21.05.1942
Sameinað þing: 19. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í D-deild Alþingistíðinda. (1311)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Stefán Stefánsson:

Herra forseti! Í ræðu minni s.l. þriðjudagskvöld sýndi ég fram á með tölum kjósenda frá 1937, að breytingar þær á stjórnskipunarlögum Íslands, er liggja fyrir Alþingi og samþykktar hafa verið í neðri deild, miðuðu fyrst og fremst að því að jafna aðstöðu þeirra, er í dreifbýlinu búa, til áhrifa á Alþingi.

Ég gat þess, að í öllum tvímenningskjördæmum, 6 að tölu, hefði við síðustu alþingiskosningar útkoman orðið þannig, að framsóknarmenn hefðu fengið 6736 atkv., en Sjálfstfl. og Bændafl. 5618, og að í þessum kjördæmum hefðu 12 framsóknarmenn náð kosningu, að lítill meiri hluti fengi allan réttinn, en sterkur minni hluti engan rétt.

Ég gat þess einnig, að væru tekin öll sveitakjördæmin austan Hrútafjarðar og Hellisheiðar, 12 að tölu, þá væri atkvæðamagn þar 9709 framsóknarmenn, en 8121 Sjálfstfl. og Bændafl.-menn. Hefði Framsfl. fengið 16 þm., en Sjálfstfl. og Bændafl. 2 þm. Að Framsfl. hefði á þessu svæði 607 atkvæði á þm., en Sjálfstfl. og Bændafi. 4060 atkv. á þm.

Í öllum sveitakjördæmum, 21 að tölu, fengu framsóknarmenn 12915 atkvæði og 19 þm., en Sjálfstfl. og Bændafl. fengu 13934 atkv. í sömu kjördæmum og 6 þm., eða 2322 atkv. á þm. Kjósendur Framsfl. hafa því í öllum sveitakjördæmum nærri 31/2 sinnum meiri rétt en Sjálfsfl.- og Bændafl.-kjósendur, áður en uppbótarsætin koma til.

Uppbótarþm. úr sveitakjördæmum fyrir Sjálfstfl. og Bændafl. voru 5. Þá þeir eru teknir með, eru í sveitakjördæmum 1266 atkv. á hvern þm. Sjálfstfl. og Bændafl. Hafa því kjósendur þessara flokka helmingi minni rétt til þingmannskjörs, sé aðeins miðað við sveitakjördæmin. Að gera þannig upp á milli manna, sem í dreifbýlinu búa, nær engri átt og er ekki bót mælandi. Hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum eru því fyrst og fremst til þess að jafna aðstöðu þeirra, er í dreifbýlinu búa.

Framsóknarmenn hafa hvorki fyrr né síðar í þessum umr. fært fram gegn þessu ranglæti nokkur frambærileg rök. En gera má ráð fyrir, að framsóknarmenn telji, að þeir einir séu hæfir til þess að vera verndarar og málsvarar dreifbýlisins, eða að þeir einir séu sveitamenn. En fyrirsláttur einn er, að svo sé. Maður skyldi nú halda, að þessi flokkur fremur öllum öðrum veldi menn úr dreifbýlinu til þingsetu, en lítum við á þingmannalistann, er fjarri því, að svo sé. Meir en helmingur þm. flokksins er búsettur utan kjördæmis, eða 10 af 19, og flestir í Reykjavík, og aðeins 5 af hópnum eru bændur. Þætti mér eigi ólíklegt, að mörgum kjósanda flokksins þætti eigi óviðeigandi, að gerð yrði einhver breyting hér á.

Ég mun nú færa nokkur rök að því, að því fari mjög fjarri, að framsóknarmenn séu þeir forsvarsmenn dreifbýlisins, sem þeir vilja vera láta, og mun ég þá sérstaklega ræða afstöðu þeirra til okkar bænda.

