14.04.1942
Sameinað þing: 6. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í D-deild Alþingistíðinda. (1327)

10. mál, fangagæzla

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Umr. um þessa þáltill. eru nú teknar upp á þeim grundvelli af hv. 1. flm., að ekki sé rétt að deila um það, hvort grg. sú, sem henni fylgir, sé rétt eða röng. Það er málflutningur, sem er engan veginn fjarri lagi.

En vegna þess, að umr. eru teknar upp um málið á þeim grundvelli og ég vil segja með þeirri hógværð, er ekki ástæða til að fara langt út í málið. Þegar hv. flm. segir, þrátt fyrir þennan ásetning sinn, að aðbúð og réttleysi fanga, sem um ræðir, muni nálgast það, sem sé í einræðislöndum, held ég, að það sé orðum aukið og tæpast hægt heldur að fá það út úr skýrslunni. Um það atriði, að neitað hafi verið í ráðuneytinu að taka við bréfum frá fanga, vil ég taka fram, að mér var ekki kunnugt, að komið hefðu neinar kvartanir til starfsmanna eða til skrifstofustjóra, sem hér mun átt við, og hann sá ekki ástæðu til að skýra mér frá því, — enda er því ekki haldið fram, að mér hafi verið kunnugt um neinar kvartanir eða að þær hafi borizt til mín og ég neitað, að athuguð væri aðbúð þessa fanga.

Það skal tekið fram í eitt skipti fyrir öll, að þegar fangar hafa kvartað um aðbúð í fangahúsum og þær kvartanir komið til mín, hafa kvartanirnar undantekningarlaust verið athugaðar, og það er auðvitað ekkert nema sá eðlilegi réttur, sem hver fangi á að hafa. En einmitt í sambandi við þetta mál verð ég að upplýsa það, að maður, sem ég hygg, að sé eitthvað skyldur þessum fanga, lögfræðingur, sem starfar hér í banka, kom og átti tal við mig um hann í vinnuherbergi mínu, spurði mig, hvort ég hefði nokkuð á móti því, að hann færi austur og kynnti sér aðbúð hans. Ég sagði það væri sjálfsagt. „Þú getur farið austur og talað við fangann og athugað, hvernig ástæður hans eru.“ Ég vænti þess, að hv. þdm. sjái af þessu, að ekki hefur staðið á mér, að rannsökuð yrði aðbúð fangans (BrB: Hvaða lögfræðingur var það?) Ég get gjarnan nefnt nafn hans, þegar ég er búinn að fá leyfi hans í símtali. (BrB: Ég vefengi þetta ekki og nægir að vita nafn hans, þótt ekki sé í þingræðu).

Ég ætla ekki að ræða grg., en samt sem áður má af verulegum líkum ráða, að í skýrslunni gætir allmjög málflutnings. Hún byrjar á því, að „við komum austur um miðjan dag. Þar blasti við hár og skáldaður húshjallur með járngrindum fyrir öllum gluggum og dyrum.“ Það eru nokkuð mörg húsin, sem eru skálduð, sveitabæir og önnur steinhús, en þetta er strax tekið þarna fram til að tákna einhverja sérstaka vanhirðu. Þá eru það járnrimlarnir. Hver hefur séð fangahús með gluggum niðri við jörð án járnrimla fyrir? Hvað er svo sem sérstakt við þetta, eða hvað snertir það aðbúð fanganna?

Er hægt að hafa það til ádeilu á aðbúnaði á Litla-Hrauni, að járngrindur skuli vera fyrir gluggum? Er það ekki svo í öllum fangahúsum? Þá er sagt í skýrslunni, að mikið liggi þarna af rusli og skrani, en það er ekkert óeðlilegt, af því að þarna hafa þurft að fara fram ýmis konar viðgerðir. Gangstéttin á að vera brotin, en það vill nú oft brenna við, ef ekki er grafið nóg fyrir undirstöðunni, og má sjá slíkt hér við hin þrifalegustu hús.

Það er fundið að því, að klefarnir séu litlir, en þeir eru þó nokkru stærri en klefarnir í fangahúsinu hér og svipaðir og almennt gerist nú á dögum.

Ég hef nú nefnt nokkur dæmi, en gæti haldið lengi áfram. Eins og menn sjá, gætir mikil, kala og mikillar málfærslu í aðfinnslunum, svo að grunur hlýtur að vakna um það, að skýrslan sé útbúin frekar til að finna að en að hér sé um rökstuddar ásakanir að ræða.

Út af því, að krotað sé á veggina, vil ég segja það, að það er erfitt að koma í veg fyrir slíkt. þar sem oft er skipt um fanga. Að ekki hafi verið málað í háa herrans tíð getur rétt verið, það þarf nokkuð oft að mála, til þess að málningin líti vel út og nýlega.

Það er fundið að því, án þess að tilgreina neitt frekar, að maturinn sé ekki sem þrifalegastur. Ég álít nú, að úr því að þessar aðfinnslur eru fram komnar — og það eru þær fyrstu, sem mér, berast, og gerir það skýrsluna ekki síður tortryggilega —, og í þeim er a.m.k. tvennt, sem máli skiptir og rannsóknar þarf við, sé ekki ástæða til að ræða málið frekar á þessu stigi, heldur sé sjálfsagt að taka málið til athugunar. Sá, sem ber fram aðfinnslurnar, á að sæta ábyrgð engu síður en fangavörðurinn, ef hann lýgur í skýrslu sinni.