti fámennisins, ef hægt væri að lauma inn á þá á löglegan hátt rétt lituðum atkvæðum úr Reykjavík, en misnota réttindi kjördæmisins til þingmanns. Jónas Jónsson átti ómögulegt með að skilja þá heimsku okkar Jóns Baldvinssonar, að við vildum ekki beita slíkum pólítískum hrekkjabrögðum eða svikum, að við töldum verkefni flokks okkar að vinna almennt fylgi kjósenda í landinu á stefnumálum, en ekki stela völdunum með gloppum úreltrar kjördæmaskipunar.

Deilan um réttláta kjördæmaskipun 1931–33 stafaði frá öllu þessu ólýðræðislega valdabraski Framsóknarleiðtoganna. Með þá gerðri stjskrbreyt. var með uppbótarþingsætunum að vísu dregið úr ofurvaldi minnihlutaflokksins, sem miðaði stefnu sína eingöngu við valdastreitu og fámennustu kjördæmin, en þó sat Framsókn við sinn keip, tryggði sér og batt með stjórnarskrárákvæðum óbreytta kjördæmaskipun, tryggði sér sem minnihlutaflokki að verða samt ráðandi flokkurinn. Þessi valdapólitík Framsóknar umfram þjóðarhagsmuni hefur nú hefnt sín þannig, að allir flokkar í landinu hafa nú risið gegn þessu stjórnarfarsbundna flokkseinræði.

Því fer mjög fjarri, að ég líti svo á, að stjórnarskrárbreyt. sú, sem nú er á döfinni, sé nálæg því að fullnægja tímans og réttlætisins kröfum. Með fjölgun þm. Reykjavíkur úr 6 í 8, nýjum þm. fyrir Siglufjörð og hlutfallskosningum í tvímenningskjördæmum er aðeins stofnað til réttlátari skiptingar þingsæta milli þingflokkanna, eins og fylgi þeirra hefur fyrr verið, en kjördæmaskipun er að öðru leyti haldið óbreyttri og göllum hennar. Kosningarréttur hinna einstöku kjósenda er enn svo ójafn, að í fámennustu kjördæmunum eru þeir fimmfalt valdameiri um þingmannakosningu heldur en í þéttbýlinu. Uppbótarsætin bæta ekki þetta misrétti nema að litlu leyti, því að kjósandinn í hinum einstöku kjördæmum ræður ekki persónulega um kosningu né uppstillingu landslistans, heldur meira og minna ólýðræðislega kjörin flokksstjórn og hlutfallslegt fylgi flokka í öðrum kjördæmum. Raunverulega ætti Reykjavík ekki, þó að tekið sé tillit til uppbótarsæta, að fá 8 þm. kosna, heldur 14, Akureyri ekki 1, heldur 2 o.s.frv. Kjördæmaskipunin miðar enn að sundurgreiningu þjóðarinnar, en ekki sameiningu . Réttlát kjördæmaskipting á lýðfrjálsan hátt hlýtur að verða gerbreyting, annaðhvort þannig, að landið verði allt eitt kjördæmi eða, sem heppilegra mætti telja, 5–6 stór kjördæmi með hlatfallskosningum og breytilegri þingmannatölu eftir kjósendafjölda. Það mundi fyrst útrýma atkvæðauppkaupum flokka og annarri spillingu, sem einmiðuð er við sérréttindakjördæmi. Með þeirri breyt. einni, sem nú er á döfinni, getur spillingin enn haldizt, meira að segja með hlutfallskosningum í tvímenningskjördæmunum, breiðzt út úr Framsókn inn í Sjálfstfl. og fest þar rætur í afturhaldsarmi hans. Þrátt fyrir þetta tel ég þó stjskrbreyt. þessa í bili veða að gagni, vegna þess að hún brýtur rótgróið ofurvald eins stjórnmálaflokksins, sem byggist á kjördæmaskipuninni án hlutfallskosninga utan Reykjavíkur. Og í öðru lagi, og þar af leiðandi opnast möguleikar fyrir því, að íslenzk pólitík og stjórnarhættir geti runnið í nýjan, lýðfrjálsari og heilbrigðari farveg, ný, skapandi öfl í þjóðfélaginu fengið framrás. Hinu má þó enginn gleyma, að halda verður áfram baráttunni fyrir almennum mannréttindum í stjórnarskránni, jöfnum kosningarrétti og yfirráðum meiri hluta þjóðarinnar, lýðræðinu, þangað til það er tryggt með réttlátri kjördæmaskipun, þó að það verði að bíða í þetta sinn.