Okkur mun öllum geta komið saman um það, að höfuðatvinnuvegir vorir verði að vera traustir, að þeir séu þeir hornsteinar, sem öll þjóðfélagsbyggingin hvíli á. Séu þeir ekki traustir, riði yfirbyggingin og geti jafnvel fallið. Undirstaða alls atvinnulífs og framleiðslu er sjálfstæði framleiðendanna, eigi aðeins efnalegt sjálfstæði, heldur einnig andlegt sjálfstæði. Skorti á um þessa hluti, er atvinnulífið í sífelldri hættu. Þeir einstaklingar eða flokkar, er gera nokkuð, er miðar að því að veikja eða drepa þetta sjálfstæði eða koma á einn eða annan hátt í veg fyrir, að það eflist og dafni, þeir hafa eigi þann skilning á atvinnulífinu og framleiðslunni, sem vera ætti og vera þyrfti.

Hvert er nú viðhorf Framsfl.? Að því er einn fyrrv. þm. flokksins hefur sagt í blaðagrein, þá er endanlegt takmark þess flokks hið sama og Alþýðufl. og Kommfl., og mun þar vera átt við ríkisrekstur á allri framleiðslu og þjóðnýtingu.

Hér mun nú skjóta nokkuð skökku við það, sem ætlað var, þá flokkurinn var stofnaður. Hann skyldi verða flokkur bænda, þeirra sverð og skjöldur á öllum sviðum. Honum var ætlað að berjast fyrir efnalegu og andlegu sjálfstæði bóndans. Hversu hefur nú flokkurinn gætt þessa mikla og veglega hlutverks?

Ráðamenn flokksins munu vafalaust telja sig hafa verið hina góðu hirða, og bændur þeir, er fylgja flokknum að málum, munu staðfesta, að svo hafi verið, því að hvað sem þeirra sannfæringu líður, er búið að segja þeim og þeir jafnvel trúa því, að þeirra hlutverk sé eigi annað en vera góðu börnin, greiða atkv. og hlýða. Ýmsir ráðamenn Framsfl. hafa á undanförnum árum verið mjög ginnkeyptir fyrir kenningu kommúnista. Þetta daður hefur brjálað hugi þeirra svo mjög, að sá þykir jafnvel mestur, er mest hefur tileinkað sér af þessum kommúnistakenningum og mestan dug hefur sýnt í að útbreiða þær meðal bænda. Þannig hafa þessir menn smátt og smátt sáð alls konar illgresi, sem erfitt mun að uppræta.

Stjórn Framsfl. og Alþýðufl. hefur á undanförnum árum á ýmsan hátt takmarkað frelsi til athafna og framkvæmda, og framtakið hefur þannig verið lamað. Hefur þeirrar stefnu mjög gætt í lagasetningu undanfarinna ára.

Vegna þessa höfðu margir lagt árar í bát, horfið frá eigin atvinnu og rekstri og kappkostað að gerast starfsmenn annarra, einkum þess opinbera. Hefur því jafnvel verið haldið að mönnum, að svo ætti það að vera, enda væri það þjóðfélaginu hollast og brotaminnst fyrir þegnana. Með því þannig að takmarka og veikja einkaframtakið, er heilbrigðum metnaði og sjálfsvirðingu þegnanna oft misboðið, og verður slíkt til að kippa traustustu stoðunum undan sjálfstæði einstaklinganna og þá jafnframt þjóðfélagsins.

