14.04.1942
Sameinað þing: 6. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (1331)

10. mál, fangagæzla

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vil aðeins svara hér fyrirspurn, sem beint var til mín, viðvíkjandi fangahúsi því, sem í ráði er að byggja. Það er kunnara heldur en frá þurfi að segja, að framkvæmdir á þeim málum sem öðrum eru erfiðar og ekki hlaupið að byggingaframkvæmdum, eins og sakir standa, en ættum við að ráðast í byggingu á fangahúsi nú, mundi það kosta hundruð þúsunda. Ég var aldrei ánægður með þann stað, sem tekinn var, þegar fangahúsið á Litla-Hrauni var byggt. En ég hygg, að að öllu athuguðu megi nú deila um, hvort staðurinn sé ekki sæmilegur. Það er talað um, að þessi staður sé í þjóðbraut. Nú er Skólavörðustígur 9 í þjóðbraut, og mér er kunnugt um, að víða erlendis eru fangahús í þjóðbraut. Ef fangahús yrði byggt á afskekktum stað, mundi reynast svo erfitt með alla aðdrætti, að slíkt væri ókleift. En þetta er enn órannsakað mál.

Ein af þeim ásökunum, sem kom fram, var sú, að fangar fengju ekki að ganga úti. Nú eru reglur fangahúsanna þannig, að undir vissum kringumstæðum skuli fangar dvelja innanhúss. Hér var um slíkan fanga að ræða, og þar sem hann var ásakaður um að hafa gengið úr vinnu og vera með áróður meðal fanganna, hafði fangavörður notað sér reglur fangahúsanna og bannað honum að ganga úti. Sá er munurinn á fangahúsunum á Skólavörðustig 9 og Litla-Hrauni, að í kringum það fyrrnefnda er hár garður, þar sem fangarnir geta gengið um án þess að ná sambandi við umhverfið. En slíkur garður er ekki til á Litla-Hrauni. Eins og þm. er kunnugt um, er erfitt að byggja fangahús á svo afskekktum stað, að fangarnir megi vera óhindraðir úti, og það er allt enn þá órannsakað mál.

Ég vil nú ekki lengja umr. um þetta mál, en ég vil taka það fram, að fangavörðurinn er góðkunnur maður. Ég vil aðeins benda á eitt dæmi, sem sýnir, að ekki hefur verið tekið harðara á þessum fanga heldur en öðrum. Ég hygg, að flestir hv. þm. muni, að meðan fangi þessi sat í fangelsi, skrifaði hann stóra blaðagrein um annað efni, og ég get upplýst það hér, að það þótti fyrirbrigði, að fangi, sem settur hafði verið inn fyrir það sama atriði, sem hann hafði skrifað um, skyldi láta slík skrif frá sér fara. Af þeirri ástæðu fannst þeim, sem grein þessi fjallaði um, ástæða til, að tekið væri fastara í taumana um eftirlit á þessum fanga, heldur en verið hafði.

Áður en þessum umr. lýkur, vildi ég segja nokkur orð um aðbúnað fanganna, vegna ummæla, sem fallið hafa hjá sumum hv. þm. Ég rakst á eitt atriði í grg., sem vakti athygli mína. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Annars mega fangar á Litla-Hrauni hafa þægindi og annað, er þeir geta sjálfir útvegað, og hafði ég í klefa mínum sængurföt, stól, ritföng og gnægð bóka og blaða auk útvarpsheyrnartóls, er Hælið leggur til.“

Þetta eru nú ekki svo lítil þægindi í fangahúsi, en ég vildi aðeins benda hv. þm. á þetta. Ég hef víða séð fangahús erlendis, og þar er aldrei nema teppi í rúmunum, af þeirri orsök, að teppi er hægt að hreinsa. Ég er á sömu skoðun, eins og ég hef áður lýst yfir, að sjálfsagt sé að þetta mál sé rannsakað. Eins og menn sjá af skýrslu þessa fanga, hefur aðbúnaður hans ekki verið sem ákjósanlegastur, en þegar betur er að gáð, hefur hann haft það frjálsræði, sem óvíða mun tíðkast erlendis. Honum er leyft að hafa gnægð bóka, auk þess var í klefa hans útvarpsheyrnartæki, sem hælið lagði til. Af þessari skýrslu er greinilega hægt að sjá, að sambúðin milli fangavarðar og fanga hefur ekki verið góð, en af hverju það hefur stafað, skal ég ekki deila um.