17.04.1942
Neðri deild: 37. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

69. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Haraldur Guðmundsson:

Mér hefur gefizt tóm, frá því að málið var síðast til umr., til að athuga frv. nánar. Við þann nánari samanburð hefur komið í ljós, að með þeirri breyt. að hætta frádrætti greiddra skatta og útsvars, en lækka skattstiga að sama skapi, er stigið rétt spor. Þó vildi ég, að nefndin athugaði einstök atriði umreikningsins betur, einkum á tekjum milli 25 og 60 þús. og eins þeim, sem stríðsgróðaskattur nær að nokkru til, á bilinu 60–75 þús.

Við 2. gr. frv. flyt ég brtt. á þskj 178 um, að aftan við bætist orðin: eða þótt eigandi þeirra sé að öðru leyti undanþeginn greiðslu tekjuskatts. — Það er vitað, að síðustu tvö árin hefur allmikið verið að því gert — í staðinn fyrir að greiða fé út úr varasjóði — að selja hlutabréf félags í heild til að losa bundið fé og komast um leið undan eðlilegum skattgreiðslum með það fé. Að vísu halda sumir menn fram, að við slíkar eignabreytingar eigi féð að verða skattskylt og þurfi ekki frekari ákvæða við. En það mun ekki nægja, þótt ótvírætt væri í lögum. En það þarf að verða ótvírætt. — Ýmis fyrirtæki og stofnanir njóta nú skattfrelsis, og ef þau eru kaupendur; er ekki hægt að ná svo til gróðans sem á að ná, nema bætt sé við ákvæðinu í brtt. minni. Hv. frsm. mæltist til, að þessi till. væri tekin aftur til 3. umr., og vil ég verða við þeirri ósk, en þá vildi ég benda á, hvort ekki væri rétt, að aðrir færu eins að og brtt. á þskj. 182 væri tekin aftur til 3. umr.

Brtt. mína á þskj. 178,2, a–c, við 3. gr. verð ég að skýra nokkuð. Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að allt það fé, sem félögin leggja í varasjóð, sé skattfrjálst, nema það fari fram úr vissum hluta teknanna. Því meiri sem gróði félaganna er, því meira fá þau skattfrjálst. Í gildandi l. er aðeins viss hluti þess, sem lagt er í varasjóði, skattfrjáls, sem kunnugt er, en nýjung þessi var tekin upp til þess að hvetja félögin til að leggja sem mest í varasjóði. Ég álít alveg rangt og óeðlilegt að gera allt varasjóðstillagið skattfrjálst og láta takmörkun gildandi l. niður falla. Mér skildist á hv. frsm., að hann væri einnig á því máli, en hann taldi, að með þeirri breyt., sem nú væri gerð á skattstiganum, kynni þá álagningin að „reka sig upp undir“, — nema samtals meira en 100%. Það er rétt, að þetta er hugsanlegt í einstökum tilfellum, en aðeins þegar um mjög háar tekjur er að ræða eða það, ef til viðbótar skattinum kæmi hærra útsvar á þann hluta tekna, sem er undir 200 þús., en þann sem þar er yfir. Ég vil biðja menn að athuga útreikning á bls. 7 í frv. á þskj. 125, þar sem ræðir um félag með 600 þús. kr. ágóða. Það greiðir samkv. frv. 83 476 kr. tekjuskatt og 172 044 stríðsgróðaskatt, samtals 255 520 kr. Þá er eftir að reikna útsvar af þeim hluta tekna, sem er innan við 200 þús., og sé gert ráð fyrir 70 þús. þar, verða þetta alls liðug 325 þúsund eða 54% af 600 þús. Ef till. mín verður samþ. og félagið leggur eins mikið í varasjóð og það getur mest fengið skattfrjálst (að 3/4), verða það 267 2/3 þús., og er þá komið í liðug 580 þús. samtals. — Það rekur sig ekki upp undir, og þarna er miðað við hæsta skattstiga og útsvarsálagningar, sem mun þurfa að gera ráð fyrir. Auk þess segir í niðurl. 3. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Nú hrökkva hreinar árstekjur félags að viðbættri þeirri hreinni eign, sem félagið á umfram varasjóð og hlutafé, eigi fyrir skatt- og útsvarsgreiðslum og því varasjóðstillagi, sem undan,þegið er skattgreiðslu samkv. l. þessum, og er þá heimilt að taka þá fjárhæð, sem á vantar, úr varasjóði.“ Þessi varnagli er sleginn af því, að ekki hefur þótt ósvinna að gera ráð fyrir, að álagning ræki sig „upp undir“, þannig að til varasjóðs þyrfti að taka. Mér finnst ástæðulaust, eins og ég sagði, að víkja svo frá gildandi l. sem gert er með því að gera allt varasjóðstillagið skattfrjálst. Það beinlínis örvar peningastrauminn, sem síðan eykur dýrtíðina óviðráðanlega. Þeir peningar geta unnið meira gegn stefnu ríkisstj. í dýrtíðarmálunum en hún er fær um að mæta með gagnráðstöfunum sínum. Það er einkennilegt, að samtímis því, sem allt á að miða við „stöðvun dýrtíðarinnar“, koma fram slíkar till., sem geta ekki miðað að öðru meir en hleypa dýrtíðarflóði af stað.