Kröfur okkar bænda á undanförnum árum, kröfur, sem hafa miðað að því að efla metnað og sjálfstraust stéttarinnar, hafa verið lítilsvirtar. Sem dæmi mætti nefna:

1. Kröfur bænda um að fá viðurkennt með löggjöf og í framkvæmd rétt framleiðandans til tilkostnaðarverðs.

2. Kröfur bænda um að fá öll umráð og stjórn afurðasölumála landbúnaðarins í sínar hendur.

3. Kröfur bænda um, að efld verði sjálfsábúð á jörðum.

4. Kröfur bænda um, að afnumin verði 17. gr. jarðræktarlaganna.

5. Kröfur bænda um, að eigi verði að því unnið með löggjöf eða á annan hátt að neyða bændur til einyrkjalúskapar.

Hér hefur aðeins verið drepið á nokkur mál okkar bænda, en svo mætti lengi — telja. Allar þessar kröfur hafa verið lítilsvirtar og eru enn af Framsfl. Allt frá stofnun Bændafl. hefur hann barizt fyrir því, að bændur fengju greitt tilkostnaðarverð fyrir afurðir sínar. Í byrjun hlógu Framsóknarmenn að þessum tillögum, töldu, að ómögulegt væri að reikna út tilkostnað o.s.frv. Vegna krafna bænda hefur þó flokkurinn breytt um tón í þessum efnum. Hefur hann viðurkennt þessa kröfu réttmæta, enda þótt erfitt hafi verið að fá hana framkvæmda. En öllum má vera það ljóst, að á meðan hún er ekki viðurkennd í framkvæmd, vofir sífelld hætta yfir efnalegu sjálfstæði bóndans.

Það hlýtur að særa metnað bænda og misbjóða sjálfsvirðing þeirra, að þeim skuli hvorki vera treyst eða trúað fyrir stjórn afurðasölumálanna, jafnframt sem það dregur úr líkum fyrir því, að þeir fái greitt tilkostnaðarverð.

Það er margviðurkennt af ýmsum ráðamönnum Framsfl., m.a. Hermanni Jónassyni, fyrrv. landbrh., Jóni Árnasyni og Páli Zóphóníassyni, að verðlag á kjöti hafi um mörg undanfarin ár verið undir tilkostnaðarverði. Hafa menn þessir sagt í Tímanum 1940 meðal annars:

Hermann Jónasson segir, að framleiðendur hafi að undanförnu verið látnir selja vöru sina undir framleiðsluverði og fyrir það stórtapað.

Jón Árnason segir, að árið 1939 hafi verið gerð neyðarsætt f. h. bændanna um kjötverðið, þótt vitað væri, að það verð væri algerlega ófullnægjandi. Einnig játar sami maður, að kjötverðlagsnefnd hafi beitt óeðlilegu aðhaldi um kjötverðið undanfarin ár. Þá segir hann, að kjötverðið 1940 sé mikið of lágt, en segist samt eigi hafa viljað hafa það hærra, af því að neytendur ættu að vera ánægðir með verðið og það gæfi von um mikla sölu.

Páll Zóhpóníasson segir, að meiri hluti kjötverðlagsnefndar hafi ekki treyst sér til að hafa verðið hærra árið 1940, enda þótt þeir víssu, að ætti að sýna bændum fullt réttlæti gagnvart öðrum stéttum, þá þyrfti það að vera hærra.

Hvar var nú trúnaður þessara manna við dreifbýlið árið 1940 og undanfarandi ár? Halda þeir, að hægt sé að telja fólki í dreifbýlinu trú um, að þeim einum sé trúandi fyrir velferðarmálum þess þrátt fyrir játningu þeirra um, að kjötinu hafi verið haldið langt undir tilkostnaðarverði, bændur hafi verið látnir færa stórar fórnir fyrir aðrar stéttir og gerðar neyðarsættir um ósæmilega lágt kjötverð og að bændum hafi eigi verið sýnt réttlæti? Fyrir allt þetta hafa svo bændur tapað á framleiðslu sinni.

Slíkir menn eru eigi færir um að gæta hagsmuna bændanna í dreifbýlinu. Framleiðendur eiga að fá alla stjórn og umráð afurðasölumálanna í sínar heldur. Svo átti það einnig að vera samkv. hinum upphaflegu tillögum að afurðasölulögunum, en frumvörp um þau efni voru undirbúin af Bændaflokksmönnum.

