31.03.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (1396)

39. mál, Siglufjarðarvegur

*Bergur Jónsson:

Á þskj. 78 er brtt. frá mér við brtt. á þskj. 7l, og er þar farið þess á leit, að fullgerður verði Kollabúðarheiðarvegur norður að Ísafjarðardjúpi og fyrirsögn þáltill. verði: Till. til þál. um vegalagningar.

Þessi vegur er áframhald af Vesturlandsvegi. Það er eftirtektarvert, að vegagerðir fyrir Vestfirði hafa verið svo hrapallega vanræktar, að þeir eru eini landshlutinn, sem enn er ekki í sambandi við aðalsamgangnaleiðir landsins. Á þrem síðustu fjárlögum hefur verið veitt nokkur upphæð til vegar þessa úr Þorskafirði í Langadal, tvö árin 10 þús. kr., en nú eru það 15 þús. kr. að viðbættum 10 þús. kr. af benzínskatti og 10 þús. kr., sem ganga til Langadalsvegar, er mæta skal Kollabúðarheiðarveginum, sem nú er kominn í Þorskafjarðarbotn. Þótti réttara eftir rannsókn að leggja hann yfir Kollabúðarheiði en Þorskafjarðarheiði. Hér þarf sennilega miklu minna fé en á hinum stöðunum, sem um er rætt, en mikið unnið með því að koma heilum landshluta í vegasamband við Reykjavík og aðra landshluta. Þegar vegurinn er þetta langt kominn, er það alls ekkert sérstakt hagsmunamál míns kjördæmis að fá hann fullgerðan, heldur Vestfjarða í heild. Þar sem verkið er ekki dýrt, en hins vegar margra milljóna kr. tekjuauki á fjárlögum, er ekki nema eðlilegt, að þingið taki vel undir tillöguna. Á fjárlfrv. sé ég ekkert ætlað til þessa vegar, og furðar mig á þeim misskilningi, ef álitið hefur verið, að hann yrði fullger í sumar án frekari framlaga. Vona ég að hv. fjvn. athugi þetta mál ásamt hinum vegagerðunum.