19.03.1942
Neðri deild: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

13. mál, skemmtanaskattur

*Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti ! Mig langar til að gera eina fyrirspurn í sambandi við þetta frv. og þær brtt., sem n. hefur gert við það.

Ég sé, að n. vill hækka þetta álag verulega. Mér þykir þetta nokkuð stórt stökk, og það er vitanlegt, að þessi hækkun lendir á fólkinu, sem sækir kvikmyndahúsin, og mun aðgangseyririnn þá um það bil þrefaldast. Gert er ráð fyrir, að þetta skuli standa árin 1942 og 1943. Bendir það til þess, að n. geri ráð fyrir, að þetta óeðlilega áatand muni ríkja svona langan tíma, en ég vona, að það verði ekki svo lengi. Ég tel ekki eftir erlenda hernum að borga þetta, en mér er sárara um innlenda borgara, ef þeir eiga að borga þrefalt hærra gjald en áður. Ég vil þá spyrja, hvort allar kvikmyndasýningar eigi að sæta þessum álögum. Bæði í þingsölunum og annars staðar er lagt mikið upp úr kennslukvikmyndum. Það er eins og allir hafi gleymt, að þetta merkilega tæki er notað í þágu kennslunnar. Við höfum séð kennslukvikmyndir, bæði læknislegar og heilbrigðilegar, og mér þætti óeðlilegt, ef ætti að tolla þær með 200%. Ég vil því spyrja, hvort þessar sýningar mættu ekki koma í undantekningu.