Á það má benda, að t.d. í Noregi, þar sem þó jafnaðarmenn sitja einir í stjórn, hafa framleiðendur einir alla stjórn þessara mála. Í stað þess að efla sjálfsábúð á jörðum er því haldið að lændum af Framsfl. svo og Alþfl. og kommúnistum, að ríkiseign jarða sé æskilegust fyrir bændur og þjóðina í heild. Hafa eigi sjálfseignarbændur staðið framar öðrum bændum á liðnum tímum? Svo hefur það verið, og svo mun það verða í framtíðinni þrátt fyrir allt skrum um blessun leiguliðabúskapar. Að því ber miklu fremur að stefna, að hver bóndi eignist ábýli sitt. Slíkt er bezta tryggingin fyrir því, að dugnaður, framtak og manndómur íslenzkra bænda fái notið sín. Öllum hlýtur að standa hinn mesti stuggur af þeim boðskap vinstri flokkanna, að einyrkjabúskapur og ríkiseign sé eina framtíðartakmarkið, samvinnubyggðir sé það eina, sem koma eigi og koma skuli. Frá sjónarmiði kommúnista væri slíkt trúboð eigi óeðlilegt, en nokkuð er það undarlegt, að því er snertir Framsfl., því að þótt margir liðsmenn þar gangi með kommúnistískar hugsjónir, þá munu þar margar undantekningar.

Um 17. gr. jarðræktarlaganna er það að segja, að hún er komin inn í lögin til að auðvelda, að ríkið nái eignarrétti á jörðum bænda. Framsóknarmenn falla fram og tilbiðja þessa grein. Er það af því, að hún dregur úr ræktun landsins, eða af því, að hún undirstrikar, að jarðræktarstyrkurinn sé ölmusa til bænda, en eigi verðlaun til þeirra fyrir aukin þjóðfélagsverðmæti?

Með 17. gr. jarðræktarlaganna er sett þrælsmerki á íslenzka bændur. Nú er komið svo, að jafnvel formaður Búnaðarfélagsins, Bjarni Ásgeirsson, viðurkennir það, að greininni þurfi að breyta.

Um þau 5 atriði, er ég nú hef nefnt, eru framsóknarmenn á leiðum kommúnista. Það mega undur heita, að Framsfl. og ráðamenn hans skuli njóta fylgis jafnmargra bænda sem þeir gera, — flokkur, sem beint og óbeint með afstöðu sinni til mikilvægustu málefna bændastéttarinnar vinnur markvisst að því að draga úr kjarki og baráttuhug stéttarinnar og veikja metnað hennar og sjálfsvirðingu. Hefur þetta orðið til þess, að trú landsmanna á lífsmöguleika landbúnaðarins fer þverrandi og flóttinn úr sveitunum vaxandi.

Á búnaðarþingi 1941 var borin fram tillaga um, að bændur fengju í sínar hendur allar framkvæmdir afurðasölulánanna. Ætla mætti nú, að fulltrúar bændanna, sem sæti áttu á þinginu, fylgdu þessari till. óskiptir, en svo undarlega bregður við, að fulltrúar Framsfl. greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Hvernig ætla nú þessir menn að verja framkomu sína gagnvart bændunum? Umbjóðendur þeirra, bændurnir, eru till. fylgjandi. Mestar líkur til, að fulltrúarnir séu það einnig. En ef svo var, hvers vegna greiða þeir þá atkv. gegn sannfæringu sinni. Við hvað og hverja eru þeir hræddir?

Á þessu fyrirbrigði er aðeins ein skýring. Það eru handjárn Framsfl., sem hér eru að verki. Það er óttinn við ráðamenn flokksins. Til þess að þóknast þeim ganga fulltrúarnir gegn vilja bændanna, gegn sínum eigin vilja. Eigi er að undra, þótt hinir smærri spámenn séu ístöðulitlir, þegar oddvitar þeirra, fulltrúarnir á búnaðarþingi, gljúpna möglunarlaust eða möglunarlítið.

