14.04.1942
Sameinað þing: 6. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í D-deild Alþingistíðinda. (1329)

10. mál, fangagæzla

*Bjarni Bjarnason:

Þjóðfélagsmeinin eru mörg. M.a. eru þau brot, sem einstakir þegnar fremja, af því að þeir eru ekki hæfir til að fylgja lögum og reglum þjóðfélagsins, og er ekkert óeðlilegt, þó að á Alþ. sé rætt um, hvernig þjóðfélagið eigi að búa að slíkum einstaklingum. Einnig er sjálfsagt að ganga eftir því, að þeir, sem trúað er fyrir vörzlu slíkra manna, fari nákvæmlega eftir þeim reglum, sem settar eru.

Ég hygg, að Teitur fangavörður fari eins nærri settum reglum og frekast er unnt. Allir, sem þekkja hann, bera honum, að hann sé reglusamur, skynsamur, góðviljaður og ráðdeildarsamur. Enda kemur það fram í blaðagrein Hallgríms Hallgrímssonar, að ádeilan á hann persónulega er þannig, að ekki er hægt að sjá á neinu, að hann hafi misbeitt valdi sínu. En það er margt annað vandasamt í svona máli. Hv. flm. talaði hógværlega, og dettur mér ekki í hug að efast um, að hann og aðrir þm. hafi hug á, að sanngjarnlega sé búið að þeim mönnum, sem brotlegir hafa gerzt og verið dæmdir, og að þar fari allt fram svo sem ákveðið hefur verið, að yfirveguðu ráði.

Hallgrím þennan Hallgrímsson þekki ég ekki einu sinni í sjón og veit ekkert um, hversu trúverðugur hann er. En það er hægt að komast fyrir um, hvort ásakanir hans um, að fangarnir séu illa hirtir og lúsugir, eigi við rök að styðjast. Ég hef bent á, hvort ekki væri nauðsynlegt, að fangarnir hefðu með sér læknisvottorð úr Rvík um þrifnaðarástand sitt. Þá gæti legið skýlaust fyrir, hvort þeir fengju á sig óþrif eftir komuna að Litla-Hrauni. Ég hygg, að sú ásökun sé alröng, en að sannleikurinn sé sá, að þeir, sem lúsugir eru, hafi verið það, þegar þeir komu þangað, en misnoti það svo í sambandi við dvölina á hælinu. Það tekur nokkurn tíma að þrífa slíkt.

Það er ekki mikið leggjandi upp úr almennu hjali um það, hvort maturinn sé nógu góður, kaupið nógu hátt, klefarnir nógu stórir. Þar sýnist sitt hverjum. Það, sem verður að ganga úr skugga um, er það, hvort aðbúðin sé forsvaranleg eða ekki. Ég get hugsað mér, að ýmsir af föngunum hafi tilhneigingu til að vekja óánægju í hópnum og koma af stað ósönnum sögum. Það gleður mig, að hæstv. forsrh. hefur lýst sig fúsan til að gera gangskör að því, að málið verði rannsakað, m.a. það, hvort ríkisstj. hefur búið nógu vel í haginn fyrir þessa menn, en það er allt annað mál en hitt, hvort fangavörðurinn stendur vel eða illa í stöðu sinni.