21.05.1942
Sameinað þing: 19. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í D-deild Alþingistíðinda. (1314)

139. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Einar Olgeirsson:

Hæstv. forseti! Heiðruðu tilheyrendur! Ég tala hér fyrir hönd Sósfl. Þjóðstjórnarliðið, sem ekki komst hjá því að viðurkenna Kommúnistaflokkinn sem þingflokk, hefur reynt að komast hjá því að viðurkenna Sósfl. sem þingflokk með því að láta forseta sameinaðs þings í tíð Finnagaldursins kveða upp úrskurð þess efnis, að hann yrði ekki skoðaður sem þingflokkur.

Tilgangur þessa úrskurðar var sá að hindra, að Sósfl. gæti krafizt útvarpsumr., meðan þjóðstjórnin stóð og þessum þokkalega tilgangi var náð. Þjóðstjórnin gat í krafti hans hindrað, að verk hennar væru rædd í útvarpi frá Alþingi, meðan verið var að fremja þau.

Nú er hins vegar þögnin loksins rofin, um leið og þjóðstjórnin sofnaði sjálf. Og eftir þær kosningar, sem nú fara í hönd, verður ekki komizt hjá því að viðurkenna Sósfl. sem þingflokk. Það hefur verið vígorð lýðræðisins frá því það varð til, að allir skyldu jafnir fyrir lögunum.

Það hefur verið grundvöllurinn í öllum mannréttindakröfum alþýðustéttanna í þjóðfélaginu á hendur aðli og öðrum sérréttindastéttum, að kosningarréttur skyldi vera almennur og jafn og hver einasti maður væri jafnrétthár, án tillits til eigna, tekna, búsetu eða annars. Með þrotlausri baráttu lýðræðisafla þjóðfélagsins gegn afturhaldinu hefur þessi krafa hafzt fram með flestum menningarþjóðum, þar til holskefla einræðisins nú sópaði sjálfu lýðræðinu burt í tugum landa.

En alþýða manna er ekki á því að gefast upp fyrir aðförum afturhaldsins, ætlar ekki að beygja sig fyrir réttindaráni þess og kúgun.

Það er nú barizt með vopnum víðast hvar í veröldinni fyrir lýðréttindum og jafnrétti manna gegn einræði og harðstjórn. Milljónir manna fórna lífi til þess að verja mannréttindin og sækja þau í hendur harðstjórnarinnar, þegar þeim hefur verið rænt. Alþýðan á Íslandi krefst líka mannréttinda. Hún krefst þess, að allir menn séu jafnir fyrir kosningal. Henni finnst órétturinn manna á milli, ójöfnuðurinn í þjóðfélaginu nógu mikill, þó að atkvæði allra manna sé a.m.k. jafnt, hvar sem þeir búa á landinu. Og alþýðan telur ekki eftir sér að ganga til kosninga til þess að ávinna sér þennan rétt, þótt valdhafar þeir, sem sýnt hafa sig í því að ræna kosningaréttinum af fólkinu, vilji í lengstu lög vera lausir við kosningaóttann, losna við kosningar, sökum hinnar vondu samvizku, sem þeir hafa gagnvart kjósendum. Þó er með því frv., sem hér liggur fyrir, aðeins stigið skref áfram á leiðinni til jafnréttis kjósendanna, en takmarkinu ekki náð. Ég hélt því fram í stjórnarskrárn. neðri deildar, að heppilegast mundi vera að hafa fá, t.d. 6 stór kjördæmi, og svo uppbótarþingsæti. Hins vegar var ekki hægt að fá meiri hl. á þingi með slíkum breyt. nú og því sjálfsagt að einbeita sér að því að koma fram því, sem fáanlegt var.

Framsfl. hefur sagt um þetta frv., að það væri verzlunarsamningur.

