21.05.1942
Sameinað þing: 19. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (1313)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Finnur Jónsson:

Herra forseti! Háttvirtir kjósendur ! Þér hafið hlustað á þær rökræður, sem fram hafa farið um vantrauststill. þá, sen1 fyrir liggur. Þér hafið hlustað á hinn ofstopafulla málflutning gegn breytingu á kjördæmaskipuninni, sem fulltrúar Framsfl. hafa um hönd. Þeir segja, að hún leiði til innanlandsstyrjaldar, til upplausnar og til vandræða, og öll vandræði stafa af því, að Framsfl. er farinn úr ríkisstjórninni ! Í öllum andstöðuflokkum Framsfl. finnast, eftir þeirra ummælum, ekkert annað en úlfar, sem ætla að gleypa öll blessuð Framsóknarlömbin. Svo langt hefur verið gengið í því að hræða menn frá því að fylgja þeirri breyt. ú kjördæmaskipuninni, sem fyrir liggur, að gripið hefur verið til hinna furðulegustu öfga, til þess að hræða kjósendur í sveitum landsins. T.d. sagði hv. 1. þm. S.-M. í gærkvöldi tvisvar sinnum í ræðu sinni, að Alþfl. hefði heimtað, að bundið yrði verð landbúnaðarafurðanna og kaupgjald bænda þannig ákveðið með I. Þetta eru tilhæfulaus ósannindi og sýnir betur en annað, í hverjum vandræðum framsóknarmenn eru til að finna rök gegn breyt. á kjördæmaskipuninni.

Þrjú kvöld hafa kjósendur heyrt fulltrúi Sjálfstfl. og Framsfl. deila um það, hverjum það væri að kenna, að lagt væri út í kosningar. Hvor flokkurinn um sig hefur reynt að velta af sér ábyrgðinni og verið sérstaklega umhugað um það, rétt eins og það væri eitthvert ódæði, að nú ætti að kjósa til Alþingis, — ári seinna en lög stóðu til. Líklegt er, að ekki sé öllum ljóst, þrátt fyrir þessar deilur, hvers vegna hætt er við kosningafrestunina, sem þó var álitin nauðsyn á síðastl. ári. Enda mun sanni nær, að orsakirnar til þessa séu enn dýpri heldur en Sjálfst.- og Framsfl. hafa viljað láta koma í ljós. Þegar þjóðstjórnin var mynduð á árinu 1939, var því um leið lýst yfir af forsrh., að grundvöllur þjóðstjórnarinnar væri sá, að landinu yrði stjórnað af réttsýni í garð stétta landsins.

Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu hefur Alþfl. sífellt þurft að vera á varðbergi um það, að ekki yrði gengið á rétt verkalýðsins og launastéttanna. Hvað eftir annað gerðu hinir flokkarnir tilraunir til þess í stjórnarsamvinnunni, en Alþfl. fékk þessum árásum þó stöðugt afstýrt, þangað til 8. jan. í vetur, að gerðardómsl. voru sett. Stjórnarsamvinnan hófst, svo sem kunnugt er, með gengisbreytingarl. 1939, sem voru sett vegna þess, að útgerðin var komin á fallanda fót, atvinnuvegirnir virtust vera að komast í strand og almennt atvinnuleysi og hrun vofði yfir. Þau voru neyðarráðstöfun, gerð af ýtrustu nauðsyn. Og sem neyðarráðstöfun var með þeirri löggjöf gengið allfreklega á rétt launastéttanna, en þó ekki meira en útlit var fyrir, að þyrfti að gera vegna þess almenna hruns, sem vofði yfir. Hlutverk Alþfl. við þá samninga var að halda uppi rétti alþýðunnar, en bæði Sjálfstfl. og Framsfl. reyndu að pína niður dýrtíðarupplótina eftir mætti. Það situr því sízt á þeim flokkum að bregða Alþfl. um framkomu hans í þessu máli.

