14.04.1942
Sameinað þing: 6. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (1333)

10. mál, fangagæzla

*Eiríkur Einarsson:

Ég skal hafa þetta örstutt, því að mjög litlu er við að bæta, en ég sé, að þegar ég hugsa mig um, þá er till. mín, sem samþ. var í Sþ., ekki eins gömul og ég hélt, því að hún er frá 1939. Ég hef lítið tilefni til að ræða þetta mál frekar, en vil þó geta þess í sambandi við svar hæstv. forsrh. viðvíkjandi minni eftirgrennslan, þegar hann segir, að þegar fangahúsið Skólavörðustígur 9 standi við þjóðveg, þá megi hælið á Litla-Hrauni alveg eins vera það, að þessu tvennu er ekki saman að jafna, vegna þess að fangahúsið við Skólavörðustíg er innilokunarfangelsi, en hitt ekki, heldur er það hæli til þess að betra menn. Það eru ekki aðeins íbúar þorpanna þarna austurfrá, sem eru leiðir á þessum sífelldu samvistum við fangana, heldur einnig fangarnir sjálfir.

Ef ég væri dæmdur maður, sem þyrfti að taka út refsingu á slíku hæli, þá kærði ég mig ekki um, að á mér væri haldin hálfgerð sýning. Ef Litla-Hraun væri ekki vinnuhæli, þá gæti það alveg eins verið við Skólavörðustíginn, t.d. með því að stækka það hús, en hælinu hefur einmitt verið komið fyrir í sveit til þess að leyfa föngunum dálitla útivist, en til þess að það komi að gagni, þá er ekki gott að hafa hælið í þéttbýli. Mér þykir leitt, hvað lítið hefur orðið úr framkvæmdum viðvíkjandi till. 1939, sem gaf þó góðar vonir, þegar hún var samþ., og mér hefði fundizt betra, ef hæstv. forsrh. hefði andmælt henni þá, í stað þess, eins og hann gerði, að lofa henni þegjandi fram að ganga, en segja svo nærri þrem árum seinna, að hann dragi í efa að hafa hælið annars staðar. Þessi krafa er ekki aðeins af mínum vörum, heldur almenn ósk fjölda manns, að hælið verði flutt á afskekktari stað, svo að bæði fangarnir verði í friði fyrir fólki í nágrenninu og fólkið í friði fyrir föngunum.