07.04.1942
Neðri deild: 29. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (1387)

69. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég var ekki á síðasta fundi, þegar hv. þm. Seyðf. hélt ræðu sína, og get ég því ekki svarað honum að sinni, en ég heyrði sagt, að hann hefði harmað mjög, hve skattlagning háteknanna væri lítil, og harmað í rauninni, að atvinnulífið hjá okkur skyldi vera þannig; að einstaklingar bera einhvern arð úr býtum, og var ekki annars að vænta frá þessum hv. þm. — Viðvíkjandi því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, sem var nokkuð á annan veg, þá get ég tekið undir aðvörunarorð hans um það, að of langt sé gengið að sumu leyti í skattlagningunni, og þegar hann minntist á, að frádráttarregluna ætti að afnema, og annað í sambandi vað það, þá get ég að nokkru leyti verið honum sammála. Þessir hv. þm., hv. þm. Seyðf. og hv. 4. þm. Reykv., töluðu um, að það ætti að leggja fyrir Alþ. frv. um, hvernig verja skuli þeim tekjum ríkissjóðs, sem aflað sé með þessu frv. Ekki aðeins þessir þm., heldur einnig þm. annarra flokka, hafa borið fram frv. í þessa átt. Ég legg frekar lítið upp úr þessu, því að hvaða bollaleggingar sem gerðar yrðu, þá gæti svo farið sökum breyttra kringumstæðna, að frá þessum bollaleggingum yrði að hverfa, og þess vegna finnst mér ekki rétt að ráðstafa þessu fé fyrir fram, ef öllu þyrfti að breyta síðar meir. Mér skilst, að þetta mál sé ofarlega á dagskrá hjá hv. þm., og líklega verður eitthvað gert í þessa átt, en mér er ekki ljós sú nauðsyn, sem fyrir hendi er.

Viðvíkjandi fyrirspurn hv. 4. þm. Reykv. um stríðsgróðann, þá mun ekki hægt að svara henni að svo stöddu, því að framtöl hafa ekki öll borizt skattstofunni hér né heldur úti um land, vegna þess að frestur er ekki enn útrunninn. Ef til vill verður hægt að svara þessari fyrirspurn síðar, en ég efast um, að það verði, áður en þetta mál verður afgr. hér á Alþ.

Ég vil ekki verða þess valdandi, að þetta mál komist ekki til n. á þessum fundi, og hef orð mín þess vegna ekki fleiri við þessa umr.