Síðan gengisl. voru sett, hefur ástandið í landinu gerbreytzt, þannig að atvinnuvegirnir, sem árið 1939 voru komnir á fallanda fót, hafa safnað stórfé, en launastéttirnar og verkamenn hafa hins vegar fengið kjör sín lítið meira bætt heldur en aukning atvinnunnar hefur gefið. Vegna þessarar miklu breytingar á högum atvinnuveganna ættu þeir nú að geta skilað því, sem almenningur lagði á sig þeirra vegna á árinu 1939. Þetta hefur hvorki Framsfl. né Sjálfstfl. viljað skilja, heldur hafa þeir ætlað að halda áfram á sömu braut, og neitað að skila aftur því, sem tekið var af launastéttunum og verkamönnum á árinu 1939. Þeir hafa neitað því að lagfæra gengið, og þeir hafa krafizt þess, að launastéttir og verkamenn færðu atvinnuvegunum enn meiri fórnir heldur en þá var gert, þrátt fyrir hið breytta ástand. Um þetta hefur á þessum árum staðið stöðug barátta innan ríkisstjórnarinnar milli Alþfl. annars vegar og Sjálfstfl og Framsfl. hins vegar. Alþfl. hefur á þessum árum borið fram hverja kröfuna af annarri um það, að eitthvað yrði gert til þess að halda dýrtíðinni niðri. En þær till., sem komið hafa frá hinum flokkunum, hafa ætíð verið á þá lund, að þeir væru að vísu til með að uppfylla þessar kröfur Alþfl., en þó aðeins á þann hátt, að enn væri gengið á rétt launastéttanna, en stríðsgróðinn látinn halda áfram að streyma í milljónatali til þeirra auðugustu. Þó að leitt sé til þess að vita, beitti Sjálfstfl. Framsfl. alla jafna fyrir sig, til þess að bera fram þessar ósanngjörnu kröfur innan ríkisstj. Og það var eins og foringjum framsfl., ekki ,sízt fyrrv. hæstv. viðskmrh., Eysteini Jónssyni, væri sérstaklega umhugað um að gangast fyrir þessu. Jafnan þegar minnzt var á dýrtíðarráðstafanir, kom hann með kröfur um, að verkamenn bæru þungann af væntanlegum dýrtíðarráðstöfunum. Vorið 1941 krafðist hann þess, að settur yrði á almennur launaskattur, sem koma átti hlutfallslega þyngst niður á lágum tekjum og miðlungstekjum. Sjálfstfl. var til með að fylgja þessari till. fram, ef Alþfl. gengist inn á hana. En Alþfl. neitaði, og var þá till. Eysteins Jónssonar snúið upp í sérstakan tekjuskatt, sem hann vildi, að lagður yrði á, eftir að búið væri að leggja á hinn almenna tekjuskatt samkv. tekjuskattsl. Skatt þann er að finna í dýrtíðarfrv. því, sem lagt var fram af hálfu viðskmrh. á vorþinginu 1941. Þá hafði Alþfl. beitt sér fyrir því, að tekjuskatturinn væri stórlega lækkaður á lágum tekjum og miðlungstekjum. En eftir að búið var að afgreiða þau lög og létta þannig skattabyrðinni af þeim mönnum, sem minna máttu sín, var eins og fulltrúar Framsfl. og Sjálfstfl. iðruðust eftir undanlátsseminni í garð þessara manna, og lögðu fulltrúar þessara flokka mikla áherzlu á að fá þessum óréttláta aukaskatti framfylgt.. Enn kom Alþfl., með því að fá till. Eysteins Jónssonar felldar úr frv., í veg fyrir þessa árás á launastéttirnar og millistéttirnar. Dýrtíðarfrv. svo nefnda var afgr. sem 1ög í byrjun júní 1941 með samkomulagi allra flokka. Bæði ráðh. Framsfl. og Sjálfstfl. töldu, að mikið væri hægt að gera til þess að stöðva dýrtíðina með þeim heimildarl., þó að ráðherrar Framsfl., sérstaklega Eysteinn Jónsson, létu í ljós óánægju sina yfir því, að ekki væri lagður sérstakur skattur á lágar tekjur og miðlungstekjur. Núv. hæstv. forsrh., Ólafur Thors, lét þess getið, að varla mundi vera hægt að stöðva dýrtíðina með löggjöfinni, en „mikið má þó gera, ef vill“, sagði hann.