En hvað á að segja um ráðamenn Framsfl., er bera ábyrgð á gerðum flokksmanna sinna á búnaðarþingi? Hafa þeir í þessu máli og mörgum öðrum verið trúir bændum, trúir þeirra hagsmunum og velferðarmálum? Til þjónkunar eiginhagsmunum og pólitísku valdabrölti skirrast þeir eigi við að virða að vettugi hagsmuni og vilja bændanna, treystandi því, að bændurnir sætti sig við allt.

Hermann Jónasson, fyrrv. landbrh., hefur á skömmum tíma orðið uppvís að því á Alþingi að gera tvær tilraunir til að kúga þingmenn með hótunum. Þessar tilraunir hans hafa mistekizt. En úr því nú að þessi hæstv. fyrrv. landbrh. leyfir sér slíkt gegn hv. alþingismönnum, hvað halda menn þá eigi, að hann leyfi sér gagnvart fulltrúum Framsfl. á búnaðarþingi og öðrum ráðamönnum flokksins? Þar er beitt kúgun, og þar hefur Hermann Jónasson eigi orðið fyrir vonbrigðum, svo sem á Alþingi. Þessi kúgunarandi æðstu manna flokksins smitar frá sér. Smærri spámennirnir vilja eigi verða hinir minni. Vegna sinnar aðstöðu vilja þeir ráða yfir sál og sannfæringu bændanna.

Svo sem framsóknarmenn hér á Alþingi segjast vera hinir einu sveitamenn eða umboðsmenn þeirra, svo hvísla sumir kaupfélagsstjórar eða láta hvísla því að kjósendum, að framsóknarmenn séu hinir einu samvinnumenn. Ýmsum blekkingum er þannig haldið uppi af flokksmönnum Framsfl. Þar er skipulögð starfsemi á ferðinni: Kúgun og hótunum er beitt eftir því, sem föng standa til og við þykir eiga. Þeir, sem eigi eru nógu þægur ljár í þúfu, falla í ónáð, hrekjast eða jafnvel eru hraktir burtu. Andlegt sjálfstæði og sannfæring á þá engan rétt á sér. En einmitt þessi kúgunarhneigð hinna æðri gegn hinum lægri, slíkt getur eigi og á eigi að þrífast hjá lýðfrjálsum þjóðum. Slíkt á heima í löndum einræðis og ófrelsis.

Allt til þessa um mörg undanfarin ár hafa bændur átt mjög erfitt uppdráttar. Þeir hafa verið skuldum hlaðnir og hafa því áhyggjur margvíslegar, er þeim leggst til viðbótar hinu daglega erfiði. Þá svo er ástatt, eru menn ekki upplitsdjarfir. Menn leita eitt eða annað um aðstoð, sem þá stundum tekst, stundum ekki. Menn verða bældir og þreyttir.

En það hefur nú atvikazt svo, að enda þótt allt væri hér á glötunarbarmi árið 1939, atvinnuvegirnir færu hrörnandi og atvinnuleysi færi hér stórvaxandi, þá hefur nú skipt svo gersamlega um frá því, sem þá var, að segja mun mega, að atvinnuvegirnir blómgist og atvinnuleysi sé ekki til. Nú láta menn ekki kúgast til fylgis við eitt eða annað af efnalegu ósjálfstæði, ef menn á annað borð hafa nokkra sannfæringu. Nú eiga menn því að hrinda af sér hvers konar andlegri kúgun, fylgja sannfæringu sinni og skeyta engu um þá, er kúgun vilja beita. Einmitt vegna þessa mætti vænta þess, að kosningar þær, er nú fara í hönd, verði að ýmsu lærdómslíkar.

Nú mun óvíða vera hægt að reiða að mönnum skuldasvipuna, sem því miður mun oft hafa verið gert bæði fyrr og síðar. Nú ganga menn að kjörborðinu sjálfstæðari en áður, ekki vegna úrræða eða aðgerða ráðamanna Framsfl., heldur fyrir rás viðburðanna.