Margur heldur mig sig. Framsfl. er orðinn því svo vanur að verzla með hvert einasta mál og hvert einasta embætti, sem hann kemur nærri, að hann heldur auðsjáanlega, að það sé óhugsandi, að menn sameinist um nokkurt mál í öðru skyni en því að verzla. Annars ætti sá flokkur sem minnst að tala um verzlun í sambandi við kjördæmamálið. Það vill nú svo einkennilega til, að það hefur enginn flokkur reynt að verzla með það mál freklegar en Framsókn. Hún hefur nefnilega alltaf verið að reyna að kaupa það mál af sér, stinga réttlætinu svefnþorn með því að veita ýmsum þeim flokkum, sem með réttlætismálinu stóðu, fríðindi í bili til þess að fresta því. Þjóðin hefur ekki gleymt því enn, hvernig Framsókn svæfði hneykslismálin alræmdu út af Íslandsbanka o.fl. á árunum 1931–1933 til þess að reyna að fá íhaldið til að svæfa kjördæmamálið.

En Framsókn hefur ekki aðeins reynt að verzla þannig með kjördæmamálið í heild, hún hefur líka reynt að verzla með einstök kjördæmi. Í desemberbyrjun 1930 bauð þáv. formaður Framsfl. kommúnistaflokknum nýstofnuðum upp á það að gera Siglufjörð að sérstöku kjördæmi, ef kommúnistaflokkurinn vildi styðja frambjóðanda Alþfl. á Akureyri. Og hér í þinginu hefur það verið eitt aðaládeiluefni vissra Framsóknarþm. á hv. þm. V.- Ísf., Ásgeir Ásgeirsson, að hann skuli 1933 ekki hafa komið því á að hafa m.a. 7 þm. í Rvík. Framsfl. hefur því áður lýst sig með því að gera Siglufjörð að sérstöku kjördæmi og hafa fleiri en 6 þm. í Reykjavík. Það er því undarlegt, að hann skuli allt í einu berjast svona hatrammlega gegn þessum till. nú. Hvað svo hitt snertir að hafa hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmunum, þá miða þær að því að tryggja jafnrétti kjósendanna þar, og það er undarlega gerður lýðræðisflokkur dreifbýlisins, sem setur sig á móti slíku.

Ég skal svo bráðlega ræða hinar raunverulegu orsakir þessarar hatrömmu mótspyrnu Framsóknarleiðtoganna gegn þessu máli, en ætla áður að taka það fram, að Sósfl. mun halda áfram baráttu fyrir fullu jafnrétti kjósendanna í landinu, einnig eftir að þetta frv. hefur náð fram að ganga.

Mig furðar vægast sagt á því, hve ósvífið afturhaldið er ætið í þessu landi, að það skuli láta aðrar eins yfirlýsingar frá sér fara og fram hafa komið í sambandi við þetta mál, yfirlýsingu beinlinis gegn almennum og jöfnum kosningarrétti Íslendinga. Og þetta kemur frá mönnunum, sem í þrjú ár eru búnir að æpa sig hása um, að þeir séu hinir einu sönnu forverðir lýðræðisins. Þokkalegir lýðræðis- og jafnréttispostular að tarna !

1932 skrifaði Jón Þorláksson, þáv. form. Sjálfstfl., í Morgunbl. (10. jan.) um hlutfallskosningar og uppbótarsæti, að það væri „höfuðatriði í tillögum okkar, sem menn frá upphafi verða að gera sér ljóst til fulls, að tala uppbótarsætanna má ekki vera takmörkuð upp á við eða fyrir fram ákveðin, og heildartala þingmanna getur því ekki verið lögbundin eða fyrir fram ákveðin.“

Hann sýndi fram á, að slík takmörkun mundi „kollvarpa því, sem er aðaltilgangurinn með fyrirhugaðri breytingu á löggjöfinni um skipun Alþingis, réttu hlutfalli milli kjósendafjölda og þingsætafjölda. Við teljum ekki, að til máli geti komið að lögleiða kosningatilhögun, sem býður upp á þetta.“ Svona fórust Jóni Þorlákssyni orð þá, og hann þótti íhaldssamur. Hvað mega eftirmenn hans hugsa nú? Og hvað þýddi í rauninni þessi yfirlýsing hans fyrir hönd Sjálfstfl. fyrir 10 árum? Hún þýddi, að yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga, fylgjendur Sjálfstfl., Alþfl. og Kommúnistafl., kröfðust fulls jafnréttis þá þegar, en Framsfl. hefur bara tekizt að verzla málið af sér í trausti þeirra gömlu forréttinda, sem kjördæmaskipulagið veitir stórum, einhliða bændaflokk. Framsókn hefur tekizt að tefja jafnréttismál Íslendinga um alllangt skeið og mun reyna það enn, en það tekst ekki. Framsfl. þarf ekki að ætla sér þá dul að neita þrem fjórðu hlutum þjóðarinnar um jafnrétti lengur. Það hefur þegar tekizt allt of lengi.

