07.04.1942
Neðri deild: 29. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

69. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Ég gat þess við fyrri hl. þessarar umr., að mér virtist, að óhjákvæmilegt væri, ef þetta frv. yrði samþ., að breyta áætlun Reykjavíkur fyrir yfirstandandi ár. Þar er gert ráð fyrir stríðsgróðaskatti 120 þús. kr., en útsvörum 11 milj. kr. En það er enginn vafi, að stríðsgróðaskatturinn fer fram úr áætlun. Ég benti á það í síðustu ræðu minni, að eitt fyrirtæki hér í bæ, sem hefði útsvar eftir sérstökum reglum, greiddi 740 þús. kr. Ef þetta frv. verður samþ., þá get ég ekki séð, að mögulegt verði að leggja á þetta fyrirtæki meira en 70–100 þús. kr. Þetta gefur glögga hugmynd um, að það muni verða mjög torvelt að jafna niður 11 millj. kr., þegar ekki má leggja neitt á það, sem fer fram úr 200 þús. kr. Þetta verður að athuga. Mér er kunnugt um, að stríðsgróðaskatturinn getur ekki orðið sem aukatekjur, því að það breytir verulega álögunum í Reykjavík, ef ekkert tillit er tekið til stríðsgróðaskattsins. Það er stór hængur á að breyta svo gersamlega grundvellinum sem gert er með þessu frv., eins og augljóst er af þessu eina dæmi.