Þessi kúgunartilfinning hjáráðamönnum Framsfl., að allir þeirra fylgjendur skuli sitja og standa svo sem þeim bezt líkar, varð m.a. til þess, að flokkurinn klofnaði árið 1933. Nokkrir þáv. þingmenn flokksins, er eigi gátu þolað kúgunina, en gerðu kröfu til þess að fá að halda sannfæringu sinni, þeir voru reknir úr flokknum. Stofnuðu þeir síðan Bændaflokkinn undir forustu Tryggva Þórhallssonar. Flestir eða allir stofnendur flokksins höfðu, meðan þeir voru í Framsfl., verið taldir óvenju mikilhæfir menn, er öllum væru hæfari til starfa fyrir land sitt og þjóð. En eftir að þeir voru horfnir úr flokknum, kvað nokkuð við annan tón, þá var eigi til ærleg taug í þessum mönnum, þeim var jafnvel líkt við þræla og hin mestu varmenni í okkar sögum. Að sjálfsögðu voru þeir taldir fjandmenn sveitanna, eigi síður en þeir, er nú vilja jafna aðstöðu þeirra, er í dreifbýlinu búa, til áhrifa á Alþingi.

Er það virkilega svo, að pólitík Framsfl. sé bezt borgið með því að hefja menn upp til skýjanna, meðan þeir eru flokksmenn, svívirða þá takmarkalaust, gerist þeir pólitískir andstæðingar, en skrifa síðan um þá væmið lof, þá þeir eru fallnir frá? Hver pólitískur flokkur, er telur sér slíka framkomu vænlegasta til framdráttar, honum er eigi lífvænt.

Hið fyrsta pólitíska verk Hermanns Jónassonar, fyrrv. landbrh., var að dæma Magnús Guðmundsson. í tugthús án nokkurra saka, annað var það að fella frá kosningu í Strandasýslu Tryggva Þórhallsson, þann einlægasta og sannasta bændavin, er Ísland hefur ef til vill átt. Það má segja um þennan mann, að ill var hans fyrsta ganga, og má mikið vera, ef hin síðasta verður eigi á sama veg.

Tryggvi Þórhallsson, Jón í Stóradal, Lárus á Klaustri o.fl. hurfu úr Framsfl. vegna þess, að þeir vildu eigi byggja upp íslenzka bændapólitík á kúgun og harðstjórn, — slíka leið vildu þeir eigi fara til eflingar efnalegu og andlegu sjálfstæði bændanna. En það var leiðin, sem meiri hluti flokksins þá vildi fara og vill enn.

Þetta er mörgum að verða ljóst fyrst nú, og augu æskunnar í landinu eru að opnast fyrir því, að svo sé. Því verða þeir æ fleiri og fleiri hinir uppvaxandi menn og konur, er forðast Framsfl.

En enn þá koma þessir menn fram fyrir þjóðina, leitast við að telja henni trú um, að á þeim finnist hvorki blettur né hrukka, þeir séu hinir einu og sönnu föðurlandsvinir, allir aðrir séu fjandmenn og svíkarar við sitt föðurland, og þá fyrst og fremst dreifbýli landsins. Menn sjá í gegnum slíka hræsni og blekkingar. Öll þeirra framkoma í þessu máli miðast við það eitt að halda völdum og fá aðstöðu til aukinna valda. Þeir mega eigi til þess hugsa, að þeir, sem í dreifbýlinu búa, fái jafna aðstöðu til áhrifa á Alþingi Íslendinga. Hvers vegna? Vegna þess að þá eru þeirra pólitísku valda- og stórmennskudraumar fallnir fyrir ætternisstapa. Það er eigi umhyggja fyrir þjóðinni, sem ræður þeirra orðum og gerðum, heldur umhyggja fyrir þeim sjálfum.

