17.04.1942
Neðri deild: 37. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

69. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Jón Pálmason:

Aðeins örfá orð vildi ég segja í tilefni af ummælum hv. frsm. um brtt. mín og hv. þm. Dal. Hv. frsm. tók það fram, að skattakvöð, sem á hlutabréfunum hvílir, falli niður, ef viðkomandi atvinnufyrirtæki tapar á rekstri síum, svo að hlutabréfin komist niður í nafnverð. Þetta er náttúrulega rétt. En í öðru lagi vildi hv. þm. halda því fram, að sú aðferð sé rétt, sem gert er ráð fyrir í frv., af því að menn yrðu að taka tillit til þess, hvernig efnahagur félagsins er, þegar þeir kaupa hlutabréf þessi. En ég held, að að sú tilfinning sé yfirleitt ekki vakandi hjá mönnum, að þessi kvöð hvíli á hlutabréfum.

Hvað snertir till. frsm. og hv. 1. þm. Rang. um nýjan rannsóknardómara í þessum málum, þá er það rétt, sem hv. frsm. sagði, að þeim sem teldu rétt fram, stafaði enginn hætta af slíkum lögfræðingi. Sannleikurinn er sá, að ekki mundi nokkur hætta stafa af þessum lögfræðingi, ef maður ætti víst, að hann yrði sanngjarn maður í dómum sínum og beitti ekki hlutdrægni við þá menn, sem hann þyrfti að athuga skattaframtöl hjá. Þetta er engan veginn víst, og þess vegna gæti þetta vald, sem slíkur maður fengi, verið mjög hættulegt í höndum manns, sem hlutdrægur reyndist. Ég tel enga þörf á nýjum dómi í þessum málum og mun því greiða atkv. gegn þessari brtt.