20.04.1942
Neðri deild: 38. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti ! Ég var hér við 1. umr. þessa máls og við 1. umr. um tekjuskattsfrv. að spyrjast fyrir um það, hve miklum upphæðum það mundi nema, þegar við tölum um, hvernig verja skuli stríðsgróðanum. Það hafa komið fram nokkrar upplýsingar um þetta við þessa umr., sem rétt er að vekja eftirtekt á, frá tveimur hv. þm. um,. að óhætt mundi vera að áætla gróðann af hverjum togara árið 1940 a.m.k. 900 þús. kr. Ég geri ráð fyrir, að ekki muni um minni gróða hafa verið að ræða af togurunum árið 1941. Og líklega er útlit fyrir, að þetta ár verði sízt tekjurýrara fyrir togarana heldur en árið 1041.

Togararnir eru 30 hér á landi. Og ef gengið væri út frá þessum gróða á hverjum þeirra nú, að hann héldist þetta ár, þá er kominn þarna um 80 millj. kr. gróði fyrir þessa 30 togara á þessum tíma.

Nú er það upplýst, að það, sem greitt hefur verið í varasjóði af gróða útgerðarinnar yfir árið 1940, em um 20 millj. kr. Og það gefur okkur strax dálitla hugmynd um, hvað það muni vera, sem togaraútgerðin fær að safna til samans í gróða á þessum tímum, fyrir utan alla aðra, sem safna stríðsgróða á sama tíma. Ég held, að sízt væri til of mikils ætlazt, þegar gengið er út frá, að stórútgerðin hafi um 20 millj. kr. í varasjóðum nú, að hún kæmist á 3 stríðsgróðaárum upp í 50–60 millj. kr. með þann gróða, sem hún héldi eftir samkv. þessum frv., sem fyrir liggja. Og af hverju hefur hún fengið þessar 50–60 millj. kr., sem hún hefði eftir þennan tíma? Það liggur ekkert fyrir um það, hve mikið hlutafé liggi í stórútgerðinni yfirleitt. Mér er nær að halda, að eigið fé þeirra manna, sem þar ræðir um, sé alls ekki yfir 6–8 millj. kr. Því að vitanlegt er, að megnið af því fé, sem er í stórútgerðinni íslenzku, hefur verið lánsfé bankanna eða sparifé þjóðarinnar. Ef þetta er rétt h já mér, mundi þetta þýða, að það fé, sem —stórútgerðarmenn hafa lagt þarna í, hefur sjöfaldazt á 3 árum. Þetta þýðir, m.ö.o., að það væri búið að láta stórútgerðinni í té sem eign milli 50 og 60 millj. kr., þrátt fyrir þessa skatta, sem talað er um, að séu svona háir.

Þessu atriði vildi ég sérstaklega vekja athygli á í sambandi við umr. um þetta mál, og ítreka það, sem ég sagði við 1. umr. málsins.

Ég býst við að koma fram með brtt. við tekju- og eignarskattsfrv. við 3. umr. þessa máls um það, að taka beri nokkurt tillit til þess fjár, sem stórútgerðarmenn hafa lagt í fyrirtæki, og leggja til að minnka það fé, sem þeir megi leggja skattfrjálst til hlíðar, með tilliti til þess.

Hvað snertir þær brtt., sem hér liggja fyrir við þetta frv., þá er ég samþ. brtt. hv. þm. Seyðf. um að fella niður 4. gr. frv., og eins er ég samþykkur brtt. á þskj. 204 frá hv. 6. landsk. þm. (f'.mJ) og vil fara nokkrum orðum um mótbárur hv. þm. V.-Húnv. gegn henni.

Því var haldið fram, að það væri ekki réttlátt, að íbúar Hafnarfjarðarbæjar slyppu með sérstökum fríðindum, hvað skattgreiðslur snerti, á kostnað stórútgerðarinnar, ef hún borgaði öll þau gjöld, sem bæjarfélagið þyrfti að innheimta til sinna þarfa. Jafnvel þó að svo væri, að stórútgerðin borgaði öll útsvörin, allt, sem bærinn þyrfti að fá af gjöldum, þá held ég, að það væri ekki of mikið, þó að hún gerði það. Hvernig var farið að hér á þingi, þegar stórútgerðin gat ekkert borgað? Þá var hún gerð skattfrjáls. Og 25 aurar voru teknir af hverjum manni, sem fór milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur til þess að hjálpa mönnum í Hafnarfirði um það, sem þurfti að gera, til þess að stórútgerðin gæti haldið áfram með rekstur sinn. Er það þá nokkuð óréttlátt, þó að það vinnandi fólk í Hafnarfirði fengi nú að vera skattfrjálst þennan stutta tíma, sem stríðsgróðinn varir, og stórútgerðin látin borga það, sem bærinn þyrfti að innheimta í útsvörum? Það er nú ekki farið fram á svo mikið. En þó svo hefði verið, hefði mér ekki fundizt það óréttlátt.