En hvernig stendur á því, að afturhaldið í Framsókn skuli ærast svona gersamlega út af þessu máli?

Það stendur þannig á því, að verið er að eyðileggja í höndum afturhaldsins á Íslandi á tvennan hátt möguleika til þess að koma á einræði sínu, algerri yfirdrottnun nokkurra auðmanna og embættismanna yfir þjóðinni. Ég skal nú lýsa fyrirætlun Jónasar Jónssonar, hv. þm. S.-Þ., um, hvernig tryggja skyldi yfirráð samfylkingar hans og Ólafs Thors, hæstv. núv. forsrh., þingræðislega séð yfir þjóðinni.

Með núverandi kjördæmaskipun getur flokkur eða flokkasamsteypa, sem hefur einn fjórða hluta kjósenda að baki sér, náð hreinum meiri hluta þingsæta á Alþingi, eða 26 þingsætum, með því að vinna 19 sveitakjördæmi.

Slíkur minni hluti þjóðarinnar gæti drottnað yfir henni í krafti ranglætisins, gert þingræðið þannig að tómu yfirvarpi og grímu fyrir einræðið.

Hv. þm. S.-Þ. lýsti því yfir í Tímanum, og hv. þm. Str. endurtók þá yfirlýsingu hér á Alþingi, að þeir vildu hafa eintóm einmenningskjördæmi og afnema með öllu hlutfallskosningar og uppbótarsæti. Meining hans (hv. þm. S.-Þ.) var að framkvæma þá stjórnarskrárbreytingu í stríðslok, eins og hann segir í Tímanum.

Það átti að nota rangfengið vald minni hlutans hjá þjóðinni, til þess að breyta kjördæmaskipuninni svo harðvítuglega í afturhaldsátt, að verkalýður bæjanna hefði enga möguleika á að fá þau áhrif, sem honum bæri, á þingið.

Með þessari stjórnarskrárbreytingu Framsóknar átti að gera vald hinna nýju milljónamæringa, sem stríðsgróðinn og þjóðstjórnin skóp, eilíft hér á landi, en gera Framsfl. og sérréttindi hans í kjördæmaskipuninni að ómissandi þjófalykli auðmanna að völdunum á Íslandi. Núverandi ranglæti kjördæmaskiptingarinnar átti að verða stökkpallur til enn meira ranglætis, sem enn þá erfiðara yrði að bæta úr. Það átti að tryggja hinni vellauðugu togaraeigendastétt, að henni gerði ekkert til, þó að hún missti fylgið í bæjunum, ef hún bara gerði svo vel við Framsókn, að meiri hluti héldist í flestöllum sveitakjördæmum fyrir hina nýju sambræðslu Jónasar og Jensenssona. Ranglát kjördæmaskipun, er gat gefið flokki, sem hafði 25% landsmanna með sér, þingræðisvald yfir 3/4 hlutum þjóðarinnar, átti að tryggja einræði auðmannanna á Íslandi. Og það er þetta, sem hv. þm. S.-Þ. er enn að vonast eftir, þegar hann biður nú fátæka bændur úti um land að ljá nú Framsókn fylgi sitt, til þess að fá stöðvunarvald á næsta þingi.

Því sagði hv. þm. S.-Þ. í fyrra kvöld: „Þá munu þjóðhollir menn taka höndum saman.“ Við vitum, hvað átt er við með þjóðhollur í munni þessa manns. Þjóðstjórnarhollur, Thorsarahollur, Jónasarhollur.

Tilgangurinn hjá Jónasi var og er að kljúfa Íhaldsflokkinn, þannig að togaraeigendurnir, sem komnir eru í harðvítugar hagsmunaandstæður við allan þorra þjóðarinnar, verði að taka sig út úr og semja við Framsókn og byggja stéttarvöld sín á henni. Jónas orðaði þetta svo í fyrra kvöld, að hann sagði, að 1939 hefðu framleiðendur (en svo kallar hann togaraeigendur, sem aldrei framleiða neitt) orðið ofan á í Íhaldsflokknum, og því hefði verið hægt að mynda þjóðstjórn, en nú hefði farið öfugt, og því væri komið sem komið er.