Stjórnarskiptin nýju hafa einnig orðið landhreinsun á annan hátt, með dauða hinnar svo nefndu þjóðstjórnar, þ.e.a.s. þeirrar samábyrgðar hinna pólitísku valdaklíkna, undir forustu Jónasar Jónssonar og Ólafs Thors, sem fyrst varð lítill vísir að við úrslit stjórnarskrármálsins 1933, en tók á sig opinberan svip í Kveldúlfsmálinu og staðfesti ráð sitt vorið 1939, er hin sáluga þjóðstjórn tók völdin og Jónas Jónsson og Ólafur Thors innbyrtu Stefán Jóhann Stefánsson ásamt leifunum af Alþýðuflokksleiðtogunum. Þessi þjóðstjórn taldist vera sett til að bjarga landinu, fyrst frá fjárhagsvoða, síðar frá stríðshættunni, og hafa forustu um sjálfstæðismálin. En stefna hennar hefur beinzt einhliða í afturhaldssama valdastreituátt, að standa þétt saman gegn verkalýðssamtökunum, launastétt og verzlunarstétt, halda niðri gagnrýni á starfsemi og samábyrgð þingflokkanna, halda við verzlun um embætta- og sérréttindaveitingar til einstakra fylgismanna, lögbinda almenna kauplækkun og tekjulækkun með gengisfellingu, sem var alóþörf, einungis gerð vegna stærstu útflytjendanna. Síðan, er fyrri lögbinding kaupsins hafði orðið að falla vegna stríðsvímunnar, þá með því að skipa með brbl. lögbindandi gerðardóm um kaupgjaldið og verkfallsbann í trássi við verklýðssamtökin og án þess að reyna samninga við þau, enda án þess að neinar viðunandi ráðstafanir væru gerðar um atvinnu- og félagsmál og fyrir framtíðina, en öðrum stéttum leyft að láta greipar sópa um stríðsgróðann. Sjálfstæðismálið, sem hefði átt að vera aðalmál þjóðarinnar, var gert að hornreku. Í stað þess frá fyrstu að kappkosta að slíta þegar í stað og að fullu og öllu sambandinu við Dani og konunginn og endurreisa íslenzka lýðveldið, hefur þjóðstjórnin sem slík ekkert gert í þeim málum, engan undirbúning haft með samningum við lýðræðisstórveldin Bretland o Bandaríkin, þó að tækifærin væru lögð og séu enn upp í hendurnar á ríkisstj. okkar með hinni sérstæðu aðstöðu Íslands í heimsstyrjöldinni. Það lítið, sem hæstv. Alþ. hefur gert í þessu, hefur mætt hinni mestu tregðu frá þjóðstjórninni svo nefndu, viljaleysi, kjarkleysi og úrræðaleysi. Það er kunnugt, að bæði Ólafur Thors og Hermann Jónasson hafa spyrnt fótum við fullu sjálfstæði, hafa staðið að því, að síðasta Alþ. sleit ekki böndin að fullu við konung og við Íslendingar búum nú við þá viðriðnisstjórnarháttu, að samkvæmt stjórnarskránni er Ísland konungsríki með Kristján sem konung og erfðarétti niðja hans, þó að mjög fáir Íslendingar vilji neitt annað en lýðveldi þegar í stað. Og ríkisstjóraembættið er látið fela þennan tvíveðrung. Slíkur skinnaleikur og hálfvelgja í sjálfstæðismálum þjóðarinnar rýrir virðingu hennar út á við, er stór vanzi fyrir ríkisstj. og Alþingi og ekki líkleg til að sameina þjóðina til átaka og fórna, gefa henni sjálfsvirðingu, vakningu og skilning á mikilvægi þjóðfrelsis og einstaklingsfrelsis og ábyrgðinni, sem þar af leiðir, einmitt þeim málum, sem heimsstyrjöldin snýst um og skiptir hugum manna og framtíðarvonum. Í stað þjóðlegrar og alþjóðlegrar vakningar Íslendinga hefur þessi vanrækslusynd þjóðstjórnarinnar valdið lömun á þjóðina og hugsunarhátt hennar á stríðstímunum, hert dansinn kringum gullkálfinn og dregið úr sjálfsmeðvitund og frelsishneigð þjóðarinnar. Því er þessi synd þjóðstjórnarinnar næg dauðasynd.