Sömu tilhneigingar til að losa um féð eða sem mestan hluta af gróðanum koma víðar fram í frv. og það í þessari gr. Í gildandi l. er bannað að taka fé úr varasjóði til að kaupa ýmsar eignir eða til starfsemi, sem er óviðkomandi rekstri félagsins. Nú er lagt til að fella þetta niður. Ég legg til í b-lið brtt. minnar við 3. gr., að ákvæðin séu tekin upp aftur, en jafnframt haldið c-lið frv. sem viðbótarákvæði, og yrði hann þá d-liður og byrjaði með tilvísun til næsta liðs á undan (c-liður brtt.). Hv. frsm. sagði, að ástæðari til þess, að þetta væri fellt niður, væri sú, að reynslan sýndi, að erfitt væri að framfylgja ákvæðunum. Þá veit ég ekki, hvernig skattalög ættu að vera, ef miða skyldi við það eitt, að aldrei yrði deilt um framkvæmd þeirra og skilning sumra atriða. Þá yrði vist erfitt að ná inn nokkrum sköttum. Vandkvæðin um þessi atriði þurfa ekki að stafa af neinu nema því, að nýmælið er aðeins ársgamalt og engar venjur skapaðar um framkvæmd á þessu. Ef það fær að haldast óbreytt, skapast venja um framkvæmdina, studd af reglugerð, og vandinn leysist.

Sú viðleitni frv. að losa um gróðann er alveg í ósamræmi við það, sem ég tel rétt nú. Ég tel, að að fé, sem reksturinn þarf ekki, eigi að binda sem fastast, unz þörf er á því aftur til reksturs fyrirtækjanna. Í samræmi við þessa skoðun mína legg ég til í 3. brtt. minni, að 7. Gr. frv. falli niður, en hún er um það, að hlutabréf skuli talin til skatts með nafnverði, ef hlutaféð er óskert, — hvað sem sannvirði liður, — en í gildandi l. er ákveðið, að eigendur meti þau sjálfir til skatts eftir sannvirði, þ.e. sölugengi þeirra. Nú vita menn dæmi þess, að hlutabréf hafi verið seld allt að þrítugföldu nafnverði. En ef frv. yrði samþ., mundi eignarskatturinn stórlega lækka. Ég verð að telja, að ekki sé ástæða til að lækka eignarskattinn, sízt í þessu tilfelli, því að aukningin á verðmæti bréfanna hefur orðið fyrir orsakir, sem eigendurnir eiga sjálfir engan þátt í. En það er ekki eingöngu á þetta að líta, heldur eru með þessu allar hömlur teknar burtu við því, að greiddur sé sem hæstur arður til eigenda. Ef nú er greiddur 20% arður, ferfaldast eignarskatturinn líka, en þó borguð séu 50 eða 100%, hefur það engin áhrif á framtalsverð bréfanna til eignarskatts. Það er bara ýtt undir það, að fél. séu gefnar lausar hendur um aukaútborgun arðs, en slíkt tel ég óeðlilegt.

Hv. frsm. segir, að um tvísköttun sé að ræða, og ég játa, að það er rétt, enda eru óteljandi dæmi þess í skattal. Það byggist á því, að hlutafélög og eigendur hlutabréfa eru skoðaðar tvær aðgreindar persónur. Hlutafélag er sérstök persóna í augum skattayfirvaldanna, bréfaeigandi líka. Ef ég hef stúlku til innanhússverka, borga skatt af mínum tekjum og greiði henni kaup, en hún borgar skatt af því kaupi, þá er það tvísköttun. Það er sízt meiri ástæða til að taka það, sem hér er um að ræða, meira nærri sér en aðra tvísköttun, en hins vegar er verið að gefa félögunum rýmra svigrúm um að ráðstafa gróðanum til hvers, sem vera skal, óviðkomandi starfsemi félaganna sjálfra.

Ég skal taka það fram um ákvæði b-liðs 12. gr., að ef ekki fæst breytt ákvæðinu um varasjóðstillagið eftir brtt. minni tel ég sjálfsagt að hækka framlag nýbyggingasjóðs frá því, sem lagt er til. Ég ætla að bíða með að bera fram brtt. um það, þar til ég sé, hvað ofan á verður í hv. d. Sama er að segja um d-lið sömu gr., um tillög einstaklinga til nýbyggingarsjóðs.

Um till. fjhn. á þskj. 179 vil ég segja, að við nánari umhugsun teldi ég rétt að athuga betur en gert hefur verið, hvort ekki væri ástæða til að hafa b-lið annarrar till. með öðrum hætti en hér er. Út af hugleiðingum hv. frsm. áðan vil ég skjóta því til hans, að ég held, að það yrði erfitt í framkvæmd, ef heimilin eiga að halda sérstakan reikning um lyfjakaup og greiðslu fyrir minni háttar læknishjálp. Ég veit ekki, hvort rétt væri að ganga lengra en að taka vissar tegundir eða stærri tilfelli. Það er ekki hægt að eltast við einstaka reikninga. Hins vegar er eðlilegt, að stærri aðgerðir komi til frádráttar. Ég veit ekki, hvort hv. meðnm. mínir fallast á að taka till. aftur til 3. umr.

Um aðrar till. n. er ekkert að segja.

Um brtt. á þskj. 181 skal ég geta þess, að ég er meðmæltur fyrr í till. Ég vil taka það fram, að gefnu tilefni frá hv. frsm., að að sjálfsögðu er skattan. nú ekki aðeins heimilt, heldur og rétt, að þær krefjist rannsóknar. En mér finnst eðlilegt, að vænta megi skjótari afgreiðslu, ef sérstakur valdsmaður er til að annast þessi mál. Um b-liðinn á sama þskj. man ég ekki, að rætt væri í n.

Það, sem ég tel megingalla frv., er að með tvennum ákvæðum er beinlínis losað á þeirri bindingu, sem á síðast þingi var lögð mikil áherzla á að koma á þær tekjur, sem stafa í mörgum tilfellum af óeðlilegum gróða.