Og Ólafur Thors staðfesti það í öðru sambandi í ræðu sinni í fyrra kvöld, hve nærri var komið því, að þessir sérhagsmunir togaraeigenda yrðu til að kljúfa Íhaldsflokkinn. Hann sagði í sambandi við spursmálið um kosningafrestun nú, orðrétt: „Ég var reiðubúinn til að láta hina eiga sig, sem ekki vildu standa að samstarfi.“ Og Eysteinn undirstrikaði þessi orð hans með því að segja í gærkvöldi: „Við framsóknarmenn höfðum ástæðu til að ætla, að Sjálfstfl. mundi ekki afgreiða kjördæmamálið.“ Svona lágu spilin. Samsærið gegn þjóðinni, sem hófst fyrir forgöngu Jónasar og Ólafs Thors og leiddi til þjóðstjórnarinnar 1939, átti að halda áfram, unz einveldi Kveldúlfs og Framsóknar væri tryggt á Íslandi, og það var Jónas Jónsson, sem lagði ráðin á um, hvernig tryggja skyldi það einræði kosningalega, Jónas ætlaði sér að verða ráðbani lýðræðisins á Íslandi, og hann ætlaði að drepa það með því að gera þingið að vopni minni hlutans í landinu gegn meiri hlutanum. Það er þetta samsæri, sem farið hefur út um þúfur. Það er hinn mikli kostur kjördæmamálsins, auk þess réttlætis, sem það skapar, — og nú hnakkrífast gömlu samsæriskumpánarnir um það, hvorum þeirra það sé að kenna, og sverja og sárt við leggja, að ekkert vilji þeir frekar en taka saman aftur. Og ég held, að þeim Jónasi og Ólafi Thors hafi fallið það alveg sérstaklega þungt að skilja, þeim sé fyllsta alvara að taka saman aftur sem fyrst. Það er tvöföld kaldhæðni örlaganna, að Jónas skuli nú verða að bera fram vantraust á vin sinn, Ólaf, og Ólafur verða forsrh. í stjórn, sem á að vinna það eitt verk að framkvæma það jafnréttismál, sem gerir allar sameiginlegar fyrirætlanir Jónasar og Ólafs Thors hálfu erfiðari en áður.

Sumum kann máske að finnast það ótrúlegt, að til skuli vera slíkt afturhald eins og það að ætla að koma á einræði minni hlutans hér, með því að afnema hlutfallskosningar og koma á eintómum einmenningskjördæmum, en við höfum orð sjálfra foringja Framsóknar fyrir því, að þetta sé stefna þeirra. Og er ekki þeim mönnum trúandi til hvaða afturhaldsaðgerða sem er, sem hafa á síðustu tveim árum komið á hreppaflutningum á ný, afnumið samningafrelsi verklýðsfélaganna, gert auðmennina fyrst skattfrjálsa og síðan tryggt þeim meginhluta stríðsgróðans, en ofsótt menningarfrömuði landsins og reynt að svelta þá til undirgefni við sig á sama tíma sem þeir veittu milljónastraum til gömlu, gjaldþrota braskaranna?

Hvað snertir hins vegar hinar hörðu deilur gömlu þjóðstjórnarsnápanna um, hvorum það sé að kenna, að friðurinn á milli þeirra hafi rofnað, þá skal ég leysa deiluna fyrir þá. Það er þjóðinni að kenna. Hún var búin að fá nóg af „friðnum“ ykkar, herrar mínir. Og þið vissuð það. Þið vissuð, að þjóðstjórnin ykkar, friðarstjórnin ykkar, stríðsgróðastjórnin, var orðin svo óvinsæl, að þið voruð allir dauðhræddir við að leggja út í kosningar með því að standa saman í þeim sem þjóðstjórnarflokkur, samábyrgir fyrir gerðum hennar. Vegna óttans við kosningar gátuð þið ekki á heilum ykkur tekið. Jafnvel blöð ykkar urðu að viðurkenna; að þið væruð orðnir óstarfhæfir af ótta við kosningar. Og hvaðan stafaði þessi ótti? Hann var ykkar eigin vonda samvizka gagnvart kjósendum, sem þið höfðuð svíkið með því að fórna hagsmunum þeirra fyrir stríðsgróðamennina.

