07.04.1942
Neðri deild: 29. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

69. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Einar Olgeirsson:

Í sambandi við þetta mál vildi ég nota tækifærið til þess að gera þá fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hversu mikill stríðsgróðinn sé og hvað við hann eigi að gera.

Ég lít svo á, að þessi gróði tilheyri ekki tekjum manna, heldur sé hann eign þjóðarinnar og hún megi ráðstafa honum. — Þess vegna beini ég fyrirspurn minni til hæstv. ríkisstj., sérstaklega hæstv. fjmrh., um, hvað þessi gróði sé orðinn mikill frá stríðsbyrjun og hve mikið sé skattlagt af honum. Mér virðist vera gengið út frá því, að útgerðin eigi að halda um 40% stríðsgróðans í sínum höndum. Hvað er það mikill hluti alls gróða stórútgerðarmannanna? Deilan stendur um það, hvað gera eigi við þennan strfðsgróða. Þjóðin viðurkennir ekki rétt útgerðarinnar til hans; því að fyrir stríð þurfti hún að bera áhættuna. af öllum útgerðarrekstri. Svo kemur stríðið með þessum mikla gróða fyrir útgerðarmennina, og þá er spurt; hvort þeim eigi að leyfast að fá þennan gróða. — Hverjar yrðu afleiðingarnar, ef þeim væru gefnir tugir millj. króna? Jú, afleiðingarnar yrðu, að stórútgerðarmennirnir réðu yfir öllum framleiðslutækjum Íslendinga og þyrftu ekki framar að spyrja þjóðarbúið ráða. Áður þurftu þeir að taka tillit til þjóðarinnar, en eftir stríðið mundu þeir geta sett þjóðinni stólinn fyrir dyrnar, alveg óháðir þjóðfélaginu, sett hnefann í borðið og sagt: „Við gerum ekki út, nema vinnulaunin lækki eða ríkissjóður veiti okkur styrk.“ Frelsi þjóðarinnar inn á við er, sem sagt, í voða, ef þannig er farið að.

Árið 1934 var auðmagnið áætlað 22 millj. kr., sem var mest skuldir hjá bönkum, en nú, þegar þær nema milli 50 og 100 millj. kr., sem er alveg óháð öllum bönkum, þá sést hvílikt geysivald er lagt í hendur þessara manna. Meiri hluti þjóðarinnar hefur við kosningar lýst sig mótfallinn slíkri ráðstöfun á stríðsgróðanum, og það yrði þess vegna gert gegn vilja þjóðarinnar að ráðstafa stríðsgróðanum þannig, að 20–30 menn í Reykjavík fengju einkarétt á öllum atvinnurekstri landsmanna. Þess vegna er nauðsynlegt að fá upplýsingar um, hversu þessi gróði er mikill, og vænti ég svars hjá hæstv. ríkisstj.

Það er margt, sem mætti ræða um þetta mál, en ég tel heppilegra að gera það við 2. umr. málsins og læt því máli mínu lokið að þessu sinni.