07.04.1942
Neðri deild: 29. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

69. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég get fullkomlega tekið undir það með hv. 6. landsk., að að undanförnu hefur mjög verið gengið á tekjustofna bæjarfélaga, og ég held, að við höfum jafnvel einhvern tíma skipzt á orðum um það efni, að vísu þá undir nokkuð öðrum kringumstæðum en nú eru.

Það er að öllu leyti rétt, sem hann sagði um þá erfiðleika, sem búast má við, að niðurjöfnunadnefndir bæjanna komist í, þegar þær fara að jafna niður útsvörum með hliðsjón af þeim skattstiga, sem hér er. Ég get fullkomlega tekið undir þau orð hans, að það verði gaumgæfilega að athuga. Hins vegar sé ég ekki, að í svipinn sé nein hætta yfirvofandi út af þessu. Yfirleitt hefur stríðsgróðaskatturinn fyrir árið 1941 verið sem aukatekjur hjá bæjunum. Útsvörunum hefur verið jafnað niður fyrir það ár án tillits til að eiga von á stríðsgróðaskattinum. Þau útsvör, sem innheimt voru 1941, hafa gengið til þarfa bæjarfélaganna, og svo eiga þau eftir sinn hluta í stríðsgróðaskattinum í árslok 1941. Þetta kemur því ekki til með að valda vanda, fyrr en farið er að jafna niður útsvörunum í árslok 1941, en þá er óvitað, hver stríðsgróðaskatturinn verður. Ég geri ráð fyrir, að hann sé mjög varlega áætlaður hjá bæjarfélögunum, og ég veit, að í Reykjavík er hann áætlaður 120 þús. kr., svo að það hefur ekki áhrif á afkomu bæjarfélagasins á þessu ári, þó að stríðsgróðaskatturinn komi seinna inn, því að hann kemur sem aukatekjur bæjarfélagsins á þessu ári.

Víðvíkjandi þeirri fyrirspurn, hvernig á því standi, að bæjarfélögunum hafi ekki verið greiddur þeirra hluti af stríðsgróðaskattinum fyrir síðasta ár, skal ég upplýsa, að mér er kunnugt um, að það hefur verið greiddur verulegur hluti þessa skatts til bæjarfélaganna. Um einstök bæjarfélög veit ég ekki, en þess er þá að vænta, að þau gangi eftir þessari greiðslu. (EmJ: Það hefur margoft verið gert.) Það hefur ekki verið gert við mig. Ef skatturinn er innheimtur, á að sjálfsögðu að vera hægt að greiða bæjarfélögunum þann hluta, sem þeim ber.