Þið ætluðuð að reyna að koma ykkur saman um „friðsamar kosningar“ og halda svo samsærinu áfram eftir þær. En óttinn við kjósendur eyðilagði líka þann möguleika ykkar.

Hvers konar friður var það, sem þjóðstjórnarflokkarnir vildu fá? Hvernig notuðu þeir friðinn, sem þeir fengu fyrir kjósendum frá 1937? Og til hvers mundu þeir nota frið, ef þeir fengju hann nú?

Þjóðstjórnarfriðurinn var notaður til að skapa nýja stétt hér á landi, fámenna en vellauðuga stóratvinnurekendastétt, sem er svo miklu auðugri, og því voldugri en allar þær yfirstéttir, sem áður hafa drottnað á þessu landi, að þær blikna við samanburðinn. Það mun fara fram úr 100 milljónum króna sá auður, sem þessi stétt, er telur nokkra tugi manna, hefur eignazt á undanförnum þrem árum. Þessi auðkýfingastétt er að sölsa undir sig allt atvinnulíf landsmanna. Verði þessi stétt að stríðinu loknu látin halda yfirráðum sínum, eignarrétti sínum á togurunum, verksmiðjum og öðrum stórfyrirtækjum og umráðarétti sínum yfir stríðsgróðanum, þá verður meiri hluti landsmanna í krafti atvinnuleysisins gerður að ánauðugum þrælum þessara auðkýfinga. Fái þessi auðkýfingastétt að halda auði sínum og völdum áfram, þá sölsar hún undir sig sívaxandi hluta af jörðum landsins og gerir bændur ýmist að leiguliðum eða rekur þá af jörðunum. Það er nú þegar svo komið, að æskulýður sveitanna kvartar yfir því, að hann fái ekki aðgang að jarðnæði til eigin ábúðar í sveitum, af því að auðmenn kaupi upp jarðirnar eða stórbændur haldi óþarflega stóru jarðmeði, sem þeir neita að láta af hendi. Æskan verður því að flýja sveitirnar. Það er því ólíkt, hve miklu betur Framsókn hefur búið að auðmönnum Reykjavíkur en æskulýð dreifbýlisins, og svo hræsnar hún hér í útvarpinu, eins og hún hafi alltaf verið að hugsa um þá.

Þessi nýskapaða auðkýfingastétt er mesta hættan, sem vofir yfir frelsi Íslendinga innan frá. Fái hún að halda völdum, þá er úti um frelsi íslenzku þjóðarinnar inn á við, — og sé hún keyrð í fjötra í hagsmunamálum sínum innlendum, þá þarf ekki að spyrja, hvernig fer um raunverulegt frelsi þjóðarinnar út á við.

Þessi auðkýfingastétt og embættismannaflokkur hennar, Framsókn, vill frið, frið til að auðgast, frið til að kaupa upp allar þær eignir, sem til sölu eru, frið til að arðræna.

En friðarskilmálarnir, sem auðkýfingarnir settu alþýðu Íslands, eftir að hún var svikin í hendur auðvaldinu með uppgjöf Framsóknarog Alþýðuflokksins fyrir Kveldúlfsvaldinu 1939, voru slíkir, sem verstu og skammsýnustu sigurvegarar setja sigraðri þjóð:

Friðarskilmálarnir voru þeir, að verkalýðurinn skyldi engan rétt hafa til að ráða kaupi sínu og kjörum, — og hafa þeir skilmálar nú verið endurnýjaðir. Enn fremur þeir, að stjórnarnefnd ætti rétt á að flytja atvinnulausan mann hvert á land, sem var, til vinnu fyrir kaup, sem hún ákvæði. Þessi þrælahaldsréttur er enn í framfærslul., eins og hann var settur inn í þau úr höggormsfrv. Jónasar Jónssonar 1939. Og það þykir ekki nóg að hafa þrælahaldsréttinn á atvinnuleysistímum, það er líka verið að tryggja stjórninni hann nú með leynisamningum við setuliðið, sem stjórnin neitar að upplýsa þingið um í heyranda hljóði: Friðarskilmálarnir voru enn fremur þeir, að utangarðs skyldi setja alla þá, sem dirfðust að berjast gegn þessari kúgun. Slíkir skyldu óalandi og óferjandi. Það var alveg sérstaklega Sósfl. og svo helztu rithöfundar, mennlamenn og listamenn landsins, sem ganga átti milli bols og höfuðs á, svo að þjóðstjórnin fengi frið og „hættulegar hugsanir“, eins og japönsku fasistarnir kalla það, „þjóðhættulegar hugsanir“, eins og Jónas Jónsson kallar það, kæmust ekki út til fólksins. Og til þess að halda uppi friðnum var ríkislögreglan sett, dómsmáláráðherra gefið ótakmarkað fjárveitingavald um vopnakaup, og vélbyssur og táragas keypt.