Það er kunnugt, að þessi lög voru aldrei framkvæmd, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur frá ráðh. Alþfl. Og enn deila þeir um það vinirnir, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, hvorum þeirra þetta framkvæmdaleysi sé að kenna. Stríðsgróðinn hélt áfram að streyma í milljónatali í vasa einstakra manna. Genginu var haldið niðri, að því að sagt var, vegna samninga við Breta, sem eru þó vissulega fallnir úr gildi. Ráðh. Framsfl. sátu hjá og horfðu á dýrtíðina hækka úr 57 stigum í byrjun júní 1941 í 83 stig í árslok eða um l5%. Þeir mögluðu að vísu yfir því, að Sjálfstfl. framkvæmdi ekki dýrtíðarl. En forsrh., Hermann Jónasson, lét sér þó þetta allt saman lynda þangað til á haustþinginu 1941, að hann baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Ekki virtist það þó vera af því, að Framsfl. væru dánægður yfir stríðsgróða milljónamæringanna, heldur vegna hins, að ekki voru lagðar þungar byrðar á almenning til þess að standa straum af dýrtíðarráðstöfunum. Fyrir haustþingið lögðu þeir framsóknarmenn fram frv. um almenna bindingu á kaupgjaldi og bindingu á verði á landbúnaðarafurðum. Og það er kunnugt, að þeir vildu í rauninni ganga enn lengra heldur en gert var í frv. því, sem þeir lögðu fyrir Alþ., og sérstaklega virtist það vera hæstv. viðskmrh. áhugamál að banna það, að menn gætu fengið fulla dýrtíðaruppbót. Talsverður áhugi virtist vera ríkjandi hjá Sjálfstfl. fyrir því að fallast á þetta frv. Framsfl. En Alþfl. lýsti yfir því, að hann mundi fara úr ríkisstj., ef frv. næði fram að ganga. Var þá þegar augljóst, að það mundi leiða til kosninga, og með kosningar yfirvofandi heyktist Sjálfstfl. á því að fylgja þessu frv. Leiddi þetta til þess, að Hermann Jónasson sagði af sér. En þar sem engir fengust til þess að mynda stjórn, varð enn á ný að samkomulagi, að gamla stjórnin sæti við völd og dýrtíðarl. frá því í júní 1941 skyldu nú framkvæmd. Enn var það svikið. Ráðh. Sjálfstfl. framkvæmdu hvorugur það, sem þeim bar að gera samkvæmt dýrtíðarl. og samkvæmt margyfirlýstum vilja Alþ. Og ráðh. Framsfl. hegðuðu sér þannig, að landbrh. hækkaði verð á landbúnaðarafurðum von úr viti, en greiddi ekki á þær uppbætur, eins og þó var heimild til samkvæmt dýrtíðarl. Og viðskmrh. lét undir höfuð leggjast að herða á verðlagseftirlitinu, svo sem hann þó hafði heimild til. Eins og ég sagði í upphafi, deila þeir um það innbyrðis, Sjálfstfl. og Framsfl., hverjum svikin í dýrtíðar málunum sé um að kenna og hvers vegna kosningafrestunin hafi reynzt óframkvæmanleg. Ástæður fyrir hvoru tveggja er að finna í því, að ríkisstj. hefur verið óstarfhæf til framkvæmda, og hefur enginn lýst því betur en hv. fyrrv. viðskiptamrh. Hitt hefur honum skotizt yfir að skilja, að ríkisstjórn, sem er óstarfhæf, á engan rétt á að sitja við völd, og að Alþingi, sem ekki er fært um að skipa ríkisstjórn, verður að láta fara fram kosningar.

