09.05.1942
Efri deild: 53. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

70. mál, stríðsgróðaskattur

*Bjarni Snæbjörnsson:

Eins og hv. þdm. hafa séð á frv., er þar gert ráð fyrir í 2. gr., að hlutaðeigandi sveitarfélag eigi að greiða 25% af stríðsgróðaskatti, sem þar er lagður á, en þó aldrei meira en 2 kr. á móti 3 af útsvörum í sveitarfélaginu á því ári. En með tekju- og eignarskattsfrv. er kveðið svo á, að 90% af því, sem fram yfir er 200 þús. kr., skuli renna í ríkissjóð. Þegar svo er komið, er vitanlega ógerningur fyrir viðkomandi bæjarfélag að leggja á slíka gjaldþegna það útsvar, sem það þyrfti nauðsynlega að fá, og verður þetta því tilfinnanlegra, sem fleiri slík fyrirtæki eru í bæjarfélaginu. Nú sjá allir, að það er töluvert misrétti í þessu gagnvart öðrum bæjarfélögum,, sem fá sín 45% að fullu greidd. Vil ég taka til dæmis það bæjarfélag, sem ég er þingmaður fyrir, Hafnarfjarðarkaupstað. Til þess að ná þeim stríðsgróðaskatti, sem honum bæri, yrði hann að leggja 11/2 millj. útsvar á bæjarbúa. En það liggur í hlutarins eðli, að þegar ekki er hægt að leggja á útgerðarfélögin eins og gert var á s.l. ári vegna þessarar kvaðar í frv., sem fyrir liggur, þá næst ekki sú upphæð, sem bæjarfélaginu ber að öðru leyti. Það er og augljóst mál, að þegar atvinnuvegirnir ganga saman, eins og hefur sýnt sig hváð eftir annað, kemur slíkur samdráttur fyrst við stórútgerðina, sem er áhættusömust, en gefur mestan gróða, þegar vel gengur, en líka mest tap, þegar illa gengur, og gefur þá slæma afkomu hjá þeim bæjarfélögum, sem byggja mjög á þessari útgerð. Því hefur það verið keppikefli t.d. Hafnarfjarðarbæjar að reyna að mynda sér sjóð til þess að hafa eitthvað til vondu áranna. En ef tekjuskattsl. verða afgr. í þessári mynd, sem frv. fer fram á, er bæjarfélaginu ókleift að ná því, sem því ber af stríðsgróðaskatti. Og þess vegna verður tekjuöflun þessa bæjarfélags minni á móti þeim bæjarfélögum, sem geta hagnýtt sér ákvæðin í 2. gr.

Ég hef því borið fram brtt. þess efnis, að ekki skuli koma meira til útborgunar á því ári, sem skatturinn er lagður á, en stendur í 2. gr. En ef stríðsgróðaskatturinn, sem til fellst í því bæjarfélagi, er meiri en því nemur, verði afgangurinn af þeirri upphæð í vörzlum ríkisins, en eign viðkomandi sveitarfélags, og greiðist sveitarfélaginu, þegar því er brýn þörf á fé til atvinnubóta. Á þann hátt getur ríkisvaldið gætt þess, að féð sé ekki notað til einhvers og einhvers, heldur bara þegar bænum er brýn þörf og að kreppir. En bæjarfélagið á tilkall til þess fjár, en þarf ekki að knékrjúpa háttv. Alþ. eða ríkisstj. til að bjarga brýnustu nauðsyn á krepputíma. Þetta er í sjálfu sér ekki nema sanngirniskrafa, og ætti að koma í sama stað niður fyrir ríkissjóð. Ég vona því, að hv. þdm. samþ. þessa brtt.