Þannig voru friðarskilmálarnir. Svona átti að halda alþýðunni niðri. Blöð stjórnarflokkanna voru styrkt af opinberu fé til þess að rugla fólkið í ríminu, en blað Sósíalistafl., Þjóðviljinn, ofsótt, og hvað eftir annað heimtuðu þjóðstjórnarblöðin bann á því. Með Finnagaldrinum sællar minningar átti að gera algerlega út af við flokkinn og blað hans.

Og í skjóli þessa vopnaða friðar mökuðu auðmenn Íhaldsins og embættismenn Framsóknar krókinn. Það var verzlað með allt. Gengi íslenzku krónunnar var skráð eins og togaraeigendum kom bezt, lækkað 1939 til þess að geta lækkað laun verkalýðsins og hleypt dýrtíðarflóðinu inn á þjóðina og raunverulega lækkað aftur í hlutfalli við pund 1940, stórútgerðinni til hagsbóta, þegar vel var hægt að hækka krónuna. Innflutningsleyfin urðu verzlunarvara og pólitískt náðarbrauð í höndum valdhafanna. Tilgangur þeirra var, að öll atvinna ætti að verða það líka, svo að hægt væri að svelta alla til undirgefni við sig, með því að sveifla yfir þeim atvinnuleysissvipunni og sultarólinni. Spillingin í pólitísku lífi Íslands náði hámarki, og valdhafarnir ætluðu sér að spilla þjóðinni, þannig að hún léði þeim völdin áfram.

En auðmennirnir og hjálparkokkar þeirra, flokkur Jónasar frá Hriflu, reiknuðu skakkt. Alþýða Íslands var ekki sigruð, og hún lét ekki spillast. Hún var bara svikin í hendur valdhafanna, afhent þeim eftir kosningarnar 1937. Hún hafði hins vegar ekki verið sigruð í hreinni kosningabaráttu um þessi mál. Auðmennirnir og Jónas þeirra vildu forðast alla kosningabaráttu um þessi mál, því að ef alþýðan þekkir sinn vitjunartíma, þá getur hún sigrað í kosningunum, einmitt ef barizt er um þessi mál.

Því er það, að alþýðan fagnar því nú, að þjóðstjórnarfylkingin er rofin. Þjóðin vill ekki kirkjugarðsfrið afturhaldsins og þjóðstjórnarinnar. Alþýðan segir auðdrottningunni, ranglætinu í kjördæmamálinu, gerðardómsl., þrælahaldsákvæðunum og spillingunni stríð á hendur. Og alþýðan mun gera sér ljóst, að vilji hún ekki viðhald alls þessa og svo atvinnuleysi og hrun í þokkabót eftir stríðið, þá verður hún sjálf að taka völdin og afnema vald auðkýfinganna og liðs þeirra á Íslandi.

Þjóðstjórnarliðið talar um nauðsynina á „sterkri stjórn“. Sterkri stjórn hverra, má ég spyrja? Alþýðan hefur reynsluna af „sterkri stjórn“ auðvaldsins, þar sem þjóðstjórnin var. Og alþýðan er á móti henni, og sú sterka stjórn leystist upp af ótta við kjósendur, er kosningar nálguðust, af því að slíkt var eina ráð frumpartanna, sem hún samanstóð af, þjóðstjórnarflokkanna, til að reyna að fá fylgi kjósendanna við kosningar.

