07.04.1942
Neðri deild: 29. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

69. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Héðinn Valdimarsson:

Áður en þetta frv. gengur til n., vil ég koma með nokkrar aths. viðvíkjandi þeim skatti, sem hér er verið að breyta, og þá um leið nokkur orð um það mál, sem er hér á dagskrá næst á eftir (frv. um stríðsgróðaskatt). Ég geri ekki ráð fyrir, að ég geti haft mikil áhrif á gang þessara mála, en vil þó koma með þessar aths.

Í fyrsta lagi finnst mér ekki rétt, hvernig þessi mál eru fram borin. Maður skyldi halda, að ætlazt sé til, að lagt væri fram frv. um tekju- og eignarskatt, sem ætti að standa áfram, og svo kæmi þar til viðbótar stríðsgróðaskattur, sem miðaðist við það sérstaka ástand, sem nú er, til þess að hirða þær sérstöku umframtekjur. sem af þessu ástandi leiðir. En ef maður lítur á þann almenna skatt, þá virðist, að alls ekki sé ætlazt til, að hann standi nema um stundarsakir, vegna þess að hækkunin nær ekki nema upp í 50 þús. kr., en undir venjulegum kringumstæðum gerir maður ráð fyrir, að venjulegur tekju- og eignarskattur haldi áfram að hækka upp í miklu hærri tölu en hér er nefnd, ekki sízt þegar á það er litið, að verðlag hefur breytzt svo mikið, að 50 þús. kr. nú eru ekki meira en 30 þús. kr. fyrir stríð. Svo kemur stríðsgróðaskatturinn.

Í öðru lagi tel ég rangt að gera þá breyt., sem hér er farið inn á og hæstv. viðskmrh. hefur lagt mikið upp úr, að leyfa ekki að draga skatt og útsvar frá, heldur leggja á brúttótekjur.

Yfirleitt getur maður sagt, að til sé tvenns konar skattaform. Annað er það, að leggja á hreinar nettótekjur, en hitt er að leggja á tekjulindirnar. Þó að brugðið sé út af þessu í ýmsum löndum, eins og getið er um í. grg. hæstv. viðskmrh., þá eru það aðallega þessar tvær leiðir. Nú er horfið frá þeirri leiðinni, sem áður hefur verið farin og réttust þykir vera, að leggja á nettótekjur, og á í þess stað að leggja á brúttótekjur. Hæstv. ráðh. segir, að með því fáist jafnari tekjur fyrir ríkissjóð og einnig sé með því jafnað á milli ára hjá þeim, sem ójafnar tekjur hafa. En því er hægt að ná með eðlilegri hætti með því að taka meðaltal fleiri ára, eins og oft hefur verið talað um. Þá þóttu ástæður vera á móti því, en þær ástæður eru nú ekki fyrir hendi.

Ég verð að segja, að ég hef ekki getað reiknað nákvæmlega, hvernig þessi skattstigi verkar, en mér virðist, að á lágum tekjum muni hann ekki verða miklu hærri og að því leyti muni mönnum ekki bregða við það, sem áður var, og í sumum tilféllum mun vera lækkun.

Þá er það eitt atriði, sem mér finnst ekki hafa verið lagfært eins og skyldi, en það er um frádrátt fyrir konu og börn, og þó að maður geti sagt, að á vissu tekjubili hækki hann nokkuð, þá hefur hann að öðru leyti ekki hækkað.

Þá eru það fleiri atriði í sambandi við þessa skattstiga, sem þarna eru, sem ég vil minnast álíka í sambandi við stríðsgróðaskattinn, sem byrjar ekki fyrr en í 50 þús. kr. Nú er mikið talað um, hvaða áhrif það hafi á verðbólguna, þar sem tekjur hafa aukizt umfram sjálfa dýrtíðina. Það er mikill fjöldi manna, sem hefur ekki aðeins dýrtíðar-„skalann“, heldur miklu meiri tekjur en áður hefur verið án þess að komast upp í stríðsgróðaskatt. Mér virðist, að rétt væri í þeim tilfellum, ef tekjurnar eru 20–25 þús. kr. og upp í 50 þús., að hafa sérstök ákvæði, sem eðlilegt væri að setja í þetta frv., um sparnaðarskatt, þannig að nokkuð af þessum tekjum væri lagt til hliðar og haldið af ríkissjóði rentulausu, meðan stríðið stendur, en borgað aftur eftir stríð, t.d. á 4 árum. Það er hætt við, að mikið af þessu fé eyðist nú í það, sem er dýrt, en ekki sem nauðsynlegast, og það sé einmitt þetta tekjusvæði, sem hefur mest áhrif á dýrtíðina. Það kemur sér betur bæði vegna dýrtíðarinnar og eins vegna mannanna, sem hafa þessar tekjur, en hafa flestir litla möguleika til þess að halda þessum tekjum eftir stríð, að gera slíkar ráðstafanir í sambandi við petta frv. M.ö.o., að þetta yrði nokkurs konar stríðsskattur, sem næði niður fyrir stríðsgróðaskattinn, en menn fengju borgaðan til baka, þegar stríðinu væri lokið.

