07.05.1942
Efri deild: 51. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti ! Ég skal ekki lengja umr. Út af því, sem hv. frsm. sagði um skoðanamun hjá mér og fulltrúa Alþfl. í mþn., vil ég benda honum á að lesa það, sem stendur í nál. á þskj. 199 frá fulltrúa Alþfl. í mþn. Ef hv. þm. hefði viljað ómaka sig til þess að lesa þetta, hefði hann getað sparað sér síðustu orð sín. Jafnframt hefur verið á það bent, að þær till. Alþfl., sem komu fram í mþn., komu fram áður en nokkurn óraði fyrir hinum gífurlega gróða, og eins og ég tók fram við 1. umr., gátu flokksmenn hv. frsm. ekki orðið sammála Alþfl., en það sýnir, að hann og hans flokksmenn eru alltaf tregir til að taka til greina till. okkar í tolla- og skattamálum, og það er þýðingarlaust að vera nú að skjóta sér á bak við till. Alþfl., sem voru gerðar á allt öðrum tímum en nú eru. Ég skal viðurkenna, að eftir yfirlýsingu hæstv. forsrh. um veltuútsvörin hefur það minna gildi, ef þau eru lögð á. Það er að vísu rétt, að til er sá möguleiki, að veltuútsvörin geti orðið meiri en þessi 10%, en getur ekki orðið í reyndinni hjá þeim, sem hafa yfir 200 þús. kr. skattskyldar tekjur. Ágreiningurinn milli mín og Framsfl. er fólginn í óréttlætinu og sérstöðunni, sem tekjuhæstu mönnunum er gefin, því að þó að veltuútsvörin komi til greina, er ekki félögum, sem hafa undir 200 þús. kr., gefinn kostur á að hafa 10% eftir. Það er bent á að taka fyrst útsvörin hjá þeim, sem hafa undir 200 þús. kr. Þessu ósamræmi er ég mótfallinn og tók þess vegna fram í fyrri ræðu minni, að ég væri frekar viðmælanlegur um að láta þetta ákvæði gilda niður á við.

Það er ofmælt hjá hv. frsm. um þörf bæjarfélaganna, og hann styðst þar ekki við neina víssu. Hann segir, að þörf bæjarfélaganna sé svo, að það þurfi að fara fram hjá því, sem útsvarslöggjöfin setur. Ég þori ekki að fullyrða hið gagnstæða, en ég hef heyrt, að eitt bæjarfélag geti ekki lagt á eins mikið og það ætlaði sér vegna þessa. Þetta er eðlilegt, því að ef það á að gilda, að bæjarfélagi sé bannað að taka útsvörin af þessum 10%, geta þau ekki lagt á nema brjóta þá reglu að leggja á eftir efnum og ástæðum. Það er ekki sýnt, að veltuútsvörin kæmu svo fram, að jafnt yrði eftir hlutfallslega af tekjum hjá þeim, sem hefðu 190 þús. og hinum, sem hefðu yfir 200 þús. Félag getur haft mikla veltu og lítinn gróða og gagnstætt. Ef á að leggja á veltuútsvör, er ven jan sú, að leggja þau á án tillits til þess, hvort félagið græðir eða ekki.

Það er ekki hægt með ummælum hv. frsm. og hæstv. forsrh. að réttlæta ákvæði 4. gr. Andinn í þessari löggjöf er óréttlátur og gefur þjóðfélagsþegnunum í skyn, að þeir, sem meira græða, skulu settir settir skör hærra.