Eitthvert ljósasta dæmi um dugleysi Framsóknar er framkvæmdaleysi flokksins í verðlagseftirlitinu. Sú vesalmennska hefur m.a. leitt til þess, að frá ársbyrjun 1940 til 30. apríl 1942 hafa verið veitt í Reykjavík 142 verzlunarleyfi og 91 heildsöluleyfi, eftir því sem Jón Árnason forstj. segir í Tímanum 18. maí 1942. Viðskmrh. Framsóknar hefur þannig fætt af sér fleiri kaupmenn og fleiri heildsala en nokkur annar ráðh. á Íslandi.

Framsfl. keppir nú orðið við Sjálfstfl. um það, hvor þeirra geti verið íhaldssamari; þingmenn hans eru kosnir á þing sem vinstri menn, en hafa gersamlega svikið stefnu sína og umbjóðendur .

Framsfl. var stofnaður upphaflega af ýmsum hugsjónamönnum sem vinstri flokkur. „Með Framsfl. og samvinnustefnunni verður hægt að koma bændum eins langt í áttina til jafnaðarstefnunnar eins og hægt er að koma þeim,“, sagði Jónas Jónsson, þegar hann var ungur. Þessar gömlu hugsjónir, að hafa sterkan mannréttindaflokk í sveitunum, hafa alveg brugðizt. Og því miður er þetta að nokkru leyti því að kenna, að við Alþýðuflokksmenn létum undan kröfum framsóknarmanna á árinu 1934 og neituðum að taka þátt í ríkisstjórn, sem hann myndaði. Síðan hefur Jónas Jónsson unnið að því leynt og ljóst að breyta Framsfl. úr frjálslyndum vinstri flokki, eins og hann var á fyrstu árum hans, í íhaldssaman flokk, sem oft er jafnvel hægra megin við sjálft íhaldið. Á þessum árum og með þessu starfi hefur formanni Framsfl. tekizt að breyta hinu gamla kjörorði Tryggva Þórhallssonar, „allt er betra en íhaldið“, í þá staðreynd, að Framsfl., eins og hann starfar nú og honum er stjórnað, er ekkert letri en íhaldið. Þessi breyting hefur orðið á nokkuð mörgum árum og ekki hraðari heldur en það, að ýmsum er hún enn óljós. Forsprakkar Framsfl. sjá, eins og allir aðrir, veilurnar í Sjálfstfl., en þeir taka ekki eftir því, að Framsfl., síðan hann varð íhaldsflokkur, eins og Sjálfstfl., hefur nú orðið flesta sömu gallana og suma verri.

