30.03.1942
Sameinað þing: 4. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (1341)

29. mál, verksmiðja til að hreinsa og herða síldarlýsi

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Ég þarf engu við að bæta það, sem hæstv. viðskmrh. sagði um gang þessa máls. Málið er margrætt og hefur verið á döfinni í mörg ár. Skömmu eftir að ég tók við stj. síldarmálanna, bað ég Trausta Ólafsson að rannsaka möguleika á framkvæmdum, og málið var í rannsókn, þegar till. 1939 kom fram, og málið er enn í rannsókn. Trausti Ólafsson lét ráðuneytinu í té skýrslu, og síðan hefur ráðuneytið verið í sambandi við færustu aðila á þessu sviði, t.d. síldarverksmiðjustjórnina. Rannsóknir hafa farið fram í viðtækari mæli á því, hvort arðvænlegt væri að reisa slíka verksmiðju. Ég tel mig ekki, með þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, dómbæran um það, hvort þetta yrði arðvænlegt fyrirtæki, eins og nú er ástatt um kostnað allan. Hins vegar tel ég líkur benda til þess, að framtíðarbrautin liggi í þessa átt. Og það gæti vel hugsazt, að endanleg niðurstaða í þessu máli færði okkur heim sanninn um, að aðalhagnaðurinn af að byggja slíka verksmiðju gæti legið í því, að við með því værum óháðari félagssamtökum þeirra hringa, sem skammta okkur verð á síldarlýsinu. En ég verð að játa, að mér þykir ekki líklegt, þó að rannsókn leiddi í ljós, að hér væri um sæmilega arðvænlegt fyrirtæki að ræða, að okkur væri gerður þess kostur að fá vélar til slíkrar verksmiðju frá því landi, sem við eigum helzt skipti við og fáum okkar nauðsynjar frá, Bandaríkjunum, eins og nú er komið högum þeirrar þjóðar. Þetta er hugboð mítt, eftir öðru að dæma, eftir því, hvernig stöðugt harðnar á dalnum um aðdrætti og stöðugt fara versnandi horfur á nauðsynlegum farkosti af hendi Bandaríkjanna til uppfyllingar á eldri loforðum um flutninga, og ég tel því, að það sé ekki líklegt, að við mundum nú í náinni framtið fá möguleika til að kaupa slíkar vélar eða flytja hingað. Þetta er ekki eftir rannsókn, heldur hugboð mitt.

Mér þykir rétt að láta rannsókn halda áfram um þetta, og ég býst við, að viðskmrh. láti gera það.

Ég get skýrt frá því, að þrátt fyrir það að sendiherra Íslands í Washington hefur útvegað okkur mjög hátt útflutningsleyfi frá Bandaríkjunum fyrir vélasamstæðum fyrir áframhaldandi stækkun Sogsvirkjunarinnar, og þrátt fyrir það, að það er sannanlegt mál, að aðstaða Sogsvirkjunarinnar til þess að tryggja Bandaríkjasetuliðinu nauðsynleg afnot rafmagns er nú orðin hæpin og fer versnandi, þá eru engar líkur til þess, að við getum fengið trygga útflutningsmöguleika til þess að flytja þær hingað, fyrr en eftir ár hér frá að telja. Og hér er þó sá aðstöðumunur, að ég býst við, að bygging síldarlýsisverksmiðju sé ekkert nauðsynjamál Bandaríkjamanna hér á landi, en aukning, Sogsvirkjunarinnar er beinlínis þeirra hagsmunamál.

Ég þarf svo ekki um þetta fleira að segja, en ég tel, að þessar upplýsingar, sem ég nú hef drepið á, um þær hæpnu líkur fyrir því, að unnt verði að fá þessar vélar keyptar og fluttar hingað, eigi þó ekki að draga úr því, að þessi þáltill. verði samþ. og áframhaldandi gangskör gerð að rannsókn þessa máls.