Það er deginum ljósara, að allt ráðabruggið um þjóðstjórnina var aðeins valdabrask fámennra valdaklíkna á þingi og nafnið eitt tálbeita. Í stað þess að sameina þjóðina hefur stjórnin svæft hana og þó gert sitt til að halda launastéttunum niðri. Ástæðan til þess, að fyrsta sprungan kom í þjóðstjórnina haustið 1941, var ekkert stórt þjóðmál, heldur einfalt valdatafi, hvort kjósa skyldi að nýju þm. í N: Ísafjarðarsýslu, en sú kosning gat raskað valdahlutföllunum í efri deild, ef Sjálfstfl. ynni sætið. Framsókn gat þá ekki lengur með Alþfl. einum ráðið í báðum deildum, ef skærist í odda. Þá fyrst fór Stefán Jóh. Stefánsson að fá áhuga fyrir rétti verklýðsfélaganna, sem hann hafði fyrr af þeim samið og reynt að kúga og kljúfa. Þá heimtaði Framsókn vorkosningar, sem þjóðstjórnin hafði fyrr talið þjóðhættulegar. Þá varð stríðsástandið og sjálfstæðismálið ekki lengur aðalatriði að yfirvarpi, heldur hverjir færu með forustuna, eins og hún líka hafði verið glæsileg. Þá fyrst fékk forusta Sjálfstfl. og Alþfl. áhuga fyrir breyt. stjórnarskrárinnar, og þó ekki aðalatriðum hennar, grundvellinum, sjálfstæðismálunum, heldur kjördæmaskipuninni einni, sem að vísu er þakkarvert í þessum grautarpotti sambræðslunnar samábyrgðarinnar á þingi um að sleppa ekki völdunum úr höndum klíknanna.

Framsóknarflokksmennirnir, sem mestan þátt áttu í þjóðstjórninni, þeir Jónas Jónsson, Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson, bera nú fram vantraustsyfirlýsingu á hina nýju stjórn g fyrri sálufélaga, Ólaf Thors, Jakob Möller og Magnús Jónsson, sem eingöngu er skipuð til þess að leysa stjórnarskrármálið á þann hátt, sem allir aðrir þm. en framsóknarmenn samþykkja, og láta fram fara nýjar kosningar. Stjórninni er ætlað að starfa fram á næsta þing og leysa ekki önnur pólitísk flokkamál, sem hjá verður komizt.

Ég hef ekki átt í neinum samningum, hvorki um þessa stjórnarskrárbreyt. né um stuðning né hlutleysi við hina nýju stjórn, enda er utan flokka og hef þá reynslu af flokkastarfseminni utan þings og innan síðustu árin, að ég vantreysti forustu allra flokkanna um lausn stærstu vandamála þjóðarinnar á þessum tímum. Ég hef þegar lýst áliti mínu á pólitík forsætisráðherrans núverandi, Ólafs Thors, og tel það vera algert taktleysi af Sjálfstfl. að tefla honum fram sem forsrh. við lausn stjórnarskrármálsins eftir forsögu hans, sambræðslu við Jónas Jónsson, og nú síðast, að kunnugt er, að einmitt Ólafur Thors stóð innan flokks síns lengst í gegn stjórnarskrárbreyt. og slitum sambandsins við Framsókn, þjóðstjórnarinnar svo nefndu. Sjálfstæðismenn hefðu ekki getað valið mann líklegri en hann til að bregðast á elleftu stundu í þessu sameiginlega máli. Pólitískt réttast hefði vitanlega verið, að hann hefði fallið í þjóðstjórnargröfina, ásamt Jónasi Jónssyni, samherja sínum síðustu árin, og beðið upprisu sinnar þar, en nýir menn tekið við. En Sjálfstfl. sem heild verður að sjálfsögðu að bera ábyrgðina á meðlimum ráðuneytis síns, mannvalinu. Og um aðra leið er ekki að ræða til að leysa þessi mál en stjórnarmyndun Sjálfstfl. Það væri brot á allri lýðræðisstefnu að hjálpa Framsókn á nokkurn hátt með atkvæði eða hlutleysi við vantrautsyfirlýsingu.

Ég vil að lokum brýna fyrir þeim, sem mál mitt heyra, að í hönd farandi kosningar hljóta að snúast aðallega um stjórnarskrármálið og þjóðstjórnina sálugu, að áður en þingi verður slitið, mun þál. verða gerð um afgreiðslu lýðveldismálsins á næsta þingi, en að aftur verður kosið að því loknu um það mál. Enginn kjósandi, sem vill hreinsa til í stjórnmálunum, skapa meira jafnrétti og eðlilegri málefnaskipun flokkanna, má því láta atkv. sitt falla svo, að til gagns komi, beint eða óbeint, því afturhaldi og flokkseinræði, sem berjast mun undir nafni Framsfl. undir forustu Jónasar Jónssonar. Fyrir hina fornu vinstri stefnu Framsóknar er það einnig heillavænlegast, að þingflokkur Framsóknar tapi fylgi og þingsætum á þeim málstað, sem hann stendur nú. — Góða nótt.