Á haustþinginu 1941, þegar Framsfl. var ljóst, að Sjálfstfl. fékkst ekki til þess að gera neitt, sem vit var í, í dýrtíðarmálunum, átti Framsfl. um það að velja að reyna fram til kosninga í vor að stofna vinstri stjórn, sem beitti sér fyrir því af alefli, að stríðsgróðinn yrði tekinn af milljónamæringunum og landinu stjórnað af réttlæti og með hag alþjóðar fyrir augum, eða þá að selja sig íhaldinu til fullnustu. Framsfl. valdi þann kostinn að vera áfram í stjórn, sem Sjálfstfl. gerði kraftlausa í þessum efnum, og siðan að grípa til þeirra hróplegu ranginda með Sjálfstfl. að setja gerðardómsl. Alþfl. tók þá þann kost að fara úr ríkisstj. Varnir þær, sem hann hafði haldið uppi fyrir þeim, sem minna máttu sín, dugðu ekki lengur gegn ofstopa hinna flokkanna, og þá var ekki um neitt annað að gera en að taka upp öfluga stjórnarandstöðu. Og sú stjórnarandstaða hefur þegar borið ávöxt. Gerðardómsl., sem eru kóróna á öllu ranglæti, sem framið hefur verið á seinni árum, hafa orðið höfundum þeirra að fótakefli. Þau urðu í rauninni fyrir öfluga andstöðu Alþfl. síðasti naglinn í líkkistu samstarfsins milli Sjálfst.- og Framsfl. Gerðardómsl. voru sett af fullu ranglæti, og ávöxtur þeirra hefur komið fyrr í ljós heldur en nokkurn varði. Þau eru nú brotin, fyrst og fremst á hverju heimili á landinu, sem þarf á vinnufólki eða kaupafólki að halda. Þau eru brotin af atvinnurekendum, er þurfa á verkafólki að halda. Og sjálft ríkisvaldið var flúið af grundvelli þeirra áður en þau náðu staðfestingu á Alþingi. Ég gæti nefnt þess ótal dæmi. Það var grundvallaratriði gerðardómsl. að koma í veg fyrir alla grunnkaupshækkun. En sjálft ríkisvaldið hefur neyðzt til að ganga á undan með það að brjóta niður þennan grundvöll gerðardómsl. Ríkisspítalarnir, Mjólkursamsalan, sem hv. þm. Rang. stjórnar, og sjúkrahúsin munu hafa verið með þeim fyrstu. En síðan hafa aðrar stofnanir konlið á eftir. Jafnvel vegamálastjórnin, sem annars hefur verið mjög íhaldssöm í kaupgreiðslum, er nú komin í það að greiða taxta verkamannafélaganna út um allar sveitir og meira að segja að yfirborga verkamönnum, eins og einstakir atvinnurekendur hafa orðið að gera. Framkvæmd gerðardómsl. er þannig, að þar, sem kaupgjaldið er hæst og mikil eftirspurn er eftir vinnuafli, dettur engum manni í hug að halda þau. Hins vegar eru margir staðir úti á landi, þar sem heldur lítið er að gera og lítil eftirspurn er eftir vinnuafli. Á þeim stöðum er grunnkaup jafnvel lægst, og þar eru gerðardómsl. einna helzt haldin, a.m.k. gagnvart þeim mönnum, sem ekki hafa aðstöðu til þess að fara í þéttbýlið til þess að leita sér atvinnu. Gerðardómsl. verða þannig í framkvæmdinni til þess beinlinis að halda niðri kaupi þeirra manna, sem minnsta hafa vinnu og lægst kaup hafa fyrir vinnu sina, þ.e.a.s. níðast á þeim, sem minnst mega sín í dreifbýlinu. Nokkur ákvæði gerðardómsl. um verðlag, samhljóða þeim, sem Alþfl. hefur hvað eftir annað lagt til, að framkvæmd yrðu, munu hafa orðið til einhverra bóta. En önnur ákvæði þeirra hafa reynzt einskis virði. T.d. hefur farið svo með taxta þann, sem ætlazt var til, að gerðardómurinn svonefndi setti um ýmis konar smíði o.þ.h., að þó að bráðum sé liðið hálft ár frá því að gerðardómurinn var settur, hefur ekki bólað á neinum tilraunum í þá átt að framkvæma þau. Ég get nefnt sem dæmi, að á árinu 1939 kostaði í akkorði 18 þús. kr. að byggja 2000 tonna Iýsisgeymi fyrir síldarverksmiðjur ríkisins. Nú á árinu 1942 hefur stjórn síldarverksmiðja ríkisins borizt tilboð um að byggja lýsisgeymi af sömu stærð fyrir 88 þús. kr. að viðbættum ýmsum hlunnindum, sem nema mundu 12 þús. kr., eða samtals 100 þús. kr. Hækkunin á framkvæmd þessa verks er því 540% frá því fyrir stríð, á sama tíma og grunnkaup járniðnaðarmanna að viðbættri dýrtíðaruppbót mun hafa hækkað um sem næst 100%.

Slík er framkvæmd gerðardómsl.

Önnur framkvæmd gerðardómsl. hefur farið eftir þessu. Verður því ekki annað séð en að hin hatramma árás hins sameinaða íhaldsvalds Framsóknar- og Sjálfstæðisfl. hafi þegar mistekizt, nema, eins og áður var sagt, á einstaka afskekktum stöðum í dreifbýlinu, þar sem lögin verka til þess að halda niðri launum þeirra, seni sízt mega verða fyrir slíku. Slíka ranglæti er þegar búið að hefna sín.