Þá vil ég minna á annað, sem mér finnst vanta tilfinnanlega við þessa löggjöf, en það er áætlun um, hvað þessi skattur gæti gefið. Ég geri ráð fyrir, eins og skattstofan fylgist með í þessu, að hægt hefði verið að gefa það nokkurn veginn upp, hvernig þetta kæmi á hvern skattskala. Og þegar á að setja sérstakan stríðsgróðaskatt á umframtekjur manna, þá finnst mér það lítt afsakanlegt af hæstv. stj. að koma ekki með eitt orð um það, hvað eigi að gera við það mikla fé, sem enginn vafi er, að safnast í ríkissjóð á þennan hátt. Í þeim löndum, þar sem stríðið er skollið á, og þar sem þurft hefur að hafa mikla landvörn, án þess að stríðið sé komið þar enn þá, þar er eðlilegt að menn sætti sig við háa skatta, því að þeir vita, að það fé fer til landvarnar eða til stríðsins. En hjá okkur, þar sem þessu er ekki að heilsa, eiga skattgreiðendur kröfu til að fá að vita, til hvers þessu fé er varið. Það er ekki nóg að vita, að það sé notað til almennra hagsmuna, því að eins og pólitík fl. er, þá er hægt að nota þetta fé á misjafnan hátt, m.a. til þess, að þeir fl., sem ráða, haldi völdum sínum betur. Því hefði átt að koma samhliða þessum frv. annað frv. um, hvernig ætti að verja þessu fé.

Ef maður tekur stríðsgróðann sjálfan, þá eru það tvö atriði, sem ég vil minnast á í sambandi við það, sem ég hef áður sagt. Hér eru 200 þús. kr. tekjur sem toppurinn á því, sem menn geta hugsað eðlilegar tekjur hér á landi, en það er sem svarar 110 þús. kr. fyrir stríð. Eins og skattal. eru hér, þá er ekki hægt að segja í sjálfu sér, að 110 þús. kr. tekjur fyrir stríð séu afskaplega miklar tekjur, þó að það sé mikið fé til að nota það, og fyrir stór fyrirtæki getur þess verið fyllilega þörf. Og taki maður ástandið, eins og það er nú, þá vitum við ekki eins um útgerðina, þó að skattarnir hafi hækkað nokkuð þar, vegna þess að með því sölufyrirkomulagi, sem nú er, koma peningarnir nokkurn veginn jafnóðum inn, en mér sýnist, að verzlunin hafi þörf fyrir mjög aukið fé frá því, sem var fyrir stríð, vegna þess hvað verðlag hefur hækkað og birgðir miklar í landinu. Maður hefur heyrt, að matvöruinnflytjendur séu skyldaðir til að hafa margra mánaða birgðir, og þurfa þeir því miklu meira veltufé. Enn fremur er sá erlendi gjaldfrestur, sem áður var hér, alveg fallinn niður, svo að það er bersýnilegt, að veltuféð verður að vera miklu meira en áður.

Nú er ætlazt til með þennan stríðsgróðaskatt, eins og fram er tekið í grg., að hann geti aldrei komizt yfir 90%. En það er fjarri því, að þetta sé rétt. Ég hef reiknað skattinn af nokkrum fyrirtækjum, sem ég hef heyrt um. Ef maður tekur tekjurnar fyrir árið sem leið og reiknar af nettótekjum, þá verður skatturinn hjá sumum þessum fyrirtækjum það hár, að hann nemur miklu meiru en tekjunum árið sem leið, og það er af því, að engin ákvæði eru um, hvernig eigi að leggja útsvör á, svo að jafnvel þó að ekki eigi að leggja á nema 90%, þá getur skattur og útsvör orðið meira en 100% samanlagt. Í öðru lagi er það út úr fjármálavandræðum síðustu ára, sem lagt var á veltuútsvar, sem var sums staðar 6% af veltunni. Og þar sem engin undanþága er gerð á þessum hluta af skattinum, þá geta þessi gjöld, þrátt fyrir alla útreikninga frv., orðið talsvert yfir 100%. Hvað sem menn hafa mikla löngun til að ná í peninga af því, sem menn álíta miklar tekjur, þá hygg ég, að hv. alþm. vilji ekki ganga inn á, að hægt sé að fara lengra í skattaálögum á atvinnurekstur en að taka allar tekjurnar, því að þá er engin hvöt til að halda áfram þessum atvinnurekstri.

Ég geri ráð fyrir, að þetta verði athugað í n., en ég vildi ekki láta hjá líða að benda á þessar röngu aðferðir, sem mér finnst vera beitt í þessu frv., viljandi eða óviljandi.

Þá vil ég að lokum minna á eitt atriði enn þá í þessu sambandi, sem alls ekki kemur fram hér á neinn hátt, en ég held, að ekki sé síður ástæða til að leggja skatt á en hvað annað, en það er viðvíkjandi sölu fasteigna. Við vitum, að bæði í Reykjavík og úti um sveitir, sennilega um allt land, hafa fasteignir hækkað mjög í verði. Hafa þær komizt í tvöfalt og jafnvel þrefalt verð miðað við það, sem var fyrir stríð. Það er að vísu gerð tilraun til að hindra, að menn geti falið tekjur sínar á þennan hátt við kaup fasteigna, en það er engin tilraun gerð til að ná í þá peninga, sem menn fá með því að selja fasteignir margföldu verði, en á það á að leggja skatt eins og hvað annað.

Ég læt svo þessi orð nægja um þetta mál nú. Ég hygg, að muni verða hægt við síðari umr. að koma með betri dæmi um ýmsa þá hluti, sem ég hef minnzt á, en ég hygg, að þeir séu svo þungir á metunum, að þessi skattal., ef samþ. verða eins og frv. nú kemur fyrir, verði mjög erfið í framkvæmd.