31.03.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (1403)

54. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég heyri á orðum hæstv. ráðh., að sú athugun, sem gert var ráð fyrir í dagskránni á þingi í fyrra, hefur þá ekki farið fram enn, en sjálfsagt er tóm til að gera hana enn þá. Mér þykir vænt um, að hæstv. ráðh. býst við, að þessi athugun fari fram, en að sjálfsögðu þarf hún ekki að tefja fyrir samþykkt þessarar till., vegna þess að hér er ekki farið fram á, að þessi bréf verði keypt öðru verði en því, sem stj. telur hæfilegt að athuguðum öllum málavöxtum. Um málavextina vona ég, að það komi í ljós, að ríkið sjái sér fært að kaupa þessi bréf allgóðu verði fyrir þá, sem selja, eftir því sem ég hef frétt af hag stofnunarinnar upp á síðkastið.

Ég vil svo vona, að hæstv. ráðh. leggi sitt lið ásamt hv. n. að leiða málið til farsællegra lykta.