Menn ættu að minnast þess, að við í hönd farandi kosningar er um það tvennt að ræða, hvort 3/4 hlutar landsmanna eigi að ráða málefnum þjóðarinnar, hvort jafna eigi aðstöðu þeirra, er í dreifbýlinu búa, til áhrifa á skipun Alþingis, eða hvort meira og minna óhlutvandir ofstopamenn eigi áframhaldandi að fá aðstöðu til hótana og kúgunar.

Ég gat þess áður, að hornsteinar hvers þjóðfélags væru sæmilega blómlegir atvinnuvegir, er byggðust á andlegu og efnalegu sjálfstæði framleiðenda. Við að blaða í kosningatölum undanfarandi kosninga er það mjög áberandi, hvað mönnum úr framleiðendastétt fer fækkandi á Alþingi.

Höfuðatvinnuvegi vora mun mega telja 3: Landbúnað, sjávarútveg og iðnað. Bændum á þingi fer nú stöðugt fækkandi. Má þar t.d. minna á, að árið 1923 eru kosnir 14 bændur á þing, árið 1927 16 bændur. Á þessum árum er tala þingmanna aðeins 36. Við kosningarnar 1937 er talið, að 9 bændur hafi verið kosnir á þing, og eru þá þingmenn 49.

Árið 1927 er því nær helmingur þingmanna bændur, eða 16 af 36, en árið 1937, eða 10 árum síðar, tæpur 1/5 hluti þingmanna, eða 9 af 49. Verði áframhald á þessari fækkun bænda á þingi, er sýnilegt, að hverju stefnir. Innan skamms hverfa þeir út úr þinginu.

Sjávarútvegsmenn eru nú 4 á þingi, hafa þeir verið 3 og 4 allt frá 1923. Árið 1916 var einn sjávarútvegsmaður kosinn á þing, en enginn 1919.

Einn iðnaðarmaður var kosinn á þing árið 1923 og einn árið 1934. Nú á enginn iðnaðaðmaður sæti á þingi. Ég hef hér þessar tölur til að vekja menn til umhugsunar um, að hverju stefnir, — að framleiðendur þjóðarinnar virðast vera að hverfa af Alþingi. Hversu heppilegt það er fyrir atvinnulífið og framleiðslu þjóðarinnar, það getur hver og einn dæmt um. En meira en undarlegt verður það að teljast, ef atvinnuvegirnir, sem líf og framtíð þessarar þjóðar byggist á, eiga fáa eða enga umboðsmenn úr sínum stéttum á Alþingi, að t.d. iðnaðarmenn skuli nú engan fulltrúa eiga þar, jafnfjölmenn stétt og þeir eru að verða í þessu landi, eða að sjávarútvegsmenn hafi þar aðeins 4 fulltrúa.

Þá menn fara að hugleiða þetta, getur naumast hjá því farið, að framleiðendur vakni til meðvitundar um, að hér stefnir eigi í rétta átt og að rík ástæða væri til breytinga.

Ég hef nú sýnt fram á:

1. Að samkvæmt núverandi stjórnskipunarlögum er mjög gengið á rétt þeirra í dreifbýli Íslands, er eigi fylgja Framsfl., að því er snertir skipan Alþingis.

2. Að með þeim breytingum á stjórnskipunarlögum Íslands, er nú liggja fyrir Alþingi, er mjög jafnað áhrifavald þeirra, er í dreifbýlinu búa.

3. Að Framsfl. er á engan hátt treystandi til að vera málsvari dreifbýlisins, sízt baendanna.

4. Að það er andstætt upphaflegu markmiði Framsfl., að íslenzk bændapólitík sé byggð upp á kúgun og harðstjórn, svo sem reyndin hefur orðið.

5. Að á efnalegu og andlegu sjálfstæði bændanna í landinu á að byggja samtök þeirra til sóknar og varnar fyrir landbúnaðinn og sveitir landsins.

Ég treysti því, að svo verði það í framtíðinni.