Engin stjórn getur setið til lengdar í lýðfrjálsu landi, án þess að stjórnað sé með réttlæti og í samræmi við vilja kjósenda. Ríkisstjórn Hermanns Jónassonar hefur fallið á því á ófriðartímum að ætla sér að sitja við völd á ódugnaði og óréttlæti. Enginn mun þó ætla, að stjórn sjálfstæðismanna muni verða réttlátari heldur en sú stjórn, sem áður sat. Hún mun hafa alla sömu gallana og samstjórn framsóknar- og sjálfstæðismanna. En enga verri. Þó hefur hún þann kost, að hún er stofnuð með þeim höfuðtilgangi að koma á réttlátari skipun á kjördæmamálinu, en á móti því berst Framsókn með þeirri ósvífni og rakaleysi, að furðu gegnir. Ég get, sem Alþýðuflokksmaður, ekki lengur gert neitt upp á milli íhaldsins í Framsfl. og íhaldsins í Sjálfstfl. nema að því leyti, að íhaldið í Sjálfstfl. vill fallast á réttlátari kjördæmaskipun eftir till. Alþfl. En ef við eigum að búa við íhald hér í landi, þá tel ég réttara, að það íhald sitji við völd fyrir atbeina kjósendanna og með þeirra vil ja bak við sig. Þeir hafa það þá í hendi sinni að skipta um, ef þeim líka r stjórnin illa. Eins og nú standa sakir, höfum við undanfarna mánuði búið við svarta íhaldsstjórn, sem framkvæmt hefur ranglætisverk á hættutímum, ekki fyrir atbeina eða vilja kjósendanna, heldur af því að Framsfl. með örfáa kjósendur á bak við sig, en tiltölulega marga þingmenn, hefur í krafti ranglátrar kjördæmaskiplinar haft verzlunaraðstöðu til þess að selja sig íhaldinu. Þessi sérréttindaaðstaða Framsfl. með fáa kjósendur og marga þingmenn hefur á undanförnum árum leitt til alls konar spillingar, sem kjósendur hafa ekki getað ráðið við. Fyrrv. forsrh., Hermann Jónasson, sagði á Alþingi nýlega, að kosningarrétturinn ætti ekki að vera pólitískur gjaldmiðill til þess að braska með á Alþingi. Ég undirstrika þessi orð hv. þm. Str. og bæti því við, að einmitt það ástand, sem nú ríkir um stjórn landsins, og þær breytingal, sem bornar hafa verið fram á kjördæmaskipun landsins, miða að því að koma í veg fyrir, að kosningarrétturinn sé misnotaður á þann hátt, sem Framsfl. hefur gert á undanförnum árum.

Hv. þm. Str. hefur einnig sagt, að breytingin á kjördæmaskipuninni, sem nú er gert ráð fyrir, stefni að því að ræna nokkurn hluta þjóðarinnar, sem vinnur að því að brauðfæða hana á hættustund, kosningarrétti. Nú er mér ekki kunnugt um, og ég held ekki, að neinn hafi haldið því fram, að það væri verið að flytja kosningarréttinn til úr sveitunum í bæina, heldur væri aðallega verið að jafna metin innan sveitanna sjálfra. Enginn neitar því, að bændur eigi að hafa sinn kosningarrétt. Þeir vinna líka efalaust að áhættusömum störfum. En manni verður á að spyrja: Eru þeirra störf áhættusamari heldur en bræðra þeirra, sem búa í kaupstöðunum undir árásarhættu, eða störf sjómanna, sein sigla á milli landa gegnum tundurduflasvæði, kafbáta og loftárásahættu? Eru störf bændanna það áhættumeiri heldur en annarra verkamanna landsins, og þá sérstaklega þeirra, sem ég minnist hér á, að sú áhætta réttlæti það, að þeir hafi tvöfaldan atkvæðisrétt á við aðra, sem hafa orðið að hrekjast úr sveitinni, annað hvort í kaupstaðina eða út á sjóinn?