„Sterk stjórn“ auðvaldsins á Íslandi. Það þýðir, að fjáraflaklær Kveldúlfs og Co. lykjast um atvinnulíf landsmanna; krumlur Jónasar frá Hriflu um menningarlíf þeirra, en einræði þeirra samanlagt sviptir verkalýðinn mannréttindum, eins og þjóðstjórnin gerði. Og það er ekki slík „sterk stjórn“, sem alþýðustétt Íslands óskar eftir, enda væri það sama og biðja um vöndinn á sjálfan sig. Alþýðan fagnar því, að þessi afturhaldsfylking hefur rofnað, en hún verður bara að gæta þess að treysta engum, sem í henni hefur verið, svo að sagan frá 1939 endurtaki sig ekki. Alþýðan grætur það ekki, þótt hin sterka afturhaldsstjórn auðvaldsins hafi orðið að hrökklast frá, og í staðinn komi veik meirihlutastjórn auðvaldsins, sem auk þess verður að skuldbinda sig til þess að framkvæma eitt stórfellt mannréttindamál alþýðunnar, en að öðru leyti lofar því að vera ekki að fitja upp á ágreiningsmálum, sem alþýðu manna væru til óþurftar.

En svona ástand getur hins vegar ekki gengið til lengdar.

Það þarf að vera sterk stjórn hér á Íslandi alveg sérstaklega á þessum tímum, — en það þarf að vera sterk stjórn fólksins sjálfs. Slíka stjórn verður fólkið sjálft að skapa til þess að framkvæma vilja sinn, til þess að vinna að hagsmunum sínum, til þess að virða og auka réttindi sín, til þess að tryggja vinnandi stéttunum til sjávar og sveita yfirráðin yfir atvinnutækjunum og jörðinni, en ná hvoru tveggja úr höndum auðjarlanna og embættislýðs þeirra, sem nú gína yfir þeim.

Annað hvort ræður hér á landi sterk stjórn auðmanna eða sterk stjórn fólksins sjálfs. Það, sem þar er á milli, er einungis einhver mynd af stjórnleysi, bráðabirgðaástand, meðan átökin um stefnu þjóðarinnar fara fram milli auðkýfinganna með sína þjóðstjórnarbrodda allra þriggja flokkanna, menn eins og Ólaf Thors, Jónas Jónsson og Stefán Jóhann, annars vegar og verkamanna, bænda, millistétta og menntamanna hins vegar.

Þjóðin þarf ekki að fara í neinar grafgötur til að komast að því, hverjir það eru, sem vilja halda áfram pólitík þjóðstjórnarinnar.

Formaður Framsfl., Jónas Jónsson, lýsti því yfir í þessum umr., að það væri „ómetanlegt gagn“ að þjóðstjórn og að þjóðhollir menn tækju saman höndum eftir kosningar. Hann talaði um sérréttindi verkamanna og átti þar við samningafrelsi þeirra, svo að ekki þarf að efast um vilja Framsóknar til að afnema það frelsi framvegis. En hann talaði ekki einu orði um hættuna af auðmönnunum og sérréttindi þeirra !

Formaður Íhaldsflokksins, Ólafur Thors, lýsti því yfir, að hann væri sammála því, að „þjóðstjórn sé heppilegust“. Hann var meira að segja reiðubúinn til að kljúfa flokk sinn til að halda samstarfi áfram, eins og kom fram í ræðu hans.

Það þarf því ekki að efast um, að hvert atkv. á Íhaldið og Framsókn er atkvæði með því að fá þjóðstjórnina og afturhald hennar eftir tvennar kosningar. Þeir kjósendur, sem kjósa þá flokka, þurfa ekki að ganga gruflandi að því, hvað þeir gera.

Þá er Alþýðuflokkurinn. Flokkforustan þar, Stefán Jóhann og Co., vill gjarnan láta lita svo út sem þeir séu ekki ákveðnir í því nú að fara í þjóðstjórn aftur. Þeir vita, að andstaða gegn þjóðstjórninni er lífsskilyrði þeirra við kosningar, og þeir vita, að fjöldinn af fylgismönnum þeirra og ýmsir beztu menn flokksins eru andvígir þjóðstjórnarpólitíkinni. En ef Alþfl. ætlar að taka upp baráttu gegn þjóðstjórnaröflunum, þá er engin leið önnur fyrir hann en að vinna með Sósfl. að slíku. En núverandi stj. Alþýðuflokksins hefur, eftir að hún fór úr þjóðstjórninni, lýst því yfir, að hún hafni algerlega öllu pólitísku samstarfi við Sósfl. Það litla pólitíska samstarf, sem átt hefur sér stað, virðist því hafa verið í algerri andstöðu við vilja meiri hluta flokksstjórnar Alþfl. Það, að hafna öllu pólitísku samstarfi við Sósfl. er sönnun þess, að Stefán Jóhann og meiri hluti Alþýðuflokksstjórnarinnar ætla sér að taka upp samvinnu aftur við þjóðstjórnaröflin. Það eina, sem gæti hrætt þá frá því, væri ósigur við kosningarnar, það, að kjósendur létu nógu eindregið andúð sína í ljós með því að kjósa Sósfl.

