07.05.1942
Efri deild: 51. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti ! Ég vil nú taka undir það, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði síðast, að það er í raun og veru alveg þýðingarlaust að vera að gera nokkra grein fyrir skoðunum sínum í ýmsum málum hér í hv. d., þó að hins vegar sé ekki verra ástand í því efni á fundum í þessari hv. þd. heldur en á öðrum fundum í hæstv. Alþ., og sízt verra í sambandi við þetta mál heldur en oft hefur verið áður. T.d. vil ég leyfa mér að skjalfesta það hér, að þegar rætt var um eitthvert mesta ágreiningsmál, sem hæstv. ríkisstj. hefur afgreitt, þá var við 1. umr. þess hér í hv. þd. enginn viðstaddur úr hæstv. ríkisstj. og ekki nema einn eða tveir hv. þm., og lýsir þetta í raun og veru virðingarleysi stjórnarliðsins fyrir hinu háa Alþ. Mundi það sennilega tæplega vera annars staðar í lýðveldislöndum álitið frambærilegt, að ríkisstj. og stuðningsmenn hennar vildu ekki ræða við stjórnarandstöðuna um eitthvert helzta deilumál þingsins.

Hv. 1. þm. Eyf. (BSt), sem er frsm. fjhn. í þessu máli, hefur gert skýra og mjög greinilega grein fyrir því áliti n., að hún er sammála um það, að þetta frv. verði samþ., þó að ég hins vegar hafi þá sérstöðu, að ég vil fá á því nokkrar breyt. Ég mun ekki fara inn á það hér að ræða um þessi l. almennt, því að umr. um þetta frv. komu fram í sambandi við frv. um tekjuskatt og eignarskatt, sem þessi l., sem frv. þetta er till. um, eru að sjálfsögðu alveg bundin við. En ég hef leyft mér að leggja hér fram brtt. á þskj. 337, sem er þess efnis, að 4. gr. frv. verði felld burt. Ég skal að vísu viðurkenna, að útsvarsþörfum bæjanna hefur að nokkru leyti verið mætt með þeirri breyt., sem gerð var á þessu frv. í hv. Nd., þar sem áætlaður var sá hluti, sem bæjarfélögin fá af þessum stríðsgróðaskatti. En mér virðist, að það sé algerlega óeðlilegt, að þeir þegnar þjóðfélagsins, sem hæstar tekjurnar hafa, þeir skuli hafa sérstakt öryggi fram yfir aðra um ákveðinn hluta sinna tekna, sem ekki megi skerða. Ef löggjafinn á annað borð vill fara inn á þá leið, sem vel má vera, að sé rétt, að halda hlífiskildi yfir nokkrum hluta teknanna, þá álít ég, að það eigi að taka skrefið neðar í tekjustiganum og sjá um, að þeir, sem hafa miðlungstekjur, og jafnvel upp að 200 þús. kr., séu ekki varnarlausir gagnvart því að missa allar sínar tekjur, eða kannske ríflega það, í skatt-. og útsvarsgreiðslur.

Hæstv. viðskmrh. minntist á það við 1. umr., að þetta 90% ákvæði væri ekki öruggur hemill viðkomandi skattálagningunni, því að heimilt væri að leggja á veltuútsvar, sem ekki mætti draga frá tekjunum við ákvörðun skattskyldra tekna næsta ár. Þetta er rétt, því að það er hægt að leggja á veltuútsvör, ef menn vilja, á þessi 10%, án þess að það komi til frádráttar. En það er þó visst öryggi í þessari 4. gr. fyrir því. því að það er ekki hægt að búast við, að nokkurn tíma komi til, að veltuútsvar verði svo hátt, að þessi 10% hrökkvi ekki fyrir því, og ríflega það. Ég hygg, að þessi veltuútsvör hafi jafnan verið 1/2%–1 % og e.t.v. komizt í 2% hæst, án þess að ég vilji fullyrða um það, vegna þess að ég er ekki svo kunnugur störfum niðurjöfnunarnefnda víðs vegar á landinu, að ég viti það greinilega. En ég hygg, að þau hafi aldrei farið fram úr 2% af umsetningunni. En eins og ég hef bent á, verða bæjarfélögin að taka ákveðnar upphæðir á hverju ári í útsvör. Ég hygg, að nokkuð mörg bæjarfélög hafi fyrir yfirstandandi ár ætlað sér að hafa upphæðir þessar allríflegar til þess að fá ýmist fé í sjóði til framkvæmda eða til þess að greiða upp skuldir, sem er vitanlega alveg það sama fyrir þau. Og þegar bæjarstj. hafa ákveðið þetta, hefur þeim ekki verið kunnugt um það, að fram mundi koma sú breyt. á tekjuskattsl., sem ætlazt er til, að samþ. verði á þessu þingi. Þar af leiðandi hefðu bæjarfélögin getað gengið miklu lengra í útsvarsálagningunni heldur en þau geta eftir að frv. um tekjuskatt og eignarskatt, sem fyrir þinginu liggur, er samþ. Aftur á móti verða bæjarfélögin að geta náð þeim upphæðum, sem þau hafa ásett sér að ná inn, með öðrum ráðum heldur en með álagningu útsvara á tekjur, þ.e. eftir efnum og ástæðum, þó með þeim takmörkunum, sem koma fram hér í þessari 4. gr., að ekki má leggja tekjuútsvar á þá, sem hafa tekjur yfir 200 þús. kr. Ef þess vegna bæjarfélög eru neydd til þess að framkvæma útsvarsálagningu sína eins og þau hafa ætlað sér, að því leyti að ná inn með útsvörum vissri upphæð, þá. verða þau að taka útsvör sín af tekjum fyrir neðan 200 þús. kr., og um þá útsvarsálagningu eru þeim þá af löggjafanum engin takmörk sett nema að því leyti, að þau eiga að gera það eftir efnum og ástæðum. Getur þá farið svo, að lagt verði þannig útsvar á eitthvert félag langt fram yfir það, sem það hefur getu til að borga, með því að fylgja þeirri reglu að leggja á útsvör eftir efnum og ástæðum hlutfallslega. Þess vegna vil ég, að þessi 4. gr. verði numin burt úr frv., til þess að, ef það sýndi sig, að bæjarfélög þyrftu að ná inn tekjum af þessum 10% af tekjum yfir 200 þús. kr., þá mættu þau það. Og ég álít óverjandi, að veita tekjuhæstu mönnum og félögum einhver hlunnindi.

Það má vel vera, að þetta ákvæði þessara l. komi ekki til neinna árekstra í ár. En hinu, hygg ég, að ekki verði mótmælt, að löggjafanum beri skylda til að láta sömu l. ganga yfir alla. Og mætti þá orða það svo, að 4. gr. væri færð í það horf, að þeim, sem lægri tekjur hafa en 200 þús. kr., væri einnig tryggður tekjuafgangur. Ég mundi vilja ræða það atriði. En ég hef farið fram á að afnema þessa 4. gr., til þess að með þeim hætti verði náð jöfnuði á rétti þjóðfélagsþegnanna.