Mönnum finnst e.t.v. um tómt mál að tala að minnast á hugsjónir í sambandi við þann blóðuga hildarleik, sem nú stendur yfir. En það eru tvö öfl að berjast í heiminum nú, öðrum meginin svörtustu einræðisöfl og hinum megin lýðræðisöfl. Ég læt mér ekki detta í hug, að þó að lýðræðisríkin vinni þetta stríð, þá sé það tryggt þar með, að lýðræði og jafnrétti verði jafnan við völd hér á Íslandi. En ég treysti því, að ef lýðræðisríkin sigra, þá höfum við möguleika fyrir því, ef við sjálfir viljum, að stjórna landinu af lýðræði og réttlæti.

Alþfl. hefur frá fyrstu tíð barizt fyrir almennum mannréttindum, og sérstaklega réttindum þeirra, sem eru minni máttar. Síðan Alþfl. var stofnaður árið 1916, hefur hann haft frumkvæði að öllum þeim mannréttindamálum, sem samþ. hafa verið á Alþ., og alltaf staðið í fylkingarbrjósti, hvort heldur hefur verið til að fá framkvæmd hagsmunamál almennings eða standa á móti óþurftarmálum, er borin hafa verið fram af andstæðingum. Þetta eru staðreyndir, sem ekki verður í móti mælt, og þegar þessa er gætt, gegnir furðu, að til skuli vera flokkur í landinu, sem kallar sig verkalýðsflokk, en virðist hafa það eina hlutverk að rífa niður Alþfl. og umbótastarf hans. Alþfl. hefur í baráttu sinni fyrir auknum mannréttindum oft notið samstarfs Framsfl., og þá jafnframt veitt Framsfl. styrk til þess að koma fram hagsmunamálum sveitanna, t.d. landbúnaðarafurðasölul., sem á sínum tíma var talið, eftir upplýsingum kunnugra manna, að hefðu hækkað afurðaverð baenda um 30%. Alþfl. þykir sárt til þess að vita, að þessi samvinna bænda og verkamanna, sem hefur orðið til mikils árangurs fyrir báða, skuli nú vera rofin. Alþfl. harmar það að þurfa að horfast í augu við þá staðreynd, að Framsfl. er nú orðinn að hatrömmum, íhaldssömum flokki, sem ekki er neinnar samvinnu af að vænta og gengur erinda stríðsgróðamanna til þess að reyna að halda völdum í landinu. En við þessu er ekkert að gera, eins og sakir standa, annað en það að breyta kjördæmaskipuninni í þá átt, að vilji kjósenda geti komið sem allra bezt í ljós. Sé þjóðin því samþykk að láta stjórna sér af óréttsýni og með hag nokkurra milljónamæringa fyrir augum, vilji hún láta einræði ríkja í stað lýðræðis, þá telur Alþfl. rétt, að það komi í ljós við kosningar. Vilji þjóðin hins vegar vera undir það búin að geta að ófriðnum loknum komið hér á almennum framförum með heill alþjóðar fyrir augum, byggðum á lýðræðisgrundvelli, verður eigi hjá því komizt að breyta kjördæmaskipuninni frá því, sem nú er. Að þessu vill Alþfl. vinna og eirir í því skyni þeirri stjórn, sem nú situr við völd, um nokkurt skeið, með það fyrir augum, að hún skoði það höfuðverkefni sitt að beita sér fyrir þeirri leiðréttingu á kjördæmaskipuninni, sem felst í till. Alþfl.

Varðandi þá vantrauststill., er hér liggur fyrir, legg ég til, að hún verði afgreidd með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Þar sem tillaga þessi er fram borin í þeim tilgangi að koma í veg fyrir, að breytingar þær á stjórnarskránni, er liggja fyrir Alþingi, geti náð fullnaðarafgreiðslu, en fyrir liggur yfirlýsing þingmeirihluta um fylgi við breytingarnar, telur Alþingi ástæðulaust að láta atkvæði ganga um tillöguna og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“