Þá er og annað afl, sem gæti ráðið miklu í baráttu verkalýðsins fyrir mannréttindum sínum gegn þjóðstjórnaröflunum. Það er Alþýðusambandið. Með því að sameina allan verkalýð landsins í því, væri skapað sterkasta samtalsafl, sem til er á Íslandi. En Alþýðusambandsstjórnin, sem skipuð er enn Alþýðuflokksmönnum, hindrar enn þessa sameiningu, heldur verkalýðsfélögunum á Akureyri, Norðfirði og Vestmannaeyjum klofnum og heldur verkamannafélaginu Hlíf í Hafnarfirði utan Alþýðusambandsins. Hvað á þessi klofning að þýða? Hverjum er hún til góðs? Hún er einungis stóratvinnurekendum til góðs, og hún er gerð til þess að reyna að viðhalda flokksvöldum Stefáns Jóhanns og nánustu fylgifiska hans í Alþýðusambandinu á þingi þess í haust. Og það sér hver verkamaður, að sá flokkur; sem setur sérhagsmuni sína þannig ofar heildarhagsmunum og einingu verkalýðsstéttarinnar, hann er að þjóna afturhaldinu og auðmannastéttinni í landinu, þótt hann vilji nú fyrir kosningarnar dylja þá þjónustu sem mest.

Annars mun stjórn Sósfl. gera ráðstafanir til þess, að stjórn Alþfl. fái sjálf tækifæri til að taka af öll tvímæli um, hvorum megin hún ætli að standa í baráttunni um það, hvort það eigi að vera sterk stjórn auðvaldsins eða sterk stjórn alþýðunnar á Íslandi.

Það dugar ekkert hik á þessum tímum. Þessir mestu umrótstímar mannkynssögunnar eru ekki til þess lagaðir að tvístíga lengi. Velferð þjóðarinnar, framtíð lands vors heimtar tafarlausar, róttækar ráðstafanir gegn auðkýfingum landsins og bitlingalýð þeirra, til þess að tryggja raunverulegt frelsi og atvinnulegt lýðræði vinnandi stétta landsins. Menning vor og andlegt frelsi útheimtir það, að utangarðsstefnan og Jónasarafturhaldið sé kveðið niður að fullu og öllu, og það verður aðeins gert með því, að flokkar þjóðstjórnarafturhaldsins, sem bera ábyrgð á hneykslunum í þessu efni, fái refsingu sína frá kjósendum, og þá ekki sízt flokkur Jónasar Jónssonar, sem gengið hefur fram fyrir skjöldu í þessum menningarofsóknum og gerist nú svo ósvífinn að berjast fyrir því, að hægt sé að koma á opinberu einræði fjórða hluta þjóðarinnar yfir 3/4 hlutum Íslendinga.

Sósfl. skorar á alla alþýðu landsins að nota þær kosningar, sem nú fara í hönd, til þess að sýna vilja sinn til að hindra það, að „þjóðstjórn“ afturhaldsins geti aftur komizt til valda á Íslandi. Það verður aðeins gert með því að gera fylgi Sósfl. sem allra mest. Stórkostlegur kosningasigur Sósfl. við fyrri kosningarnar gæti flýtt fyrir því, að þau uppreisnaröfl gegn afturhaldinu og auðkýfingunum, sem til eru innan þjóðstjórnarflokkanna, risu upp og tækju höndum saman við Sósfl., til þess að skapa hér á Íslandi lýðræðisstjórn fólksins sjálfs, til að framkvæma hagsmuna- og hugsjónamál þess.